Fasteignaævintýri Hlynur Sigurðsson upphafsmaður Fasteignasjónvarps.
Fasteignaævintýri Hlynur Sigurðsson upphafsmaður Fasteignasjónvarps.
,,Það voru margir sem töldu mig brjálaðan að leggja út í þetta ævintýri", segir Hlynur Sigurðsson stofnandi Fasteignasjónvarpsins.

,,Það voru margir sem töldu mig brjálaðan að leggja út í þetta ævintýri", segir Hlynur Sigurðsson stofnandi Fasteignasjónvarpsins. ,,Þetta byrjaði þegar ég var að flakka á milli sjónvarpsstöðva einhvern daginn og sá lítið brot af dönskum þætti þar sem verið var að sýna fasteignir. Ég horfði reyndar bara í hálfa mínútu en það var nóg til að það kviknaði ljós í kollinum á mér. Ég fór svo út að hlaupa og hugmyndin var nærri fullsköpuð þegar heim var komið".

Fasteignasjónvarpið hefur verið starfrækt í rúmt eitt og hálft ár og hefur þróast töluvert frá upphafi. ,,Helga Hermannsyni og Hannesi Steindórssyni, þáverandi dagskrár- og auglýsingastjóra SkjásEins leist strax vel á hugmyndina og úr varð að þátturinn Þak yfir höfuðið fór í loftið. Morgunblaðið sýndi þessu einnig áhuga og fór svo að auk sjónvarpsþáttanna voru myndskeiðin aðgengileg á fasteignavef mbl.is. Þetta gekk ljómandi vel og viðtökurnar voru góðar. Þetta var reyndar á þeim tíma sem allt var vitlaust að gera og eignir voru seldar á mettíma, þannig að það má segja að þetta hafi verið vitlaus tími upp á það að gera. Þrátt fyrir það voru menn tilbúnir að prófa og ég fékk góða styrktaraðila með mér í verkefnið".

Fyrsti þátturinn fór í loftið 15. mars 2005. Seinna um sumarið kviknaði sú hugmynd að stofna sér sjónvarpsstöð sem sýndi fasteignakynningar allan sólarhringinn. ,,Sér sjónvarpsstöð var alltaf draumurinn og í raun framtíðarmarkmið. Þetta gerðist ótrúlega hratt. Ég og Bússi, núverandi dagskrárstjóri SkjásEins ræddum þetta í júní eða júlí og um miðjan nóvember var Fasteignasjónvarpið komið í loftið. Þegar maður hugsar til baka finnst mér þetta ótrúlegt – þótt það sé ekki nema ár liðið".

Fasteignasjónvarpið er í samstarfi við fasteignasala sem bjóða viðskiptavinum sínum kynningu í Fasteignasjónvarpinu. ,,Fólk hefur einnig samband við okkur en við höfum valið þá leið að tilgreina alltaf hvaða fasteignasala selur eignina. Við höfum átt mjög gott samstarf við fasteignasala enda allra hagsmunir að eignin seljist sem fyrst".

Áður en fasteignaævintýrið hófst starfaði Hlynur sem fréttamaður hjá Sjónvarpinu. ,,Ég vann hjá Sjónvarpinu í rúm þrjú ár og líkaði rosalega vel. Frábær mórall og gaman að vinna á svo stórum vinnustað. Það blundaði samt alltaf í mér að starfa sjálfstætt. Ég er einn af þeim sem er fljótur að sjá business hliðina á hlutunum og því höfðu margar hugmyndir fæðst og jafn margar dagað uppi hjá mér. En ég ákvað að kýla á þetta þar sem ég vildi ekki horfa tilbaka eftir 10 ár og hugsa, hvað ef... Ég skal reyndar viðurkenna það að þegar ég var búinn að reka Fasteignasjónvarpið í mánuð hundleiddist mér að sitja einn á skrifstofu eftir að hafa komið af svo fjölmennum og skemmtilegum vinnustað sem RÚV er. En það rjátlaðist þó fljótt af mér".

En hvernig gengur reksturinn í dag? ,,Reksturinn gengur ágætlega. Markaðurinn hefur breyst töluvert síðan ég byrjaði fyrst. Lætin eru að baki og eins og er virðist markaðurinn í nokkru jafnvægi. Þegar hægist á sölu verður meira að gera hjá okkur þar sem fólk þarf þá að markaðssetja eignina sína betur en áður".

Aðspurður um hvað framtíðin beri í skauti sér segir Hlynur: ,,Það eru miklir möguleikar fyrir hendi. Draumurinn er að fólk geti skoðað eignir "on demand" í sjónvarpinu. Þ.e. þá velur það hvaða eign það vill horfa á þegar því hentar. Hvenær þetta verður að veruleika skal ósagt látið – vonandi sem fyrst!"