George Bush Bandaríkjaforseti átti í gær fund með sínum nánustu samstarfsmönnum um framtíð Íraks. Að honum loknum sagði hann að fundarmenn hefðu komist vel áleiðis í að móta nýja áætlun en þó þyrfti að ræða málið nánar.

George Bush Bandaríkjaforseti átti í gær fund með sínum nánustu samstarfsmönnum um framtíð Íraks. Að honum loknum sagði hann að fundarmenn hefðu komist vel áleiðis í að móta nýja áætlun en þó þyrfti að ræða málið nánar. Bush hefur tvo kosti og er hvorugur góður. Hann getur ákveðið að hefja brottflutning bandarísks herliðs frá Írak eða að setja aukinn kraft í hernámið.

Í liðinni viku gekkst Bush við því að illa gengi í Írak. Það eru orð að sönnu. Ástandið í landinu er skelfilegt. Morð, rán og gripdeildir eru daglegt brauð. Í Bagdad, höfuðborg landsins, er enginn öruggur. Daglega finnast þar tugir líka og það telst vart fréttnæmt lengur. Innan hins svokallaða "græna svæðis" þar sem öryggisgæsla er gríðarleg eru menn öruggir, en annars staðar í borginni hafa allir ástæðu til að óttast um líf sitt. Einn ráðherra í ríkisstjórn Íraks mun aldrei hafa þorað að fara í ráðuneytið sitt af ótta við að verða sýnt banatilræði.

Bandaríkjamenn ráða ekkert við ástandið í Írak og bandaríski herinn hefur ekki meira að segja en hver annar hópur sem þar hefur tekið upp vopn. Írakar sýta ekki fall Saddams Husseins en virðing þeirra fyrir Bandaríkjamönnum er harla lítil.

Til marks um það hvað Bandaríkjamenn hafa lítil áhrif eru hreinsanirnar sem nú eiga sér stað í Bagdad. Sjítar hafa undanfarið flæmt súnníta í burtu og í fréttum um helgina kom fram að í tíu hverfum, sem áður voru blönduð, búi nú aðeins sjítar. Súnnítar í landinu eru skelfingu lostnir við þá tilhugsun að sjítar taki völdin. Í tíð Saddams Husseins réðu súnnítar lögum og lofum en nú eru sjítar markvisst að sölsa völdin undir sig.

Undanfarna mánuði hefur ofbeldið í Írak færst í aukana og hefur ekki verið meira frá því að íraska bráðabirgðastjórnin tók við í Írak um mitt ár 2004. Fréttaskýrendur segja líklegra að Bush ákveði að reyna til þrautar fremur en að kveðja herinn heim. Leiðtogar sjíta í Írak gera hins vegar ráð fyrir því að nú styttist í að Bandaríkjamenn hverfi á braut og eru farnir að lýsa því opinberlega hvernig þeir ætla að sitja um súnníta sem sýni mótspyrnu.

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var yfirmaður bandaríska herráðsins þegar Bandaríkjamenn flæmdu Íraka út úr Kúveit. Þá lagðist hann gegn því að flótta íraska hersins yrði fylgt eftir alla leið til Bagdad og Saddam Hussein steypt af stóli með þeim orðum að þá myndu Bandaríkjamenn bera ábyrgð á framhaldinu. Bandaríkjamenn bera ábyrgð á ástandinu í Írak um þessar mundir og geta ekki skotið sér undan henni. Það hlýtur hins vegar að vera umhugsunarefni hversu lengi þeir eigi að þráast við þegar hægt er að færa rök fyrir því að vera þeirra í Írak auki frekar á glundroðann og þjáningar almennra borgara, en dragi úr.