Guðjón Árni Antoníusson , knattspyrnumaður, var í fyrrakvöld útnefndur íþróttamaður ársins 2006 hjá Keflavík, íþrótta- og ungmennafélagi . Guðjón, sem er 25 ára varnarmaður, lék stórt hlutverk í liði Keflvíkinga sem varð bikarmeistari.
Guðjón Árni Antoníusson , knattspyrnumaður, var í fyrrakvöld útnefndur íþróttamaður ársins 2006 hjá Keflavík, íþrótta- og ungmennafélagi . Guðjón, sem er 25 ára varnarmaður, lék stórt hlutverk í liði Keflvíkinga sem varð bikarmeistari.

Dóra Stefánsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við sænska liðið Malmö FF, til tveggja ára.

Franski handknattleiksmaðurinn Joel Abati yfirgefur Magdeburg í vor og heldur heim til Frakklands. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við meistaralið Montpellier . Abati, sem er 36 ára gamall, hefur verið í herbúðum Magdeburg frá árinu 1997 og hefur á þeim tíma leikið 302 leiki í þýsku 1. deildinni og skorað 1.394 mörk.

Sevilla , efsta liðið í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu, hefur fest kaup á rússneska sóknarmanninum Alexandr Kerzhakov frá Zenit Leningrad og samið við hann til hvorki meira né minna en hálfs sjötta árs. Forráðamenn Zenit tilkynntu að þeir hefðu um leið gert langtíma samstarfssamning við Sevilla sem væri um 15 milljóna evra virði.

Gífurlegur fótboltaáhugi er í norska bænum Aalesund en lið staðarins vann sig í haust upp í úrvalsdeildina. Með liðinu leikur Keflvíkingurinn Haraldur Freyr Guðmundsson en hann var einmitt kjörinn leikmaður ársins hjá félaginu á þessu ári.

Í vikunni voru nær allir ársmiðar á leiki Aalesund í úrvalsdeildinni á þessu ári seldir, nokkuð á áttunda þúsund, og þegar búið er að bæta við þeim miðum sem styrktaraðilar og frímiðahafar fá, hefur félagið aðeins um 1.500 til 2.000 miða eftir til ráðstöfunar á hvern heimaleik. Heimavöllur félagsins, Color Line Stadion, rúmar ríflega 10.600 manns og nokkuð ljóst að uppselt verður á hvern einasta leik hjá félaginu.

Chelsea tilkynnti í gær að John Terry, fyrirliði liðsins og enska landsliðsins, hefði gengið undir aðgerð í gær vegna meiðsla á baki hjá sérfræðingi í Frakklandi og var sagt að aðgerðin hefði gengið vel. Ekki var sagt hvað Terry yrði lengi frá vegna bakmeiðslanna. Vörn liðsins er ekki söm og áður, sem sést best á því að Chelsea hefur fengið á sig tvö mörk í hverjum af síðustu fjórum leikjum sínum.

Dean Ashton, miðherji West Ham, verður frá keppni í tvo mánuði til viðbótar vegna meiðsla á ökkla, sem hann hlaut í ágúst. Alan Curbishley, hinn nýi knattspyrnustjóri West Ham, sagði að menn hefðu vonað að Ashton yrði tilbúinn fljótlega eftir áramót, en það er nú ljóst að svo verður ekki.