* Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur svarar fyrirspurnum á leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt). Eldri spurningar og svör eru birt á www.leoemm.com Spurt: Ég er með Subaru 1800 GL árg. 1989 sem er erfiður í gang í kulda.

* Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur

svarar fyrirspurnum á leoemm@simnet.is

(Ath. Bréf geta verið stytt). Eldri spurningar og svör eru birt á

www.leoemm.com

Spurt: Ég er með Subaru 1800 GL árg. 1989 sem er erfiður í gang í kulda. Þetta lýsir sér eins og rafmagnsleysi – eins og startarinn snúist svona hálfan hring en komist ekki lengra vegna straumleysis. En svo á endanum startar hann og hefur þá nóg rafmagn til þess.Við mælingu kom í ljós að rafgeymirinn var orðinn slappur, datt niður í 10–11 volt við mælinguna. Ég keypti því nýjan rafgeymi. En næsta dag vildi hann ekki starta og gerði það ekki fyrr en eftir margar tilraunir. Stundum virðist hjálpa ef ég færi hann úr stað – læt hann renna aðeins til og prófa svo aftur. Hvað getur verið að?

Svar: Sennilegast er að kolin í startaranum séu uppurin. Í flestum japönskum bílum eru vandaðir startarar og oft eru kolin það eina sem slitnar og tiltölulega lítið mál að endurnýja þau. En séu þau ekki fáanleg eða startarinn verr farinn getur borgað sig að kaupa nýjan. Startarar og alternatorar hafa fengist á góðu verði hjá Bílanausti og hjá Bílarafi í Kópavogi (kol gætu einnig fengist þar). Þar sem þetta er frekar algengur bíll getur startarinn verið til á partasölu.

Hitanemi í Pajero dísil

Spurt: Keypti nýlega Pajero 1998 með 2,8 dísilvél og tók m.a. eftir því að hitamælirinn virkaði ekki en vélin virtist þó í lagi. Nú þegar fór að kólna í veðri fór gangsetning að verða mjög erfið og þá datt mér í hug að hitamælirinn gæti átt einhvern hlut að máli. Kom þá í ljós að hann var ótengdur. Eftir að hafa tengt mælinn hitanemanum fór hann að virka. En þá kom nýtt vandamál til sögunnar því vélin varð steinmáttlaus og fór að reykja. Bíllinn varð eiginlega alveg ómögulegur fyrir nú utan það að vélin fór seint í gang að morgni og gekk illa köld. Þegar ég tók hitamælinn aftur úr sambandi skánaði vinnslan fljótlega til mikilla muna. Hvað getur valdið þessu?

Svar: Virki hitamælirinn eðlilega bendir það til að hitaneminn í vatnsganginum sé í lagi en eitthvað að rafleiðslum eða straumloku sem tengjast honum og forhitunarbúnaðinum en þessi sendir er jafnframt stýriliður fyrir forhitun og kaldstart. Sé hitaneminn nýlegur gæti hann verið af rangri gerð. Bilun í búnaði sem stýrir inngjöf á móti þjöppuþrýstingi gæti tengst þessu. Eðlilegast væri að láta athuga þetta á dísilverkstæði (t.d. hjá Vélalandi eða Framtaki).

MAP-slanga í Megane

Spurt: Ég er með Renault Megane Berline BSK B4 1998. Þegar fór að kólna höktir hann og nötrar þar til vélin hefur hitnað en þá virðist hann vera eðlilegur. Hvað getur orsakað þetta? Annað: Um leið og ég stíg á bremsuna hættir hægra stefnuljósið að blikka en kemur strax og ég sleppi bremsunni?

Svar: Map-sensorinn er ferkantaður svartur plastkassi á hvalbaknum bílstjóramegin. Líklegast er að slangan frá honum í inngjafarkverkina sé lek. Slangan (8 mm) liggur neðan úr honum og í inngjafarhálsinn á soggreininni. Áður en þú skiptir um slönguna, sem er varahlutur nr. 7700273689, skaltu losa hana af hálsinum og stinga 4 mm bor eða síl í gatið á inngjafarhálsinum til að öruggt sé að truflunin sé ekki vegna stíflu í því. Annað sem getur valdið svona truflun eftir kaldstart er hitanemi í vatnsganginum sem stýrir kaldræsiblöndunni.

Athugaðu perurnar í afturljósunum – ein eða fleiri eru brunnar eða sambandsleysi vegna útfellingar – það veldur þessum draugagangi með stefnu/bremsuljós.