Skilin Kid Rock og Pamela Anderson skildu á árinu, vegna Borats vill Rock meina.
Skilin Kid Rock og Pamela Anderson skildu á árinu, vegna Borats vill Rock meina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvort fannst þér eftirminnilegra þegar Borat barðist allsber við félaga sinn Azamat eða þegar Britney Spears ákvað að skilja við Kevin Federline? Hvort hefði þig langað að fara á tónleika með Paris Hilton eða lesa nýju bókina hans O.J. Simpson?

Hvort fannst þér eftirminnilegra þegar Borat barðist allsber við félaga sinn Azamat eða þegar Britney Spears ákvað að skilja við Kevin Federline? Hvort hefði þig langað að fara á tónleika með Paris Hilton eða lesa nýju bókina hans O.J. Simpson?

Það er allavega af nógu að taka þegar litið er yfir næstum liðið ár í heimi fólksfrétta.

Eftir að hafa hoppað á húsgögnum í beinni útsendingu til að tjá ást sína á Katie Holmes gekk Tom Cruise loksins að eiga sína heittelskuðu á árinu, auk þess sem þeim fæddist dóttirin Suri.

Fleiri stjörnur fjölguðu sér á árinu og margir stöldruðu eflaust við nafngiftir nýbakaðra foreldra. Þau Gwyneth Paltrow og Chris Martin ákváðu að skýra nýfæddan son sinn Moses, en fyrir áttu þau dótturina Apple. Violet varð fyrir valinu hjá þeim Ben Affleck og Jennifer Garner á dóttur sína og Shiloh Jolie Pitt bættist í sístækkandi fjölskyldu þeirra Angelinu Jolie og Brad Pitt. Nafngiftin Bluebell Madonna telst þó sú sérstakasta á árinu, en það var dóttir fyrrverandi kryddpíunnar Geri Halliwell sem ber þetta nafn.

Og enn af nafngiftum. Það fyrirtæki sem sér um að prenta nafnspjöld fyrir Sean Combs hefur nóg að gera, þökk sé hinum óákveðna tónlistarmanni sem skipti enn um nafn á árinu. Puff Daddy, Puffy, P Diddy, Diddy eða Sean Combs líkt og hann heitir réttu nafni neyddist til að skipta um nafn enn eina ferðina eftir að breskur útsetjari, sem kallar sig Diddy, fór í mál við Combs.

Ættleiðingargleði greip um sig hjá þeim ríku og frægu. Angelina Jolie og Brad Pitt létu sér ekki nægja að eignast sitt eigið barn heldur eiga þau nú tvö ættleidd og eru að sögn alvarlega að íhuga fleiri ættleiðingar. Madonna olli þó talsvert meira fjaðrafoki þegar hún ættleiddi drenginn David frá Malaví. Þótti mörgum framhjá sér gengið og gerðu athugasemdir við einkennilega stuttan biðtíma stórstjörnunnar eftir barni frá Malaví.

Ósmekklegasta endurkoma ársins var eflaust þegar O.J. Simpson hugði á bókaútgáfu. Hann ætlaði að senda frá sér bókina If I Did It þar sem hann reifaði meðal annars hugmyndir sínar um hvernig hann hefði farið að, hefði hann myrt fyrrverandi eiginkonu sína Nicole Brown og vin hennar Ron Goldman. Simpson var sem kunnugt er sýknaður af morðákærunni á sínum tíma.

Flestum þótti uppátækið taktlaust og þá sérstaklega þegar í ljós kom að útgáfa bókarinnar hefði tryggt Simpson 247 milljónir króna.

Rupert Murdoch, eigandi útgáfufyrirtækisins sem hugðist gefa bókina út, ákvað í kjölfarið að hætta við útgáfuna.

K-Fed var ekki sá eini sem skildi við stjörnu á árinu og uppskar andúð almennings. Sé eitthvað að marka bresku slúðurpressuna eiga fáir minna uppá pallborðið þar í landi en Heather Mills, verðandi fyrrverandi eiginkona Paul McCartney.

Pete Doherty var mikið á milli gulu tanna slúðurpressunnar á árinu og sjaldnast, ef nokkurntíma, fyrir sigra á tónlistarsviðinu. Pete virðist kominn á sama stall og stöllurnar Paris og Britney, allt sem þau gera er fréttnæmt en fáir muna fyrir hvað þau voru upphaflega þekkt.

Óumflýjanlega kvöddu nokkrar stjörnur þennan heim á árinu. Ed Bradley úr 60 mínútum lést eftir baráttu við hvítblæði, Syd Barrett úr Pink Floyd dó og rapparinn Proof var skotinn til bana. Leikstjórans Robert Altmans var minnst víða um heim og einnig krókódílamannsins ástralska Steve Irwin, sem stunginn var af gaddaskötu í einum af ævintýraferðum sínum.

Það voru ekki bara áðurnefnd stórmenni sem kvöddu þennan heim á árinu. Leikarinn Ceorge Clooney þurfti að sjá á eftir félaga sínum Max, svíninu sem hann hefur haft sem gæludýr í áraraðir. Einnig drapst hinn hvíthærði Moose í sumar, en hundurinn sá er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Eddie í sjónvarpsþáttunum Frasier .

Í þessu samhengi má nefna að lag James Blunt "Goodbye My Lover" var á árinu valið það lag sem flestir Bretar vildu láta spila í jarðarförinni sinni. Það fylgir þó ekki sögunni hvort hinir látnu hér að ofan voru á sama máli.

Sem oftar var grannt fylgst með ástarlífi fræga fólksins, hver er með hverjum og hverjir eru að skilja. Sumt kom á óvart í síðarnefnda flokknum en annað ekki.

Eminem skildi fyrir fullt og allt við Kim sína, sem hann hefur gifst tvisvar en úthúðað á plötum sínum þess á milli.

Leikaraparið Ryan Philippe og Reese Witherspoon skildu að skiptum eftir að hafa æ ofan í æ vísað brestum í sambandinu á bug. Og skilnaðarorsökin ... jú ósættanlegur ágreiningur!

Kid Rock og Pamela Anderson skildu eftir örstutt hjónaband enda ráðlagði Pamela fólki að gifta sig ekki í sumarfríi eftir nokkra vikna kynni. Rock vildi hinsvegar meina að Borat hefði átt sök á skilnaðarmálinu...

Mikið var skrifað og skrafað um James Bond á árinu. Valinn var nýr, bláeygur og ljóshærður Bond, Daniel Craig að nafni. Ekki voru allir á eitt sáttir með valið og var Craig úthúðað fyrirfram og kunnátta hans í bílakstri meðal annars lögð honum til lasts. Óhætt er að segja að Craig hafi þó komið, séð og sigrað enda það næstum einróma skoðun gagnrýnenda víða um heim að Bond hafi gengið í endurnýjun lífdaga og það vel.

Ekki er hægt að komast hjá því að nefna Paris Hilton sem hélt áfram að baða sig í sviðsljósinu fyrir, já fyrir hvað. Hún var þó skráð í Heimsmetabók Guinness á árinu fyirr að vera ofmetnasta manneskja í heiminum og skákaði þar Britney og Tom Cruise. Einnig rataði hún oft, allt of oft að margra mati, á síður gulu pressunnar fyrir ýmisleg uppátæki úti á lífinu, nú síðast ásamt nærbuxnalausri Britney Spears.

Þá er bara að byrja að hlakka til næsta árs, sem vonandi verður stútfullt af skemmtilegum furðufréttum af "góðkunningjum" okkar úr slúðurdálkum blaðanna.

Ég er viss um að Paris Hilton óskar okkur öllum gleðilegs nýs árs.

Birta Björnsdóttir birta@mbl.is