[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á skautum er skemmtilegt að vera Þá er síðasta helgi ársins runninn upp, ótrúlegt en satt.

Á skautum er skemmtilegt að vera

Þá er síðasta helgi ársins runninn upp, ótrúlegt en satt. Árið 2006 er á enda og við hæfi að kveðja það með hæfilegri blöndu af afþreyingu og menningarneyslu, hreyfingu og að sjálfsögðu samveru með öllum þeim sem manni finnst skemmtilegastir um helgina.

Það hefur ekki beinlínis verið vetrarlegt um að litast á höfuðborgarsvæðinu um jólin, rigning, hífandi rok og beinlínis svo mikið slagveður að X-kynslóðin man varla annað eins. En það má alltaf snúa á veðurguðina og upplifa vetrarstemningu á skautum undir björtum og vel stilltum rafmagnsljósum í Skautahöllinni í Laugardal www.skautaholl.is eða Egilshöllinni www.egilsholl.is. Það er opið á báðum stöðum á laugardag frá kl. 13 til 17 í Egilshöll en kl. 18 í Skautahöllinni. Á gamlársdag er opið frá 10.30–15 í Laugardalnum.

Fánar feðranna í Krýsuvík

Þeir sem hafa áhuga á stríðsmyndum ættu ekki að láta Fána feðranna (Flags of Our Fathers) fara fram hjá sér, hún fær fjórar stjörnur af fimm hjá kvikmyndagagnrýnanda Morgunblaðsins. Þeir sem finna til þjóðarstoltsins þegar þeir sjá íslenskt landslag í erlendum myndum ættu líka að drífa sig. Krýsuvík er trúðverðug sem japanska eyjan og vígvöllurinn Iwo Jima.

200 metrarnir á gamlársdagsmorgun

Það er ekkert sem hressir, bætir og kætir jafnmikið og sundlaugarferð. Á gamlársdagsmorgun er tilvalið að skella sér í laugarnar, þar sem þær eru opnar, synda 200 metrana og slaka svo á í heitu pottunum. Það er mismunandi eftir sveitarfélögum hvort og hversu lengi sundstaðir eru opnir á landinu en á höfuðborgarsvæðinu eru laugarnar víðast hvar opnar fyrir hádegi. Kynnið ykkur hvenær opið er á heimasíðum sundlauganna.

Kristinn Sigmundsson í Hallgrímskirkju

Fyrir tónlistarunnendur er varla hægt að kveðja gamla árið með meiri viðhöfn en á hinum árlegu áramótatónleikum Hallgrímskirkju sem verða haldnir kl. 17 á gamlársdag. Það er stórsöngvarinn Kristinn Sigmundsson sem verður gestur Trompeteria-hópsins að þessu sinni. Á efnisskránni verða m.a. bassaaríur úr Messíasi eftir Georg Friedrich Händel og Jólaóratóríunni eftir Johann Sebastian Bach.

Árið kvatt og íþyngjandi byrðar

Þá eru það auðvitað brennurnar á gamlárskvöld. Það er best að horfa í logana og láta táknrænt flest það sem var íþyngjandi á árinu 2006 fuðra upp og hverfa með reyksúlunum upp í himininn og snúa svo baki við brennunni og árinu. Það er best að lifa í núinu, læra af fortíðinni en velta sér ekki upp úr henni og láta tímann bera sig inn í framtíðina – svona eiginlega án þess að maður viti af. Gleðilegt nýtt ár.