Jón Helgason, Jónsi, fæddist í Keflavík 26. maí 1975. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 1. desember síðastliðinn og var jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju 8. desember.

Elsku stóri frændi, nú ert þú kominn til pabba og hann passar þig. Ég ætla alltaf að knúsa Glóð þegar henni líður illa þegar við erum í leikskólanum.

Bless Jónsi frændi.

Thelma Lind Pálsdóttir.

Elsku Jónsi.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Takk fyrir allt og sérstaklega prakkaraskapinn. Ég brosi yfir honum núna.

Kveðja,

Axel

Elsku Jónsi frændi. Þú varst góður, fyndinn, skemmtilegur. Ég mun sakna þín svo mikið, elsku frændi. Ég mun hugsa mikið til þín og pabba. Passaðu hann vel fyrir mig.

Ég á eftir að hugsa vel um fjölskylduna þína.

Kær kveðja.

Elvar Orri Pálsson.

Sit ég hér og hugsa til þín. Já og færist bros yfir varir mínar. Það er ekki hægt að verjast brosi þegar hugsað er til þín. Þú þessi stóri sterki maður, með hjarta úr gulli. Dugmikill og vannst hörðum höndum af því sem þú áttir. Ást þín á Selmu var óendanleg, hugur þinn var hennar. Þú lifðir fyrir Selmu og stelpurnar þínar. Þegar ég horfi í augun á þessum yndislegu stelpum sé ég stelpur sem endurspegla ótakmarkaða föðurást. Þær dáðu þig og sagði sú stutta "pabbi minn er sterkari en Guð!" og það meinti hún og trúði. Máney sagðist aldrei geta eignast kærasta því enginn gat unnið pabba hennar í sjómann. Þetta voru kröfur þínar um verðandi mannsefni hennar. Það voru glettilegar kröfur því ef það var eitthvað sem þú varst viss um, þá voru það kraftar þínir. Þú varst hrókur alls fagnaðar og hvað sem var í gangi þá mættir þú á svæðið. Þig vantaði aldrei. Þú varst ávallt fyrstur á svæðið með litlu skvísurnar þínar og hundana. Þú varst stór hlekkur í okkar samfélagi.

Þú varst svo mikill stríðnispúki. Enginn var óhultur og enginn kynntist þér án þess að fá smáskerf af púkanum sem ljómaði svo skemmtilega inni í þér. Skemmtilegast fannst þér þó að gera at í krökkunum, það var eins og þú umturnaðist í risastórt barn sjálfur. Þú varst svo mikið æði og það er svo sárt að sjá á eftir þér. Þú varst mikill vinur og leyfðir manni alveg að vita af því. Athygli var ekkert sem vafðist fyrir þér, þú mættir á svæðið og athyglin var þín. Okkur þótti þú fyndinn en engum fannst þú eins fyndinn og þér sjálfum og það var það yndislegasta við þig. Allir voru vinir þínir og þú komst vel fram við alla og dæmdir engan af kápunni. Þannig varst þú og þið skötuhjú. Svo opin og yndisleg og dyr ykkar stóðu ávallt opnar fyrir öllum. Ekkert verkefni var of stórt né of lítið fyrir þig og það vafðist ekkert fyrir þér.

Mér verður ávallt minnisstætt þegar ég lá rúmföst heima og Selma ákvað að ég kæmi til ykkar í "pössun". Þú komst askvaðandi inn til mín, sóttir mig upp í rúm og hélst á mér út í bíl og heim til ykkar. Mér er plantað í sófann og þú varst hjúkkan mín þann daginn. Lagaðir koddann minn, færðir mér drykki, hélst á mér til borðs og skarst ofan í mig matinn og mataðir mig. Þú færðir mér hvolpinn minn sem ég var búin að velja mér, sem var aðeins vikugamall. Nú liggur þessi yndislegi hundur við fætur mér. Þú varst mjög stoltur af ræktun þinni og er gullmolinn minn alveg lýsandi dæmi í þeim málum. Zorba, þessi vöðvaklumpur, lýsandi blíða, Castró, þetta yndislega saklausa dýr. Margt var líkt með þér og hundunum þínum.

En nú ertu kominn í betri heim og þótt sárt sé að horfa á eftir þér veit ég að það hefur verið tekið vel á móti þér. Þú kyssir litlu Ísól þína á kinn núna og passar hana í traustum faðmi.

Elsku Selma, Máney og Glóð. Þið eruð mér svo mikið og vona ég að lífið gefi ykkur vonir um bjartari framtíð. Helgi, Júlía og börn, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Elsku Jónsi, þín verður sárt saknað en minning þín mun lifa vel og lengi í hjarta mínu.

Þín vinkona

Halla Guðbjörg

Þórðardóttir.

Elsku Jónsi minn, nú ert þú farinn. Ekki óraði mig fyrir að þetta færi svona. Þessi stóri og mikli maður. En svona er þetta blessaða líf.

Jónsa kynntist ég þegar ég var 14 ára og þá var ýmislegt brallað en svo þegar leið aðeins á seinni tíma og Jónsi búinn að kynnast henni Selmu sinni og kominn frá Danmörku þá varð vinskapurinn mikill hjá Palla og Jónsa og einnig hjá mér og Selmu og börnunum okkar.

Minnisstæðast var ferð sem við fjögur fórum til Krítar sumarið 2003, það var æðisleg ferð og mikið brallað, þó sérstaklega hjá Jónsa og Palla en eins og það er skrítið þá eru þeir báðir farnir í dag, en ég og Selma eigum góðar minningar um þá sem við geymum í hjörtum okkar.

Jónsi var mjög fyndinn, stríðinn og alveg eins og segulstál á fólk, hann þekkti endalaust af fólki.

Hann var börnum mínum stoð og stytta þegar þau misstu pabba sinn og þó sérstaklega yngri stráknum og lét hann alveg vita af því að hann væri besti frændi sinn og það fannst honum ekki slæmt og kallaði hann massaða rugludallinn, því Jónsi hafði mjög gaman af því að stríða honum. Einnig minnist ég þess þegar við fórum í ferðalag og Jónsi tók með sér starraunga og þurfti ég að finna til barnamauk svo hann gæti gefið honum að borða. Alltaf datt þér eitthvað í hug til að bralla og ég er alveg sannfærð um að þú haldir því áfram með frænda þínum. En til eru endalausar minningar um þig, elsku Jónsi minn, og þær geymi ég vel og brosi yfir.

Elsku Selma mín, mikið er þetta skrítið, við báðar vinkonurnar, en þetta er víst lífið, meira á suma lagt en aðra.

Selma mín, Máney, Glóð og aðrir aðstandendur, þetta eru erfiðir dagar.

Ég votta ykkur mína dýpstu samúð, og Selma mín, mundu, ég stend við hlið þér og við getum þetta saman.

Kveðja,

Olga Sif og börn.