Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is ALVARLEGUM slysum hérlendis fyrstu 10 mánuði þessa árs hefur fjölgað um 28,7% frá því sem var á sama tíma í fyrra samkvæmt samantekt slysaskráningar Umferðarstofu.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

ALVARLEGUM slysum hérlendis fyrstu 10 mánuði þessa árs hefur fjölgað um 28,7% frá því sem var á sama tíma í fyrra samkvæmt samantekt slysaskráningar Umferðarstofu. Ef októbermánuði er sleppt og borinn er saman fjöldi alvarlegra slysa fyrstu 9 mánuði ársins er munurinn töluvert meiri eða samtals 43,6%. Að teknu tilliti til októbermánaðar hefur samkvæmt þessu dregið úr þeim mikla mun sem fram að þessu hefur verið á slysatölum ársins í ár og í fyrra.

30 látnir það sem af er ári

Alls hafa orðið 27 banaslys þar sem 30 létust í umferðinni það sem af er ári. Þrjú algengustu banaslysin voru árekstur tveggja bíla sem mættust á beinum vegi eða í beygju (18,5%), var ekið út af beinum vegi hægra megin (11,1%) og slys í eða eftir vinstri beygju – ekið út af hægra megin (7,4%).

Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, bendir á að þær leiðir sem farnar eru í áróðri og fræðsluskyni séu stöðugt í endurskoðun. "Í rannsóknum sem gerðar hafa verið á bílbeltanotkun kemur t.d. fram að hún hefur stóraukist," bendir hann á. "Í kjölfar mikils áróðurs okkar í sumar, sjáum við breytingar til hins betra í þessum efnum sem koma fram í mánaðarlegri athugun lögreglunnar í Keflavík. Samt örkumlast ótrúlega mikill fjöldi fólks og lætur lífið vegna þess að bílbeltin eru ekki notuð."

"Þarna er um að ræða sífellt minni hóp sem er þó í margfalt meiri hættu en aðrir. Einnig má velta fyrir sér afleiðingum þess að ekki var staðið fyrir þessum áróðri."

Er áróður hættur að virka?

Einar veltir því fyrir sér hvort komið sé að þeim tímapunkti að fólk sé hugsanlega orðið fullmett af "hræðsluáróðri". "Það má velta því fyrir sér hvort þessi tegund áróðurs sé hætt að virka á suma, þá einna helst þann hóp ökumanna sem er haldinn áhættufíkn og erfitt er að ná til með áróðri og fræðslu.

Hér á landi sem og annars staðar er stöðug verið að leita nýrra leiða til að hafa áhrif á þennan hóp ökumanna."

Í nýliðnum októbermánuði urðu fjögur banaslys. Hinn fyrsta október var ekið á fótgangandi mann á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar og hálfum mánuði síðar var bifreið ekið út af á Kjósarskarðsvegi.

Hinn 21. október varð útafakstur á vegarslóða við Hrauneyjar og 26. varð útafakstur fyrir neðan safnaðarheimilið í Vopnafirði. Í þessum eina mánuði slösuðust 10 manns alvarlega í jafnmörgum slysum, þar af 2 fótgangandi vegfarendur.