Feðgar Helgi Þórsson, eiginmaður Beate, með yngri synina tvo, Harald og Björn, við stíu geitanna sem eru forvitin dýr og laus við alla hræðslu.
Feðgar Helgi Þórsson, eiginmaður Beate, með yngri synina tvo, Harald og Björn, við stíu geitanna sem eru forvitin dýr og laus við alla hræðslu. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í gömlu fjósi skammt frá Akureyri búa geitur, kisa, angórukanínur, svartar landnámshænur, gullfiskar, franskar hrútskanínur, fasanar og yfirleitt hestar líka. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir heimsótti Beate Stormo á Kristnesi.

Ég bý í sama húsi og tengdaforeldrar mínir," segir Beate um leið og hún opnar dyrnar að gamla fjósinu á Kristnesi. "Þau eru með fjós og búskap en við Helgi [Þórsson] maðurinn minn erum bara með gæludýrafjós."

Hún er varla búin að sleppa orðinu þegar dulítið mjálm heyrist úr horni og eitthvað dúnmjúkt strýkst við fætur blaðamanns. "Þetta er hún Loppa," útskýrir Beate áður en færi gefst á að spyrja. "Hún er á 18. ári og var áður inniköttur sem lenti í því að eigandi hennar fór í nám til Danmerkur. Þá sagði ég að í neyðartilfelli skyldi ég taka hana sem fjósakött. Til að byrja með átti hún rosalega erfitt með að sætta sig við hið nýja hlutskipti sitt en ég held að núna sé hún bara nokkuð glöð og ánægð. Það eina er að hún hefur mikla þörf fyrir að spjalla þegar einhver kemur inn."

Stórt baðkar í anddyri fjóssins dregur athygli frá Loppu og þegar nánar er að gætt má sjá að í því svamla glæstir skrautfiskar af stærri gerðinni. Beate útskýrir að sumarbústaður þeirra sé pollur úti í garði sem hentar lítt til sundæfinga eftir að kólna tekur í veðri. "Þegar pollurinn frýs eru gullfiskarnir hýstir eins og aðrar skepnur."

Það er greinilega sveitamanneskja sem talar enda kemur í ljós að Beate er alin upp á bóndabæ í Norður-Noregi. Síðastliðin 16 ár hefur Kristnes þó verið heimili hennar, eiginmannsins Helga og þriggja sona á aldrinum fimm til tólf ára. Þar sinnir hún ýmiskonar list eða handverki, s.s. eldsmíði, tréskurði og trésmíði.

Þess á milli hugar hún að búinu, m.a. geitunum fjórum Nínu, Alexöndru, hafrinum Flekk frá Rauðá og Mýru sem trónir uppi á stalli í stíunni. "Yfirleitt skiptast þær á um að vera á þessum palli en það fer svolítið eftir því hversu hátt settar þær eru innan hópsins," útskýrir Beate. "Geitur eru nokkuð grimmar hver við aðra og eru alltaf að mæla styrk sinn. Þessi litla, Alexandra, er bæði yngst og lægst sett þannig að ef hún ætlar að tala við okkur fólkið koma hinar og stanga hana í burt."

Nefndar á öldrunardeildinni

Beate segir Nínu hafa fengið nafn sitt eftir gamalli konu á endurhæfingardeildinni að Kristnesi. "Ég hef stundum sýna eldra fólkinu kiðlingana á vorin. Ein gamla konan átti geitur þegar hún var ung og vildi endilega að þessi fengi að heita eftir sér. Alexandra er aftur dóttir Nínu en hún var líka skírð uppi á öldrunarlækningardeild þegar hún var pínulítil."

Geiturnar eru ekki mjólkaðar, vegna vinnunnar sem það hefði í för með sér. "Ég gerði það eitt sumar þegar ég var heima ólétt og ekki í vinnu. Hins vegar eru geitarspenarnir pínulitlir og maður í lítilli þjálfun að handmjólka, svo eiginlega þyrfti að kaupa mjaltavél ef það ætti að ganga upp."

Mjólkin kom þó í góðar þarfir, bæði til drykkjar og ostagerðar. "Ég reyndi að sjóða geitaost sem er í miklu uppáhaldi hjá Norðmönnum en líklega hef ég soðið mjólkina of lengi. Osturinn varð grjótharður og ég þurfti að tálga hann niður með hníf en hann bragðaðist vel."

"Mjáááá," heyrist ámátlega frá Loppu sem fylgir okkur eftir við hvert fótmál. Beate lætur það ekki trufla sig og heldur áfram. "Við höldum geitur svo að stofninn deyi ekki út. Geitur eru líka ofboðslega skemmtilegar – algjör gleðidýr og uppátækjasamar. Margir vilja meina að þetta séu óþægar skepnur enda japla þær á öllu og fikta stöðugt í girðingum því þær eru mjög forvitnar. Ef maður hefur gaman af þeim er það bara skemmtilegt. Til dæmis smíðaði Helgi aktygi fyrir gamla hafurinn okkar og tamdi hann fyrir vagn. Alexandra er bandvön svo við getum farið með hana út að ganga. Maður skyldi halda að geit í bandi vildi komast sem fyrst heim en þannig er það ekki. Það er eins og þær eigi ekki til hræðslu."

Algerlega óeðlileg dýr

Ólíkt geitunum eiga hænurnar, sem vappa um í rúmgóðu búri næst við geitastíuna sér ekki nöfn. "Í upphafi voru fæstar þeirra svartar og þá nefndum við eina þeirra Krummu. Þegar þeim fjölgaði datt nafnagjöfin hins vegar upp fyrir. Í Íslendingasögunum er á einum stað sagt frá litlum, svörtum hænum sem vappa um bæjarhlað. Helga finnst þetta svo merkilegt að hann vill helst bara hafa svartar hænur."

Eins og vera ber eru þær svörtu iðnar við varp og sjá heimilisfólki bæði fyrir eggjum og kjúklingum. Að sögn Beate finnst þeim best að vera lausar, en helst inni. "Það er nú sagt að það eigi að vera gott að hafa hænur úti en þegar maður opnar fyrir þeim hoppa þær niður, hlaupa meðfram veggnum og koma inn hjá geitunum og hanga svo inni."

Innar í fjósinu glittir í hvíta og flosmjúka hnoðra í stórum búrum. "Þetta eru angórukanínurnar okkar," upplýsir Beate. "Þær virðast risastórar en undir öllum feldinum eru pínulitlar kanínur sem við klippum á þriggja mánaða fresti. Ullina sel ég svo til Ullarselsins á Hvanneyri." Áður vann Beate sjálf úr ullinni en hefur haft lítinn tíma til þess eftir að börnin komu til sögunnar. "Hins vegar sest ég bara niður og spinn og prjóna ef mig langar í angóruullarsokka. Svo kemur svolítil ull af geitunum líka. Sagt er að maður fari ekki í geitarhús að leita ullar en það er vitleysa því á vorin fara þær að losa sig við þelið sem er fínasta ull þegar það er greitt úr þeim."

Angórukanínurnar eru ekki eins sjálfvirkar þegar kemur að því að losa sig við feldinn. "Í raun eru þær algerlega óeðlileg dýr," segir Beate. "Ef maður hleypti þeim út dræpust þær strax því ullin þolir enga bleytu. Hún er svo þétt að hún losar sig ekki við raka og því krókna þær ef það rignir. Ullin vex líka endalaust og ef þær lifa nógu lengi fara hárin að vaxa inn í munninn á þeim svo þær stíflast og drepast. Þær eru því alveg háðar því að mannskepnan klippi þær reglulega."

"Mjá," samsinnir kisa sem hefur meiri áhuga á gestinum í fjósinu en ferfætlingunum sem hann er að virða fyrir sér. "Loppa hefur aldrei sýnt áhuga á að veiða neitt dýr hérna," segir Beate um leið og hún klappar vinkonu sinni. "Hún spígsporar t.d. sallaróleg á milli hænanna þegar þær eru lausar."

Aldrei traðkað á öðru dýri

Í búri skammt frá þeim loðnu kúrir grá og svolítið hlussuleg kanína sem ólíkt öðrum kanínum hefur ákveðið að snúa eyrunum niður á við í stað upp. "Þetta er hann Eyrnaslapi sem er holdakanína eða nánar tiltekið frönsk hrútskanína," segir hún og bætir við að lafandi eyrun séu einkennandi fyrir kynið. "Ég keypti hann á Klausturseli í Jökuldalnum. Ég var þar með vinkonu minni sem var að kaupa sér fasana. Þegar ég sá þessa flottu kanínu varð ég bara að kaupa hana."

Örlög afkomenda Eyrnaslapa eru að metta maga og munna mannfólksins sem hann elur. "Þetta er mjög gott kjöt," segir Beate. "Mörgum finnst erfið tilhugsun að borða dýrin en fyrir þá sem eru aldir upp í sveit er það bara eðlileg hringrás. Ég greini samt á milli gæludýra og annarra dýra og t.d. er höfðingi Eyrnaslapi gæludýr í mínum huga. Hann verður aldrei borðaður heldur jarðaður þegar hann fer. Ungarnir hans eru hins vegar bara kjötkanínur sem við ætlum ekki að eiga. Þeir fá engin nöfn og maður er heldur ekkert að klappa þeim og kjassa."

Fasanaparið sem vinkonan festi kaup á í sömu ferð endaði svo í fjósinu hjá Beate. "Þeir eru búnir að vera gestir hérna í tvö ár," segir hún og fitjar upp á nefið. "Fasanar eru nú ekki skemmtileg húsdýr að mínu viti, hræddir og styggir og hlaupa fram og til baka af stressi."

Kvenfuglinn hefur ekki eirð í sér til að liggja á eggjum sínum. "Næsta vor ætla ég að fá hænurnar til að liggja á fyrir hana enda eru þær svo eggsjúkar á vorin. Hingað til höfum við bara borðað eggin og til dæmis er fínt að gera fasanapönnukökur."

Eins og fasanar, geitur, fiskar, köttur, hænur og tvær tegundir af kanínum sé ekki nóg leigir Beate út sex hesthúsapláss í fjósinu á veturna. "Það er mjög huggulegt þegar hrossin eru líka hér inni. Einn hesturinn er svolítið taugaóstyrkur en eigandinn segir hann aldrei eins afslappaðan og þegar hann er hér innan um dýrin. Hænurnar ganga óhikað undir skepnurnar og á vorin eru kiðlingarnir skoppandi út um allt. Það hefur þó aldrei gerst að hestarnir hafi traðkað á öðru dýri."

Vita varla hvað geit er

Það kemur ekki á óvart að leikskólar og skólar á Akureyri hafi sóst eftir því að fá að koma með börn í heimsókn til dýranna hennar Beate. "Ég held að það hafi verið skólaheimsókn á hverjum virkum degi í maí síðastliðnum, þótt við höfum aldrei auglýst þetta eða tekið neitt fyrir. Mér finnst gaman að börnin fái að kynnast sveitinni því stundum vita fimm, sex ára krakkar varla hvað geit er. Mjólkin og kjötið kemur bara úr Nettó eða Bónus."

Aðspurð þvertekur hún fyrir að mikil vinna fylgi öllu dýrahaldinu. "Þetta er mjög lítið mál," segir hún með áherslu. "Geiturnar ganga á taðgólfi sem mokað er út einu sinni á ári eins og hjá kindunum. Svo gefur maður einu sinni á dag. Auðvitað getur maður léttilega eytt nokkrum klukkutímum á dag í að dúlla sér með dýrunum ef maður vill en þetta þarf ekki að taka meira en tíu mínútur daglega."

ben@mbl.is