DAGBLAÐIÐ-Vísir útgáfufélag ehf. keypti í gær útgáfu DV af 365 miðlum hf., að því er segir í fréttatilkynningu frá Hreini Loftssyni hrl., formanni stjórnar útgáfufélagsins. Sigurjón M.

DAGBLAÐIÐ-Vísir útgáfufélag ehf. keypti í gær útgáfu DV af 365 miðlum hf., að því er segir í fréttatilkynningu frá Hreini Loftssyni hrl., formanni stjórnar útgáfufélagsins.

Sigurjón M. Egilsson hefur verið ráðinn ritstjóri DV og mun DV fyrst um sinn koma út í óbreyttri mynd. Þá verður útgáfudögum fjölgað á næsta ári. Engum starfsmönnum verður sagt upp hjá DV vegna eigendaskiptanna.

Eigendur Dagblaðsins-Vísis útgáfufélags ehf. eru Hjálmur ehf. (49%), 365 miðlar hf. (40%), Janus Sigurjónsson og Sigurjón M. Egilsson. Hjálmur ehf. er að öllu leyti í eigu Baugs Group hf.

Hundrað milljóna ávinningur

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Dagblaðsins-Vísis útgáfufélags ehf., er einnig stjórnarformaður Hjálms ehf. Með honum í stjórn útgáfufélagsins eru Auðbjörg Friðgeirsdóttir og Sverrir Arngrímsson. Framkvæmdastjóri félagsins verður Hjálmar Blöndal.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að með þessu hafi 365 miðlar endurskipulagt prentútgáfu sína með það að markmiði að skerpa áherslur og auka arðsemi í rekstri.

Tímaritin Hér & nú og Veggfóður hafa verið seld til Útgáfufélagsins Fögrudyra ehf., sem gefur út tímaritið Ísafold. Aðaleigandi Fögrudyra, Hjálmur ehf., mun jafnframt kaupa af 365 miðlum hlut í tímaritinu íBístró, sem verður þá nokkurn veginn að jöfnu í eigu 365, Hjálms og starfsmanna Bístró. Tímaritið Birta verður samhliða þessum breytingum fellt inn í Fréttablaðið á nýju ári.

Beinn fjárhagslegur ávinningur af þessum breytingum nemur ríflega 100 milljónum króna á ársgrundvelli en gert hefur verið ráð fyrir þessari hagræðingu í þegar birtum áætlunum fyrir árið 2007.