SALAN á Sterling hefur vakið mikla athygli en um leið nokkra tortryggni í Skandinavíu, kannski skiljanlega þar sem sömu aðilar hafa nú aftur komið að sölu og kaupum á félaginu.

SALAN á Sterling hefur vakið mikla athygli en um leið nokkra tortryggni í Skandinavíu, kannski skiljanlega þar sem sömu aðilar hafa nú aftur komið að sölu og kaupum á félaginu.

Og líkt og Útherji velta menn auðvitað vöngum yfir kaupverðinu: Sterling/Maersk Air, sem líklega var keypt fyrir liðlega þrjá milljarða íslenskra króna vorið 2005, er nú selt á 20 milljarða og hefur þannig hátt í sjöfaldast í verði á innan við tveimur árum en sem fyrr segir að mestu í höndunum á sömu fjárfestunum.

Útherji komst að því að Danir eru farnir að kalla Sterling "íslenska farandbikarinn" vegna tíðra kaupa og sölu á því en félagið hefur verið selt og keypt fjórum sinnum á síðustu fjórum árum. Frændur okkar Svíar segja hins vegar bara eina rökræna skýringu geta verið á því hvers vegna Fons komi aftur að félagi sem það seldi fyrir aðeins rúmu ári.

Og hún sé sú að íslensku fjármálamennirnir séu einfaldlega "affärsnarkomaner" eða viðskiptafíklar; séu engin ný viðskipti í vinnslu knýi hin óviðráðanlega fíkn Íslendingana til þess að versla aftur með sömu hlutina.

Útherji er þegar farinn að huga að stofnun meðferðarheimilis fyrir illa haldna og langt gengna viðskiptafíkla.

Eðli málsins samkvæmt munu sjúklingarnir sjálfir greiða fyrir meðferðina en ekki hið opinbera.