EFTIR áramótin hefst kennsla í bifvélavirkjun á nýjan leik við Verkmenntaskólann á Akureyri, en námið hefur verið undirbúið í samstarfi við Borgarholtsskóla í Reykjavík, sem er kjarnaskóli í greininni, og fyrirtæki á Akureyri, sem hafa tekið þessari...

EFTIR áramótin hefst kennsla í bifvélavirkjun á nýjan leik við Verkmenntaskólann á Akureyri, en námið hefur verið undirbúið í samstarfi við Borgarholtsskóla í Reykjavík, sem er kjarnaskóli í greininni, og fyrirtæki á Akureyri, sem hafa tekið þessari viðleitni mjög vel, að sögn skólameistara VMA.

"Ástæðan fyrir því að bifvélavirkjun hefur ekki verið kennd hér í VMA er sú að Borgarholtsskóla var ætlað að annast þetta nám einum skóla á landinu þegar hann var stofnaður fyrir áratug. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, enda er það svo að endurnýjun í greininni á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, svo dæmi sé tekið, hefur nánast ekki verið nein um árabil. Ef ekki er boðið upp á greinar sem þessar hér í heimabyggð velur ungt fólk einfaldlega eitthvert annað nám. Ef ekki – fer það suður og kemur ef til vill ekki aftur til baka að námi loknu," sagði Hjalti Jón við útskrift nemenda úr VMA 20. desember.