Góð Þorgerður Jörundsdóttir er ágætis barnabókahöfundur.
Góð Þorgerður Jörundsdóttir er ágætis barnabókahöfundur. — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Þorgerði Jörundsdóttur, Æskan 2006, 42 bls.

ÞORGERÐUR Jörundsdóttir sendir nú frá sér aðra barnabók sína, en í fyrra vann hún til fyrstu verðlauna í samkeppni Bókaútgáfunnar Æskunnar fyrir bókina Þverúlfs saga grimma. Þorgerður heldur höfundareinkennum sínum í þessari bók sem byggir á liprum, nútímalegum texta og viðfangsefni og litríkum klippimyndum þar sem saman blandast teikningar og ljósmyndir. Hér segir af metingi tveggja leikskólafélaga þar sem ímynduð gæludýr eru í aðalhlutverki. Myndirnar gefa textanum mikla vídd, þær ná iðulega yfir heila síðu eða alla opnuna og skapa heim sem auðvelt er fyrir lesandann að tengjast. Ljósmyndir af leikföngum spila með fantasíuteikningum og stærðarhlutföll leikfanga og sögupersóna gæða heim bókarinnar einnig auknu lífi. Efni og áferð eins og prjón og parket ná að tengja bókina við hversdagsheiminn en ímyndunarafl drengjanna fer með huga lesandans um víðan völl. Viðfangsefni bókarinnar er að einhverju leyti sú áhersla sem leikfanga- og afþreyingarframleiðsla samtímans leggur á hið stóra og hryllilega, metingurinn gengur í upphafi út á það hver fær stærsta og hryllilegasta, hættulegasta og eitraðasta gæludýrið, allt þar til aðalpersóna bakkar út og gæðir ímyndað dýr sitt öðrum eiginleikum. Þar kemur boðskapur bókarinnar til sögunnar, ósk barnanna um góðan félagsskap, ekki þeirra sem alltaf þurfa aðeins að klára kaffið sitt fyrst heldur þeirra sem vilja leika, segja sögur og almennt vera skemmtilegir, vera góðir vinir. Félaginn sér þá að sér og hættir við hryllinginn, víst væri best að eiga góðan vin og margfalt betra en hroðalegt skrímsladýr.

Höfundi tekst ágætlega að fara með lesendur sína í ferðalag, inn í heim ógnar og voða og síðan til baka á leikskólann, þar sem vinirnir hafa aftur náð saman og leika sér nú í góðum kastalaleik. Letrið er stórt og hentar því þeim sem eru nýorðnir læsir, textinn er vandaður og hæfir aldurshópnum sem hann er ætlaður vel, börnum á síðustu leikskólaárunum. Hann er ágætlega til þess fallinn að auka á orðaforða sex ára barna. Þorgerður er augljóslega vel kunnug barnaleikjum og kann þá list að skapa trúverðuga frásögn þar sem fram kemur að fyrst og síðast er það vináttan sem skiptir öllu máli. Það er kærkominn boðskapur og einnig er sú áminning sem fram kemur í umfjöllun um kaffibolla, dagblaðalestur og fréttaáhorf líka ágæt og jafnan þörf, hér vita flestir upp á sig skömmina. Þorgerði tekst að koma boðskap bókar sinnar á framfæri á ljúfan hátt og saga hennar er bráðskemmtileg aflestrar. Það er óhætt að mæla með þessari bók fyrir alla sem unna góðum bókum og Þorgerður staðfestir sig hér sem ekki bara efnilegan heldur ágætan barnabókahöfund.

Ragna Sigurðardóttir