— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aldrei áður hefur lögregla og tollgæsla lagt hald á jafnmikið af amfetamíni og kókaíni eins og á þessu ári. Á einu ári hefur náðst jafnmikið og síðust sex ár þar á undan.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Á ÞESSU ári hefur lögregla og tollgæsla lagt hald á jafnmikið af amfetamíni og kókaíni og náðist samanlagt á sex árum þar á undan, frá 2000-2005.

Alls hafa náðst um 12,8 kíló af kókaíni og 46,4 kíló af amfetamíni það sem af er þessu ári, samkvæmt bráðabirgðatölum frá ríkislögreglusjóra. Hugsanlegt er að enn bætist við magnið vegna mála sem lögregla er með í rannsókn. Þetta er jafnmikið, og raunar örlítið meira en náðist af þessum fíkniefnum á árunum 2000-2005. Magn af hassi og e-töflum sem náðust á þessu ári er hins vegar minna en meðaltal síðustu sex ára.

"Auðvitað er ánægjulegt að leggja hald á svo mikið magn af efnum því það segir sig sjálft að það hefði verið slæmt ef þetta hefði komist inn á markaðinn," sagði Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík í samtali við Morgunblaðið í gær. Erfitt væri þó að draga miklar ályktanir af þróun á fíkniefnamarkaði út frá þessum magntölum. Eitt væri þó klárt; fíkniefnasendingarnar væru stærri en áður. Hingað til hefði verið algengt að menn flyttu inn 1-2 kíló en nú væri magnið í hverri sendingu oft langt um meira. Um ástæður þessa væri erfitt að segja, hugsanlega teldu menn að minni hætta væri á að þeir næðust ef þeir flyttu mikið inn í einni sendingu fremur en margar litlar. Sömuleiðis væri hugsanlegt að fíkniefnamarkaðurinn gerði svo miklar kröfur um framboð að smyglararnir teldu ekki veita af stórsendingunum. Engu væri þó hægt að slá föstu og ekki væru smyglararnir sjálfir til viðtals um ástæðurnar enda vildu þeir sjaldnast nokkuð kannast við þátttöku sína í smygltilraunum og neituðu sök fram í rauðann dauðann.

Ásgeir tók líka fram að ein stór haldlagning gæti skekkt myndina verulega og ekki væri hægt að segja til um það með vissu hvort innflutningur hefði stóraukist eða hvort lögreglu og tollgæslu hefði tekist að ná hærra hlutfalli af heildarinnflutningi nú en áður. Lögregla væri á hinn bóginn á því að neysla á örvandi fíkniefna hefði aukist og lögreglumenn hefðu í auknum mæli orðið varir við menn undir áhrifum þeirra á skemmtistöðum. Hugsanlega væri ein skýringin sú að skemmtanahaldið stæði lengur fram eftir nóttu en áður.

Engin stökkbreyting á neyslu

Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, sagði að lögregla og tollgæsla gætu svo sannarlega glaðst yfir þeim árangri sem hefði náðst á árinu og það væri sérstakt gleðiefni að tollgæsla hefði látið til sín taka á þremur helstu innflutningsleiðunum, þ.e.a.s. Keflavíkurflugvelli, Reykjavíkurhöfn og Seyðisfirði. Markviss uppbygging tollgæslu og þjálfun tollvarða væri greinilega að skila árangri. Aðspurður hvort að hugsanlega væri innflutningurinn orðinn mun meiri sagði Jóhann að ekkert hefði komið fram um að einhvers stökkbreyting hefði orðið á fíkniefnaneyslu á milli ára. "Þó svo að einhver aukning í neyslu harðari efna sé sennilega staðreynd er hún í engu ekki samræmi við þann gríðarlega mikla árangur sem hefur náðst." Að hans áliti væri það alveg ljóst að lögregla og tollgæsla hefðu náð mjög háu hlutfalli, og hærra en áður, af þeim efnum sem smyglað var inn í landið á árinu sem er að líða. Jóhann vildi ekki gefa upp í hverju uppbygging og þjálfun hjá tollgæslunni hefði falist. "Menn hafa haldið þeim spilum mjög þétt að sér en það er þó hægt að segja að miklum fjármunum hefur verið varið í að bæta þjálfun og tækjubúnað. Við höfum líka þétt samskiptanetið, bæði innanlands og við önnur ríki svo sem Danmörku, Eystrasaltsríkin, Bretland og Holland. Allir þessir þættir hafa skilað árangri," sagði hann. "En við höldum okkar rannsóknaraðferðum kyrfilega leyndum því um leið og ég fer að ústkýra hvernig við bætum okkar rannsóknaraðferðir er ég að upplýsa um hvernig við vinnum. Þessi árangur er ekki tilviljun, hann er árangur þrotlausrar vinnu í mörg ár og markvissrar uppbyggingar."

Breyta aðferðum

Þó að vel hafi tekist til á þessu ári er það síður en svo ávísun á velgengni á því næsta, að sögn Jóhanns. Afar erfitt yrði að bæta þennan árangur og raunar væri varla hægt að ætlast til þess. Smyglarar breyttu vinnubrögðum sínum í sífellu og lögregla og tollgæsla yrðu áfram að vera á tánum gagnvart nýjum aðferðum.

Aðspurður sagði Jóhann að greina mætti ákveðnar tilhneigingar hjá smyglurum eftir árum. Þannig hefði í ár verið tiltölulega lítið um að menn reyndu að smygla fíkniefnum innvortis og einnig hefði fremur lítið fundist af efnum sem höfðu verið falin á líkama. Á hinn bóginn hefði verið algengara að fíkniefni væru falin í farangri og í byrjun ársins komst upp um tvær tilraunir til að smygla amfetamínbasa hingað í vökvakenndu formi. "Smygltilraunirnar eru stöðugt að breytast og það ganga yfir ákveðnar bylgjur í þessum málum eins og öðrum," sagði Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli.

Milljarða markaður

SÁÁ hefur sagt frá því að neysla á örvandi fíkniefnum fari stöðugt vaxand og í grein sem birtist á vef samtakanna í apríl sl. sagði m.a. að út frá fjölda amfetamínfíkla mætti álykta að heildarinnflutningur gæti numið 640 kílóum árlega. Miðað við það og verðkannanir SÁÁ má áætla að viðskipti með amfetamín nemi um 2,7 milljörðum króna á ári. Verðmæti þess amfetamín og kókaín sem haldlagt var á árinu nemur um 330 milljónum króna.