9. janúar 2007 | Íþróttir | 352 orð | 1 mynd

Þóra Björg Helgadóttir á leiðinni til Belgíu

Þóra Björg Helgadóttir
Þóra Björg Helgadóttir
ÞÓRA Björg Helgadóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og fyrirliði Breiðabliks, er á förum til Brussel í Belgíu þar sem hún hefur ráðið sig sem verkefnisstjóra hjá Deutsche Post næsta árið.
ÞÓRA Björg Helgadóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og fyrirliði Breiðabliks, er á förum til Brussel í Belgíu þar sem hún hefur ráðið sig sem verkefnisstjóra hjá Deutsche Post næsta árið. Hún ætlar að leika með liði í Belgíu og hefur mestan áhuga á Anderlecht en það er á byrjunarreit hjá henni enn sem komið er.

Þóra hefur verið fjármálastjóri hjá DHL en sagði upp starfi sínu þar á dögunum og réð sig til Belgíu. "Það lá vel við því DHL er í samvinnu við Deutsche Post. Ég kem til með að samhæfa verkferla milli Evrópulanda, innleiða ný kerfi og jafnvel smíða ný. Þetta er spennandi og það var nú eða aldrei ef ég ætlaði á annað borð að breyta um umhverfi," sagði Þóra við Morgunblaðið í gærkvöld, eftir að hún hafði tilkynnt samherjum sínum í Breiðabliki ákvörðun sína. Hún hefur verið besti markvörður landsins um árabil og á 49 A-landsleiki að baki.

Þóra samdi við Breiðablik til þriggja ára í haust og sagðist ekki búast við því að rifta þeim samningi. "Það er líklegast að ég verði lánuð til eins árs til að byrja með en ég réð mig til næstu tólf mánaða og fer til Belgíu um næstu mánaðamót. Ég fékk KSÍ til að hjálpa mér við að finna lið og bíð eftir því sem þar kemur upp. Ég veit að Anderlecht er með fínt lið og marga landsliðsmenn og það væri hentugast að fara þangað, því liðið er í Brussel. En ég finn mér lið, það er engin hætta á öðru. Það er ekki fótboltinn sem dregur mig til Belgíu en ég á von á að hann sé af svipuðum styrkleika og hér heima. Því miður eru ekki sömu tækifæri hjá okkur og strákunum í fótboltanum og það er á hreinu að ef ég gæti farið utan og verið atvinnumaður í fótbolta, án þess að vera á sultarlaunum, myndi ég hiklaust gera það."

Hún hyggst gefa kost á sér í landsliðið áfram. "Já, ég er búin að semja um það við nýja vinnuveitendur og á að geta spilað með landsliðinu, svo framarlega sem ekkert kemur upp á," sagði Þóra Björg Helgadóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.