Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson
Eftir Guðna Th. Jóhannesson: "Hér er minnst sérstaklega á þann ímyndaða möguleika að sovéskur síldarfloti hefði í raun getað verið árásarher í dulargervi vegna þess að sá ótti vaknaði í raun og veru sumarið 1950."

Árið 1968 var sögulegt fyrir margra hluta sakir. Þá réðust herir flestra Varsjárbandalagsríkjanna til dæmis inn í Tékkóslóvakíu og hér á landi voru heimilar hleranir vegna ótta um öryggi ríkisins þegar utanríkisráðsherrar Atlantshafsbandalagsins komu til fundar í Reykjavík. Sem betur fer voru ógnin og óttinn þó ekki yfirþyrmandi. Fólk gat gert sér glaðan dag og sló kalda stríðinu jafnvel upp í grín; þetta ár var jólamynd Tónabíós "Rússarnir koma", "víðfræg og snilldarvel gerð ný amerísk gamanmynd í algjörum sérflokki," eins og sagði í auglýsingu í Morgunblaðinu. Söguþráðurinn er sá að sovéskur kafbátur steytir á grynningum undan eyju við austurströnd Bandaríkjanna og áhöfnin verður að fara í land til að leysa vandann. En þá verður fjandinn laus. "Fyrir misskilning halda eyjarskeggjar að Rússar hafi umkringt eyna," sagði Þjóðviljinn í umsögn um myndina, "og er áður en yfir lýkur kallaður til bæði flugher og sjóher. Verður úr þessu mikil ringulreið".

Í raunveruleikanum hefði það auðvitað verið háalvarlegt ef sovéskur kafbátur hefði strandað við Bandaríkjaströnd, og ekki síður ef það hefði gerst hér við land. Að sama skapi hefði það verið reiðarslag ef innrásarlið hefði leynst í sovéskum síldveiðiskipum sem sóttu í nokkur ár á miðin undan Norðurlandi. Allt þetta hefði getað gerst en þar með er ekki sjálfsagt að það hafi verið viðbúið hvenær sem er. Á þessu tvennu er reginmunur.

Hér er minnst sérstaklega á þann ímyndaða möguleika að sovéskur síldarfloti hefði í raun getað verið árásarher í dulargervi vegna þess að sá ótti vaknaði í raun og veru sumarið 1950. Er það rætt nokkuð í nýrri bók minni, Óvinum ríkisins, og gagnrýndi Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra þá frásögn í Morgunblaðsgrein laugardaginn 6. janúar sl. Reyndar var greinin þó að mestu hvöss gagnrýni á blaðið og Jón Ólafsson prófessor sem það fékk til að ritdæma bókina. En Björn telur einnig að frásögn mín af sovésku síldveiðiskipunum einkennist af grunnhyggni og ekki get ég látið hann eiga það inni hjá mér.

Óréttmæt gagnrýni

Nú er auðvitað sjálfsagt að menn skiptist á skoðunum en fyrst er þess að geta að Björn Bjarnason mistúlkar orð mín um komu síldarflotans sumarið 1950 þegar hann spyr hvers vegna ég fullyrði "að breskir og bandarískir hernaðarsérfræðingar hafi talið innrás útilokaða með öllu". Sú spurning er óþörf því það gerði ég aldrei. Kemur það meira að segja fram í grein Björns vegna þess að hann vitnar orðrétt í þá lýsingu í bókinni að "[í] Bretlandi og Bandaríkjunum drógu hernaðarsérfræðingar og embættismenn stórlega í efa að árás á Ísland væri í vændum". Slíkt er allt annað en að útiloka þá aðgerð með öllu og ætti þetta að vera öllum sanngjörnum mönnum ljóst.

Þar að auki blandar Björn Bjarnason saman hinum almenna ótta á Vesturlöndum við ógnina úr austri á þessum árum, sem ég geri alls ekki lítið úr í bókinni, og þeirri sérstöku atburðarás sem átti sér stað sumarið 1950. Vestrænir ráðamenn og hernaðarsérfræðingar töldu um þær mundir afar slæmt að Ísland væri án hervarna enda myndu Sovétríkin ásælast landið ef heimsstyrjöld skylli á. En er þá sjálfgefið að þeir hafi talið líklegt að síldveiðiskipin á miðunum undan Norðurlandi hafi í raun verið Trójuhestar nútímans, tilbúnir að gera strandhögg hér? Um það er Björn viss og kveðst hafa fyrir því heimildir úr einkaskjalasafni Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra að bandaríska herforingjaráðið hafi sent herskip til að fylgjast með síldarflotanum án þess að óskir Íslendinga hefðu þar áhrif.

Þá söguskoðun birti Morgunblaðið einnig sama dag í sérfrétt um síldarflotann og herskipakomuna undir fyrirsögninni "Bandaríkin áttu frumkvæðið". Staksteinahöfundur blaðsins bætti svo um betur daginn eftir og sagði að gögn Bjarna Benediktssonar gerðu Birni syni hans kleift "að leiðrétta ranghermi og mistúlkanir í skrifum fræðimanna um löngu liðna atburði". Og ekki nóg með það, heldur væri "eins gott fyrir fræðimenn nútímans, sem eru að skrifa samtímasögu okkar, að átta sig á þessum gagnabanka, sem dómsmálaráðherra byggir augljóslega á".

Þegar vel er að gáð eru þessar fullyrðingar þó ekki á rökum reistar. Í fyrsta lagi hafa ýmsir fræðimenn áður stuðst við gögn Bjarna í rannsóknum sínum. Það er því misskilningur hjá Staksteinahöfundi að fræðimenn hafi ekki áttað sig á tilvist þessara heimilda. Í öðru lagi er notadrjúgar heimildir sem betur fer ekki aðeins að finna í fórum Björns Bjarnasonar.

Sagan hefst

Hverfum nú aftur til sumarsins 1950 og reynum að átta okkur á því sem gerðist í raun. Hratt verður farið yfir sögu en þó stuðst við heimildir úr mörgum skjalasöfnum: bandaríska þjóðskjalasafninu (National Archives, NA), skjalasafni Trumans Bandaríkjaforseta (TRU), þjóðskjalasafni Bretlands (The National Archives, TNA), skjalasafni NATO (NATO), skjalasafni dómsmálaráðuneytis (DÓM) og sögusafni utanríkisráðuneytis (SÖ). Vitnað verður til þessara safna eftir því sem við á hér að neðan.

Hinn 15. júní 1950 kom sendifulltrúi Sovétríkjanna í Reykjavík í utanríkisráðuneytið og tilkynnti að von væri á sovéskum síldveiðiflota á miðin undan Norðurlandi (SÖ). Tilkynningin vakti engan ugg enda höfðu Sovétmenn verið á þeim slóðum undanfarnar sumarvertíðir. Tíu dögum síðar urðu hins vegar þau stórtíðindi að herir kommúnista í Norður-Kóreu réðust suður yfir landamærin á Kóreuskaga. "Almennt mun litið svo á að þessi árás sje aðeins tilraun Rússa til þess að þreifa fyrir sjer til frekari árása annars staðar," sagði Morgunblaðið 27. júní. Samdægurs lýsti Bjarni Benediktsson þeim ugg sínum fyrir bandarískum sendiráðsmönnum að kannski stafaði ógn af sovéska síldarflotanum enda væri grunsamlegt að hann væri á ferðinni áður en vertíðin væri hafin (NA). Bjarni kom því til leiðar að íslensk flugvél flaug að síldveiðiskipunum og norskt eftirlitsskip á miðunum hafði einnig auga með þeim (SÖ). Þessa daga kom í ljós að í flotanum voru fjögur móðurskip (fyrst voru þau reyndar talin þrjú) og 50–60 síldarbátar (SÖ og NA).

Hinn 1. júlí sagði Bjarni Benediktsson við Edward Lawson, sendiherra Bandaríkjanna, að hann teldi ótímabært að biðja Bandaríkjamenn að fylgjast með ferðum sovésku skipanna. Lawson skýrði þó frá því í frásögn sinni til utanríkisráðuneytisins í Washington að Bjarna væri ekki rótt: "Hann er uggandi vegna ástandsins í Kóreu og vill fullvissa sig um að sovéskt herlið leynist ekki í skipunum eins og þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg árið 1940" (NA).

Bjarna Benediktssyni þótti ekki bæta úr skák að um þetta leyti höfðu sovéskir sendiráðsstarfsmenn gert sig heimakomna við olíugeymana og hvalstöðina í Hvalfirði, "spurt þar margs [og] boðið verkstjóra að minnsta kosti einum til whiskey-drykkju" (SÖ). Enn ræddi Bjarni við Lawson 5. júlí og viðraði þá skoðun að best væri að herskip eða flugvél á vegum NATO færi á vettvang. "Við getum ekki verið of varkárir," sagði Bjarni eins og sendiherrann rakti samdægurs í öðru skeyti til utanríkisráðuneytisins (NA).

Ekkert var þó aðhafst og síðan gerðist fátt markvert í þessari sögu fyrr en 14. júlí. Bjarni Benediktsson færði Lawson sendiherra þá þær fréttir að íslenskir varðskipsmenn hefðu haldið um borð í eitt móðurskipanna í sovéska flotanum þegar það var innan fjögurra mílna lögsögunnar sem þá var í gildi norðanlands. Þeir hefðu séð byssustæði á þilfari og Bjarni kvaðst nú vera "mjög áhyggjufullur". Þar að auki hefði Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins, sagt honum frá því að sést hefði til kafbáts í grennd við síldveiðiskipin. Bjarni tók fram að þessi frásögn hefði ekki fengist staðfest en hann teldi brýnt að vinveitt herskip héldu nú til Íslands því "ef til alvarlegra átaka kæmi í heiminum, gæti þessi mikli rússneski floti gert mikinn óskunda hér, þar sem landið væri með öllu varnarlaust" (SÖ og NA).

Bjarni Benediktsson skrifaði hjá sér að Lawson hefði sagt um Kóreustyrjöldina "að stjórn sín teldi enn enga hættu eða litla á því, að þessi viðureign mundi breiðast út" (SÖ). Sendiherrann tilkynnti utanríkisráðuneytinu um frásögn Bjarna og fékk svar þaðan daginn eftir, sunnudaginn 15. júlí. Það var í nafni Deans Acheson utanríkisráðherra og í því sagði að eftir skeyti sendiherrans tíu dögum áður hefði ráðuneytið athugað hvað geri skyldi. Í ljósi þess að Sovétmenn hefðu stundað síldveiðar við Íslandsstrendur síðastliðin þrjú ár og það hefði eingöngu vakið grunsemdir hvað þeir væru snemma á ferðinni í þetta sinn hefði verið ákveðið að grípa ekki til eftirlitsaðgerða. Hið nýja skeyti Lawsons myndi þó leiða til þess að sú niðurstaða yrði nú endurskoðuð innan flota og flughers (NA).

Að kvöldi þessa sama dags átti Bjarni Benediktsson einnig fund með Charles Baxter, sendiherra Bretlands, og lagði þá áherslu á að þótt mestar líkur væru á því að Sovétmenn væru hér við land í friðsamlegum tilgangi væri allur varinn góður og ekki mætti útiloka með öllu að Rússarnir freistuðust til að ráðast á þetta vopnlausa land eins og stöðu mála væri háttað í heiminum (SÖ og TNA). Og loks bar það til tíðinda þennan sunnudag að bandaríska sendiráðinu barst annað skeyti frá utanríkisráðuneytinu í Washington: sjóherinn væri reiðubúinn að taka fjóra tundurspilla úr öðrum verkefnum og senda þá í stutta könnunarferð um síldarmiðin norðan Íslands.

Orðið við óskum Íslendinga

Hér sést strax hversu rangt það er að halda því fram að frumkvæði í þessu máli hafi komið frá Bandaríkjamönnum. Þeir urðu seint og um síðir við óskum sem Bjarni Benediktsson kom á framfæri jafnvel þótt þeir hefðu áður talið að nær engin hætta væri á ferðum. Þegar sendiherrann Baxter skýrði breska utanríkisráðuneytinu svo frá áhyggjum Bjarna urðu viðbrögðin einnig á þá lund í London að nær öruggt mætti telja að þessi tiltekni ótti væri ástæðulaus (TNA).

Hinn 24. júlí 1950 komu þrír bandarískir tundurspillar í kurteisisheimsókn til Reykjavíkur og sá fjórði daginn eftir (NA og Morgunblaðið). Þeir tóku olíu í Hvalfirði og síðan áttu þeir að halda norður fyrir land. Hinn 27. júlí bárust sendiráði Bandaríkjanna þau skilaboð frá utanríkisráðuneytinu í Washington að kæmust þeir ekki að neinu grunsamlegu myndu þeir hverfa til þeirra skyldustarfa sem þeir höfðu áður sinnt (NA). Bjarni Benediktsson lýsti mikilli ánægju með heimsóknina en kvaðst einnig vonsvikinn yfir því að herskipin skyldu ekki geta verið lengur hér við land (TNA og NA). Hinn 1. ágúst skýrði Sir Oliver Franks, hinn mikilsvirti sendiherra Bretlands í Washington, breska utanríkisráðuneytinu frá því að ríkisstjórn Íslands hefði æskt þess vestra að tundurspillarnir fjórir færu hvergi fyrr en um miðjan september þegar síldarflotinn hlyti að halda sig á braut. Yfirmenn bandaríska sjóhersins væru eindregið á móti því og sú hugmynd hefði því vaknað að Bretar gætu sent skip á miðin um stund (TNA).

Af því varð ekki og tundurspillarnir hurfu af Íslandsmiðum. Um miðjan ágúst komu tveir bandarískir tundurspillar við á Seyðisfirði á leið frá Noregi og væntanlega héldu þeir svo norður á bóginn. Þessi för virðist þó ekki hafa verið til komin vegna óska íslenskra stjórnvalda um eftirlit með Sovétmönnum. Hinn 9. september höfðu tveir tundurspillar svo viðkomu í Reykjavík (SÖ og Morgunblaðið). Þessi ár höfðu Bretar skip úr fiskverndardeild sjóhersins (Fishery Protection Service) að jafnaði með togaraflota sínum hér við land og víðar á Norður-Atlantshafi og leit það í þetta sinn einnig eftir sovésku síldveiðiskipunum (TNA). En það var aðeins vegna þess að breska skipið var hér við land hvort eð var.

Engar heimildir eru um að þessi herskip hafi komist á snoðir um eitthvað sem vakti grunsemdir. Til dæmis voru byssustæðin á dekki væntanlega arfur frá seinna stríði og hernaðarsérfræðingar og embættismenn í Washington og London töldu víst að aðalverkefni síldarflotans hefði falist í því að afla síldar líkt og fyrri daginn þótt Sovétmenn hefðu örugglega notað tækifærið til að kynna sér staðhætti og taka ljósmyndir af strandlengjunni, og auk þess hefðu þeir þjálfað lið sitt í sjómennsku (TNA og PRO). Sjómennirnir virtust undir heraga, flestir á besta aldri, skipstjórar ekki alráðir um borð heldur pólitískir kommissarar og mönnum var greinilega uppálagt að hafa sem minnst samskipti við Íslendinga, hvort sem var til sjós eða lands (DÓM). En samt var þetta enginn innrásarfloti.

Flestir öfluðu afar illa þessa vertíð – nema Rússarnir. Á miðunum tóku menn eftir því, eins og sagði til dæmis í Morgenavisen í Björgvin, að þeir voru yfirleitt mun utar en aðrir, allt að 100 mílum norður af Grímsey og síðan djúpt undan Langanesi. Móðurskipin voru reyndar mun nær landi og tóku nær stöðugt við afla. Tómum tunnum á dekki fækkaði og sífellt var minna borð fyrir báru (DÓM og NA). Síðan hvarf flotinn á braut, sýndi sig næsta sumar á nýjan leik en svo hvarf síldin í nær áratug undan Íslandi og endi var bundinn á síldveiðar Sovétmanna hér við land.

Fastanefndarfundurinn

"Við vissum um þennan flota, þegar þið sögðuð okkur frá honum, og tókum ákvörðun um að senda þessi skip þangað þessar ferðir." Þetta er haft eftir bandaríska hershöfðingjanum Omar Bradley í skýrslu af fundi í fastanefnd herforingja NATO 19. september 1950. Hana má finna í einkaskjalasafni Bjarna Benediktssonar sem sat fundinn ásamt fjórum íslenskum embættismönnum. Áfram segir í skýrslunni: "En það er erfitt að hafa þessi skip úti á hafi allt sumarið, þegar þau geta ekki komið inn og verið í einhverri höfn, sérstaklega þar sem við höfum skuldbindingar um heim allan og svo mikið lið fast í Kóreu um þetta leyti, svo að Herforingjaráð okkar taldi, að þeir hefðu ekki efni á að halda þessum herskipum þarna allan tímann, en þeir hafa sent þau þangað, eins og þér sögðuð, í þrjú mismunandi skipti.

Návist þessa flota er eitt af því, sem hefur fengið okkur svo mikillar áhyggju, að við höfum beðið ykkur að ræða þetta [það er að hafa herafla á Íslandi [innskot Björns Bjarnasonar]] og hugsa um það ... Eitt af því, sem hér kemur til greina, er lega lands ykkar, sem gerir það mjög freistandi stað fyrir hvern, sem vildi hefja árásaraðgerðir."

Þessa frásögn notar Björn Bjarnason svo til þess að komast að þessari niðurstöðu: "Hér fer ekkert á milli mála. Íslensk stjórnvöld eru ekki ein um áhyggjur af sovéska flotanum og bandaríska herforingjaráðið sendi herskip til að fylgjast með honum án hvatningar íslenskra stjórnvalda."

Þessi víðtæka ályktun á grundvelli einnar heimildar er einfaldlega röng. Hershöfðinginn Bradley segir ekkert um það að hvatningu íslenskra stjórnvalda hafi ekki þurft til enda vissi hann án efa lítið um málið, með hugann allan við stríðið í Kóreu og stærri viðfangsefni en ferðir fjögurra tundurspilla. Eins og hér hefur verið rakið, með vísun í fjölmargar ótvíræðar heimildir úr mörgum traustum skjalasöfnum, voru Bandaríkjamenn í raun tregir til að láta undan óskum íslenskra stjórnvalda um eftirlit með sovéskum síldveiðiskipum. Það hefði líka verið hægur leikur fyrir bandarísk herskip að vera lengi á miðunum en taka olíu í Hvalfirði og vistir í Reykjavík og víðar eins og þau gerðu að jafnaði þegar þau komu í kurteisisheimsóknir.

Þar að auki er það nú svo að fleiri heimildir eru til um NATO-fundinn 19. september 1950 en sú skýrsla sem Björn Bjarnason hefur undir höndum. Í skjalasafni NATO má til dæmis finna átta blaðsíðna ítarlega frásögn af fundinum. Þar kemur fram að umræður um sovéska síldarflotann vöknuðu í blálokin, nánast í framhjáhlaupi, og fyrir tilstilli Bjarna Benediktssonar. Aftur kemur ekkert fram um frumkvæði Bandaríkjamanna en haft er eftir Omar Bradley að skortur á hafnaraðstöðu og skuldbindingar annars staðar kæmu í veg fyrir að hægt yrði að verða við þeirri ósk Bjarna að NATO-herskip væru að staðaldri á Íslandsmiðum. Hins vegar gæti íslenski ráðherrann verið viss um að Bandaríkjastjórn hefði þessi mál mjög í huga og reyndar hefðu þau ráðið miklu um að til fundarins hefði verið boðað (NATO).

Þessi orð – nánast eins og kurteisislegt spjall – vega lítt gagnvart öllum hinum heimildunum um atburðarásina og frumkvæði íslenskra ráðamanna. Hér má einnig nefna skýrslu bandaríska þjóðaröryggisráðsins (National Security Council) frá 31. október 1950, "The Position of the United States with Respect to United States and North Atlantic Security Interests in Iceland". Sú skýrsla er m.a. í skjalasafni Harrys Truman Bandaríkjaforseta og þar stendur skýrum orðum að vera sovésks síldarflota hefði leitt til þess að íslensk stjórnvöld báru fram óskir um flotaheimsókn (TRU). Frumkvæðið var á Íslandi og það væri grunnhyggni að halda öðru fram.

Mergur málsins var sá að auðvitað höfðu Omar Bradley og aðrir hernaðarsérfræðingar enn áhyggjur af varnarleysi Íslands til lengri tíma litið. Að því leyti tóku þeir undir ugg Íslendinga enda vildu vestrænir ráðamenn að íslensk stjórnvöld féllust á að hér yrði bandarískt herlið til frambúðar. Íslenskir og aðrir vestrænir ráðamenn urðu því sammála um hina almennu ógn en þá greindi á um hið sérstaka sumarið 1950; sovéskan síldarflota á miðunum undan Norðurlandi. Mismunandi áherslur af því tagi voru ekkert einsdæmi og manni kemur í hug að Omar Bradley sinnaðist við Douglas MacArthur hershöfðingja sem vildi hefja hernað í Kína út af Kóreustyrjöldinni. Bradley lét þá hin frægu orð falla að slík aðgerð hefði þýtt rangt stríð á röngum stað, röngum tíma og gegn röngum andstæðingi.

Lýsingar annarra fræðimanna

Stuttar frásagnir annarra fræðimanna af síldarflotanum sumarið 1950 eru á svipaða lund og hér hefur verið lýst. Í bók sinni, The Ally Who Came in from the Cold, skrifar Þór Whitehead (bls. 49) að þegar bardagar á Kóreuskaga hefðu færst í aukana hefði Bjarni Benediktsson lagt til að bresk eða bandarísk herskip yrðu send á Íslandsmið. Bandamenn hefðu svarað að ekki væri yfirvofandi hætta á stríði og sovéskri árás á landið en þeir hefðu fallist á að senda tundurspilla í könnunarferð og sýna flaggið, "show the flag".

Ögn lengri frásögn er að finna í bók Vals Ingimundarsonar, Í eldlínu kalda stríðsins og þar segir m.a. (bls. 202): "Lawson fullvissaði Bjarna um að það "væri örugg skoðun Bandaríkjastjórnar að Rússar væru ekki enn reiðubúnir eða fúsir til stórstyrjaldar". Bretar og Bandaríkjamenn voru enn fremur sannfærðir um að sovéski flotinn hefði ekki í hyggju að hernema Ísland. Hins vegar tók Lawson vel í þá málaleitan að Bandaríkjamenn eða Bretar gerðu ráðstafanir til að fylgjast með rússneskum skipaferðum umhverfis landið. Í framhaldinu sendu Bandaríkjamenn fjóra tundurspilla norður fyrir land. Þeir stöldruðu stutt við þar sem þeirra var þörf annars staðar, enda töldu Bandaríkjamenn að lítil hætta stafaði af síldveiðiskipunum."

Þess má geta að í báðum þessum prýðilegu bókum er stuðst við skýrsluna um fundinn 19. september sem er í gagnabanka Björns Bjarnasonar og Morgunblaðið gerir svo mikið úr. Að lokum læt ég svo fylgja lokaorð mín í Óvinum ríkisins um sovéska síldarflotann sumarið 1950 og afstöðu íslenskra ráðamanna (bls. 119): "Þeirra frumskylda var að gæta öryggis ríkis og þegna og því hugsuðu þeir með sér að þeir vildu hafa vaðið fyrir neðan sig. Samt má með sanngirni komast að þeirri niðurstöðu að ráðamenn landsins ofmátu árásarhættuna sumarið og haustið 1950. Það hefði verið óðs manns æði að herja á Ísland frá Sovétríkjunum og meira að segja Stalín hlaut að gera sér grein fyrir því."

Í þessum orðum felst ekki almennur áfellisdómur um dómgreind íslenskra ráðamanna á þessum árum. Hvorki þeir né aðrir í valdastöðum gátu alltaf metið allt rétt, aldrei gengið of langt og aldrei of skammt. Þeir voru ekki óbrigðulir og það er engin skömm að því.

Höfundur er sagnfræðingur.