21. janúar 2007 | Minningargreinar | 868 orð | 1 mynd

Guðmundur S.Th. Guðmundsson

Guðmundur S.Th. Guðmundsson, síldar- og fiskmatsmaður, fæddist á Siglufirði 1. maí 1920. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 9. janúar 2007. Foreldrar hans voru Guðmundur Friðrik Guðmundsson, f. á Siglufirði. 6.10. 1899, d. 30.1. 1974, og Kristín Árnadóttir, f. á Sörlastöðum í Seyðisfirði 1.6. 1893, d. 31.10. 1955. Alsystkini Guðmundar voru: a) Þorbjörg, f. 4.1. 1917, d. 6.7. 1993, b) Ingólfur, f. 15.8. 1923, d. 12.5. 1999, c) Kristín, f. 20.9. 1925, d. 2.3. 1998, d) Friðrik, f. 3.10. 1928, d. 20.9. 1973, e) stúlka, f. 28.4. 1932, lést sama dag, og f) Steingrímur, f. 19.5. 1935, d. 31.7. 2004. Systir Guðmundar sammæðra var Hulda, f. 14.11. 1911, d. 6.3. 1930, og systir hans samfeðra er Guðrún Arnórs, f. 9.7. 1933.

Guðmundur var þríkvæntur: 1) Hanna Stefánsdóttir, f. 2.8. 1920. Börn þeirra eru: a) Stefán Jónas, f. 10.3. 1945, b) Guðmundur Ómar, f. 29.7. 1946, og c) Haraldur Huginn, f. 8.9. 1949. 2) Svala Gunnarsdóttir, f. 11.5. 1935, börn þeirra eru: a) Sigríður Kristín, f. 5.9. 1957, og b) Gunnar Örn, f. 7.10. 1958. Eftirlifandi maki er Edda Guðbjörg Sveinsdóttir, f. 14.3. 1950. Afabörnin eru 16, langafabörnin 14 og 1 langalangafabarn.

Guðmundur ólst upp á Siglufirði fram á unglingsár. Skíðaíþróttin heillaði hann ungan þar sem hann gerðist fjölhæfur afreksmaður, fyrst í göngu og skíðastökki og síðar einnig í alpagreinum. Guðmundur varð Íslandsmeistari í 15–18 km göngu, stökki, svigi og norrænni tvíkeppni og hlaut sæmdarheitið Skíðakóngur Íslands fjórum sinnum. Hann ferðaðist víða um land og tók þátt í skíðakeppnum, stundaði skíðakennslu og barðist fyrir bættri aðstöðu skíðamanna. Einnig keppti hann í bruni, svigi og alpatvíkeppni fyrir hönd Íslands á fyrstu Ólympíuleikunum eftir stríð í St. Moritz 1948. Guðmundur stundaði ýmis störf. Hann var verkamaður, bóndi, og leigubílstjóri á Akureyri og í Keflavík. Á 7. áratugnum lærði hann síldar- og fiskimat og starfaði við það víða um land en þó lengst á Höfn í Hornafirði þar sem hann lauk starfsævi sinni.

Útför Guðmundar var gerð í kyrrþey frá Hafnarkirkju 20. janúar.

Kveðja frá Skíðasambandi Íslands

Fallinn er nú frá Skíðakóngurinn Guðmundur Guðmundsson en hann var um árabil fremsti skíðagöngumaður Íslendinga og varð að auki Íslandsmeistari í skíðastökki og svigi. Hann hlaut titilinn Skíðakóngur Íslands með sigri í Norrænni tvíkeppni á Skíðalandsmóti alls fjórum sinnum og fékk þannig nafnbótina Guðmundur kóngur. Guðmundur var á meðal þátttakenda á Vetrar-Ólympíuleikum í St.Moritz 1948 en það var í fyrsta sinn sem Íslendingar sendu keppendur til vetrarleika.

Skíðasamband Íslands er þakklátt fyrir störf og afrek Guðmundar í þágu skíðaíþrótta og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

F.h. Skíðasambands Íslands.

Kári Ellertsson.

Kveðja frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands

Guðmundur Guðmundsson lést 9. janúar síðastliðinn. Guðmundur var mikill íþróttamaður og skíðamaður og keppti meðal annars fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum 1948 í St. Moritz. Keppnisgreinar hans þar voru brun, alpatvíkeppni og svig. Guðmundur var þó óvenjulega fjölhæfur skíðamaður því að um árabil var hann einnig einn fremsti göngumaður Íslendinga og lengi kallaður kóngurinn sökum mikilla yfirburða á þeim vettvangi. Íþrótta- og ólympíusamband Íslands og Samtök íslenskra ólympíufara votta fjölskyldu Guðmundar dýpstu samúð og minnast góðs íþróttamanns og drengs með mikilli virðingu.

Stefán Konráðsson.

Fallinn er frá heiðursmaðurinn Guðmundur Guðmundsson.

Við kynntumst Guðmundi fyrst þegar hann kom til starfa hjá síldarsöltunarstöðinni Stemmu hf. 1977. Þegar fyrirtækið hóf starfsemi hafði hann yfirumsjón með söltun og verkun síldarinnar hjá Stemmu hf. Það var gaman að vera samtíða Guðmundi, hann var metnaðarfullur í sínum störfum, duglegur og ekki endilega horft á klukku ef verkefni kröfðust úrlausnar. Hann var ávallt vakandi yfir velferð fyrirtækisins, framgangi söltunar og verkunar síldarinnar.

Á þessum tíma var síldin aðallega söltuð í trétunnur og Guðmundur var á heimavelli þegar kom að þætti trétunnanna. Hann var góður beykir, alvanur frá síldarsöltun á Siglufirði, sínum heimaslóðum. Það var unun að horfa á vinnubrögð hans með dixilinn og það voru ekki vandræði að skipta um staf í tunnu og þótt stafirnir væru fleiri en einn. Reglusemi og snyrtimennska einkenndu öll hans störf.

Guðmundur var mikill skíðaíþróttamaður. Þegar Íslendingar sendu í fyrsta sinn keppendur á vetrarólympíuleika, 1948 til St. Moritz, var Guðmundur í þeim hópi. Það var gaman að hlusta á hann segja frá keppnisferðum og þeim ótrúlegu aðstæðum sem íþróttamönnum þess tíma voru búnar. Bikarar Guðmundar af öllum stærðum og gerðum ásamt verðlaunapeningunum geyma mikla sögu afreksmanns. Guðmundur var fjórum sinnum Skíðakóngur Íslands. Þeirri sögu munu aðrir gera betur skil.

Á seinni árum Guðmundar mátti stundum sjá hilla undir skíðakappa á gönguskíðum sínum. Þar fór maður sem greinilega kunni sitt fag. Sífellt var íþróttamaðurinn að þjálfa sig meðan kraftarnir entust. Lífsviljinn og baráttukrafturinn fylgdu Guðmundi alla ævi þrátt fyrir áföll.

Eftirlifandi eiginkonu sinni Eddu Sveinsdóttur kynntist Guðmundur hér á Hornafirði er hún kom hingað til vinnu á Hótel Höfn, en hún var frá Siglufirði eins og hann. Fljótlega flutti hún sig um set og vann með honum í Stemmu þar til fyrirtækið hætti starfsemi sinni 1985.

Keyptu þau sér íbúð á Fiskhólnum, í nágrenni við okkur, og víst er að hér á Hólnum áttu þau góð ár saman þar sem væntumþykja og gagnkvæm virðing voru höfð að leiðarljósi. Þar hlúði Edda að honum með einstakri umhyggju þegar heilsa hans fór að gefa sig.

Við hjónin vottum Eddu innilega samúð okkar og þökkum Guðmundi samfylgdina og minnumst hans með þökk.

Hildigerður og Unnsteinn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.