Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.

Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

EINAR Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði á bloggsíðu sinni, Veðurvaktinni, í gærkvöldi að afar hlýtt loft, sem var á leiðinni til Íslands, gæti vegið að janúarhitametinu frá árinu 1992 þegar hitinn á Dalatanga mældist tæpar 19 gráður á Celsius.

Einar sagði að samspil hæðarinnar og Grænlands væri þannig að loftið kæmi ekki siglandi ofan á haffletinum heldur kæmi það að ofan, með niðurstreymi.

Gert var ráð fyrir því á spákorti fyrir klukkan sex í morgun að hitinn í um 1.400 metra hæð yrði um það bil 10 gráður. Búast mátti við því að hitinn yrði um 20 gráður á yfirborðinu. "Skilyrði til þess er helst að vænta hlémegin hárra fjalla og vindur yfir landinu þyrfti helst að vera nokkuð hvass," sagði Einar Sveinbjörnsson.

Gert var ráð fyrir því að hlýjasti kjarni loftsins færi nokkuð hratt austur með landinu. Einkum var búist við miklum hita suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum.

Einar sagði að hitinn virtist geta orðið ívið meiri í dag en á Dalatanga 14. janúar 1992 þegar hann mældist 18,8 gráður. Hitastigið í um 1.400 metra hæð var þá 7 gráður en nú 10 gráður. Til þess að draga enn betur fram hversu óvenjulegar aðstæður gætu verið í vændum nefndi Einar að hitinn þarna uppi hefði verið heldur minni en 10 gráður á hlýjasta degi sumarsins 2006, eða þann dag sem mestur hiti mældist á veðurstöð, það er 3. ágúst.

"Þá var vitanlega mikil hjálp í sólinni til að ná upp háum hita við yfirborð (25,3°C í Ásbyrgi) ásamt varmanum í sjálfum loftmassanum. Nú um miðjan vetur er hins vegar sólinni ekki til að dreifa, aðeins hinum suðlæga loftmassa!"

Einar kvaðst hafa verið á vakt á Veðurstofunni nóttina sem methitinn varð á Dalatanga. "Óvenjuleg hlýindi voru almennt á landinu daginn áður og fréttamenn voru nokkuð spenntir að greina frá þessu óvenjulega veðri, því þessa vetur var veður eðlilegra en síðar varð, oftar en ekki snjóþyngsli og vetrarveður."