Kynferðisbrot gegn börnum eru einhverjir verstu og andstyggilegustu glæpir, sem hugsazt geta.

Kynferðisbrot gegn börnum eru einhverjir verstu og andstyggilegustu glæpir, sem hugsazt geta. Það er þess vegna engin furða að ýmsar spurningar vakni um réttarkerfi okkar þegar upplýst er að dæmdur barnaníðingur, sem hlaut einhvern þyngsta dóm sem fallið hefur í slíku máli, sé kominn á kreik á ný áður en hann hefur einu sinni afplánað þann dóm til fulls. Brotamaðurinn hefur að undanförnu verið vistaður á áfangaheimilinu Vernd eftir að hafa hagað sér vel í fangelsi fyrri hluta afplánunar sinnar. Hann lét glepjast af einkamálaauglýsingu á Netinu, sem umsjónarmenn fréttaskýringaþáttarins Kompáss höfðu sett þar í nafni 13 ára stúlku. Hann var einn um 100 karlmanna, sem settu sig í samband eftir að hafa séð auglýsinguna. Í framhaldinu fannst barnaklám í tölvu hans, sem hann hafði til afnota á Vernd.

Það virðist ekki ástæða til að draga í efa að menn, sem afplánað hafa dóma fyrir kynferðisbrot, eigi að fá að ljúka afplánun sinni á Vernd eins og aðrir brotamenn. Eins og Valtýr Sigurðsson fangelsismálastjóri segir í Morgunblaðinu í gær, hefði afplánun mannsins lokið fyrr eða síðar og fyrir flesta fanga, sem á annað borð vilja verða nýtir samfélagsþegnar á ný, hlýtur áfangaheimili að vera góður kostur.

Aðalatriðið í þessu máli er að rétt mat sé lagt á það hvort þessir menn hafi fengið þá meðferð, sem þeir þurfa á að halda og hvort líklegt sé að þeir brjóti aftur af sér. Í þessu tilviki hefur það mat fagmanna hjá Fangelsismálastofnun augljóslega verið rangt. Og möguleikarnir á að slíkt mat sé rangt eru auðvitað alltaf miklir, sama hversu góðir fagmennirnir eru.

Þess vegna hljóta yfirvöld að skoða hvort ekki sé ástæða til að auka eftirlit með dæmdum kynferðisglæpamönnum eftir að þeir ljúka afplánun í fangelsi. Fram kemur í Morgunblaðinu í gær að ríkissaksóknari geti farið fram á að brotamaður sé dæmdur í sérstaka öryggisgæzlu eftir að afplánun lýkur. Því úrræði hefur sjaldan eða aldrei verið beitt. Hvers vegna ekki? Slíku eftirliti með kynferðisbrotamönnum er beitt í vaxandi mæli í ýmsum löndum, til dæmis bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir í Morgunblaðinu í gær að sér finnist koma til greina að lögreglan beiti tálbeitum til að koma upp um kynferðisafbrotamenn. Reynslan frá nágrannalöndunum sýnir að slíkar aðferðir eru oft árangursríkar, en margir grunaðir brotamenn hafa þó verið sýknaðir vegna þess að dómstólar hafa talið að lögreglan hafi gengið of langt í að hvetja til afbrota. Um slíka notkun tálbeitna verða því að gilda mjög skýrar reglur – en að því gefnu virðist ekkert því til fyrirstöðu að lögreglan beiti slíkum aðferðum.

Glæpamennirnir í þessum málum beita óvenjulegum aðferðum. Lögreglan getur þurft að gera það líka.