CAPUT Kolbeinn Bjarnason flautuleikari er einn af meðlimum CAPUT-hópsins sem spreyta sig á tónlist Gottfrieds Michaels Koenigs í kvöld.
CAPUT Kolbeinn Bjarnason flautuleikari er einn af meðlimum CAPUT-hópsins sem spreyta sig á tónlist Gottfrieds Michaels Koenigs í kvöld. — Morgunblaðið/Kristinn
TÓNLISTARHÓPURINN CAPUT hefur um langt skeið verið í fararbroddi hér á Íslandi hvað varðar flutning á nýrri tónlist. Í kvöld kl. 20 mun hópurinn flytja í Salnum í Kópavogi tónlist eftir þýsk/hollenska tónskáldið Gottfried Michael Koenig.

TÓNLISTARHÓPURINN CAPUT hefur um langt skeið verið í fararbroddi hér á Íslandi hvað varðar flutning á nýrri tónlist. Í kvöld kl. 20 mun hópurinn flytja í Salnum í Kópavogi tónlist eftir þýsk/hollenska tónskáldið Gottfried Michael Koenig. Koenig er eitt af fremstu tónskáldum 20. aldarinnar og einn af frumkvöðlum raftónlistarinnar í Evrópu. Tónskáldið er jafnframt sérstakur gestur Myrkra músíkdaga 2007 og verður viðstaddur tónleikana í kvöld.

Flytjendur eru þau Hildigunnur Halldórsdóttir á fiðlu, Svava Bernharðsdóttir á víólu, Sigurður Halldórsson á selló, Valgerður Andrésdóttir á píanó, Melkorka Ólafsdóttir og Kolbeinn Bjarnason á flautu og Guðni Franzson á klarinett.

Á efnisskránni verða eftirtalin verk: Klangfiguren II – elektróník (1955/56), Segments 92–98 fyrir fiðlu og selló (1983), Terminus X – elektróník (1967), Per Flauti fyrir tvær flautur (1997), Blätter fyrir strengjatríó (1992), Funktion Indigo – elektróník (1969), Intermezzo (Segments 85–91) fyrir flautur, klarinettur og píanó (1987).

CAPUT-hópurinn var stofnaður árið 1987 af ungum íslenskum tónlistarmönnum í þeim tilgangi að flytja nýja tónlist. Hópurinn hefur frumflutt fjölda íslenskra og evrópskra tónverka og haldið tónleika í Norður-Ameríku og í 15 löndum Evrópu. CAPUT hefur komið fram á fjölmörgum tónlistarhátíðum í Evrópu, í Ameríku og á Íslandi. Má þar nefna: "Haust í Varsjá", Gulbenkian-hátíðina í Lissabon, New Concert Series í Toronto, Santa Cecilia í Róm, Wigmore Hall í London, Holland Festival í Amsterdam, Listahátíð í Færeyjum, Listahátíð í Reykjavík og Sumartónleika í Skálholtskirkju.

CAPUT hefur gefið út níu hljómdiska í Danmörku, Svíþjóð, Ítalíu, Bandaríkjunum og á Íslandi. Auk þess hafa hljóðritanir hópsins komið út á sjö safndiskum.

CAPUT hlaut menningarverðlaun Dagblaðsins árið 1995 og hafa tónverk flutt af hópnum margoft verið valin til kynningar á Alþjóðlega tónskáldaþinginu í París.