Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is FRUMVARP um Ríkisútvarpið ohf. var samþykkt á Alþingi í gær og lögin taka gildi 1. apríl nk. Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna greiddu allir atkvæði gegn frumvarpinu og óskuðu eftir að málinu yrði vísað frá.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

FRUMVARP um Ríkisútvarpið ohf. var samþykkt á Alþingi í gær og lögin taka gildi 1. apríl nk. Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna greiddu allir atkvæði gegn frumvarpinu og óskuðu eftir að málinu yrði vísað frá.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi harðlega í upphafi þingfundar að svar við fyrirspurn hennar um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins frá 7. desember sl. hefði ekki borist fyrr en í gær, þ.e. eftir að umræðu um frumvarpið lauk.

Í svarinu kemur fram að rekstrarhalli Ríkisútvarpsins hafi verið 420 milljónir í júní 2006 og 434 milljónir króna, miðað við óendurskoðaða stöðu frá janúar og fram í nóvember. Til samanburðar var rekstrarhalli árið 2004 tæpar 50 milljónir og um 196 milljónir árið 2005. Heildarskuldir Ríkisútvarpsins voru tæplega 5,2 milljarðar króna 30. júní sl. Þar af er skuld til Lífeyrissjóðs starfsmanna vegna lífeyrisskuldbindinga um þrír milljarðar en skuld við ríkissjóð tæplega 1,2 milljarðar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði að upplýsingarnar í svarinu væru ekki nýjar og að öllum hefði verið ljóst að fjárhagsstaða RÚV hefði ekki verið góð í gegnum tíðina. Á fjáraukalögum væri hins vegar heimild til að fella niður skuldir Ríkisútvarpsins upp á 625 milljónir. "Ég vil einnig geta þess að ríkisendurskoðandi fór yfir málið með nefndarmönnum [í menntamálanefnd]," sagði Þorgerður. "Hann lýsti því sérstaklega yfir að það væri afar vel staðið að allri formbreytingu á rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins," sagði hún og áréttaði að Ríkisútvarpinu yrði skilað með 15% eiginfjárhlutfalli þegar því yrði breytt í opinbert hlutafélag.

Kolbrún Halldórsdóttir sagði Alþingi ekki hafa samþykkt neina beiðni um að eiginfjárhlutfall Ríkisútvarpsins yrði 15%. "Þeir fjármunir eru ekki til reiðu fyrir hæstvirtan ráðherra að lofa."

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagði grunntekjur Ríkisútvarpsins hafa dregist saman um 15% á árunum 1996–2004 og að upplýsingarnar í áðurnefndu svari væru grafalvarlegar. "Finnst mönnum það virkilega boðlegt að afgreiða þetta mál núna, frumvarp um Ríkisútvarpið ohf., án þess að þessar upplýsingar séu ræddar," sagði Ögmundur og áréttaði að með réttu hefði svar við fyrirspurn Kolbrúnar átt að berast innan tíu daga.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að forseti þingsins hefði átt að sjá til þess að upplýsingarnar lægju fyrir áður en umræðu um RÚV lauk. Ingibjörg sagði það alvarlegasta vera að Ríkisútvarpið hefði safnað upp tvöfalt meiri rekstrarhalla á árinu 2006 en allt árið á undan. "Maður hlýtur að spyrja hvað hefur verið að gerast inni í Ríkisútvarpinu sem safnar 420 milljónum í rekstrarhalla á fyrstu sex mánuðum ársins?" sagði Ingibjörg.

Hvað felur breytingin í sér?

* Ríkisútvarpið er í dag sjálfstæð stofnun í ríkiseign en breytist í opinbert hlutafélag (ohf.), skráð á hlutafélagaskrá.

*Afnotagjöld verða lögð af og í staðinn greiddur nefskattur sem nemur 14.580 kr. á hvern einstakling og lögaðila. Börn yngri en 16 ára og fullorðnir eldri en 70 ára eru m.a. undanþegin skattinum.

*RÚV mun jafnframt fá tekjur sínar af auglýsingum, eins og áður.

*Aðalstarfsemi RÚV ohf. verður útvarp í almannaþágu en það má ekki eiga hlut í fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð.

*Útvarpsráð verður lagt niður. Alþingi kýs stjórn hlutafélagsins.

*Stjórnin kýs útvarpsstjóra. Hann ræður starfsmenn og er hæstráðandi varðandi dagskrárgerð.