Guðjón Jensson
Guðjón Jensson
Frá Guðjóni Jenssyni: "MJÖG ámælisvert er að stórhækka fargjöld með strætisvögnum höfuðborgarsvæðisins án þess að fullreyna áður aðrar leiðir til að bæta rekstrarumhverfi þeirra."

MJÖG ámælisvert er að stórhækka fargjöld með strætisvögnum höfuðborgarsvæðisins án þess að fullreyna áður aðrar leiðir til að bæta rekstrarumhverfi þeirra.

Af hverju er ekki unnt að fella niður að einhverju leyti gjöld á eldsneyti til strætisvagna og að öllu leyti tolla af innflutningi nýrra vagna sem og varahluta?

Þá ber brýna nauðsyn til að bæta mjög verulega forgang vagnanna í umferðinni, útbúa sem víðast sérstakar akreinar fyrir þá eins og R-listinn lét gera á köflum á Miklubrautinni. En betur má ef duga skal!

Þessi nýjasta hækkun er einungis til þess fallin að fækka enn þeim sem hugsa sér að nýta sér strætisvagnaþjónustu. Þeir sem hafa bifreið til umráða hugsa sem sé að unnt sé að kaupa hálfan þriðja lítra af bensíni fyrir hvert fargjald. Í flestum tilfellum nægir það magn til að aka frá heimili í og frá vinnu.

Kannski að langtímamarkmið Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í Reykjavík sé að leggja niður almenningsvagna til stórtjóns fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Þessi hækkun er einnig MJÖG köld kveðja til þeirra sem minna mega sín í samfélaginu.

Við eigum að hvetja sem flesta til að nýta sér strætisvagnana, því kostirnir eru mjög margir. Þeir stuðla að betri nýtingu fjármuna borgaranna og með betri nýtingu þeirra má einnig draga mjög verulega úr óþarfa mengun. Bílarnir okkar eru jafnvel meiri og verri mengunarvaldar en flest annað sem við þurfum betur að huga að.

Góðar og traustar strætisvagnasamgöngur eru gulli betri!

GUÐJÓN JENSSON,

Arnartanga 43, Mosfellsbæ.

Frá Guðjóni Jenssyni: