Sungið Ættarhópurinn syngur á kúttmagakvöldi eldri borgara.
Sungið Ættarhópurinn syngur á kúttmagakvöldi eldri borgara. — Morgunblaðið/Hrefna Magnúsdóttir
Eftir Hrefnu Magnúsdóttur Hellissandur | Söngvin stórfjölskylda tróð upp kúttmagakvöldi eldri borgara í Röstinni á Hellissandi og söng fyrir veislugesti.

Eftir Hrefnu Magnúsdóttur

Hellissandur | Söngvin stórfjölskylda tróð upp kúttmagakvöldi eldri borgara í Röstinni á Hellissandi og söng fyrir veislugesti.

Félagasamtök á Hellissandi og í Ólafsvík buðu eldri borgurum í Snæfellsbæ til kúttmaga- og fiskveislu í Röstinni fyrsta laugardag í þorra. Forráðamenn félagasamtakanna sögðu fréttaritara að þetta væri kannski ekki beint fréttnæmt því nú væri það í sautjánda skiptið sem boðið væri upp á slíka fiskveislu í upphafi kjöt- og slátursátstímabils þorrablótanna. Það eina sem sást annað en fiskmeti á mjög hlöðnu matarborði veislunnar voru nokkrar kartöflur. Gestir báru það einum rómi að réttirnir hefðu verið hver öðrum betri og lystugri.

Kölluð upp á svið

Að loknu borðhaldi var svo boðið upp á fjögur söngatriði sem flutt voru af heimafólki við undirleik hljómsveitarinnar BÍT. Það var karlakvartett, tveir einsöngvarar, kona og karl og svo tvær mæðgur. Öll fengu þau góðar undirtektir og þurftu að syngja aukalög.

Þegar mæðgurnar höfðu lokið flutningi sínum uppgötvaðist að móðir og amma eldri söngkonunnar og þar af leiðandi amma og langamma þeirrar yngri voru meðal veislugesta. Fjórir ættliðir. Þær eru báðar þekktar fyrir það að geta tekið lagið. Þær voru kallaðar upp á svið og tóku lagið með ungu konunum. Áður en varði bættust tveir karlmenn í sönghópinn. Þar fór afi og langafi og móður- og ömmubróðir. Báðir góðir söngmenn.

Myndin er af þessum ættarhóp. Á miðri mynd eru mæðgurnar Sirrý Gunnarsdóttir og Alda Dís Arnarsdóttir. Frá vinstri er fyrst Guðríður Þorkelsdóttir amma og langamma, þá kemur Guðrún Cýrusdóttir mamma og amma. Til hægri við mæðgurnar er Cýrus Danelíusson afi og langafi og Þorkell Cýrusson móður- og ömmubróðir.