— AP
ÞÚSUNDIR manna fylgdu blaðamanninum Hrant Dink til grafar í Istanbúl í Tyrklandi í gær en Dink var skotinn til bana í borginni sl. föstudag. Mikil öryggisvarsla var í tengslum við útför Dinks, hundruð lögreglumanna voru að störfum og leitað var á fólki.

ÞÚSUNDIR manna fylgdu blaðamanninum Hrant Dink til grafar í Istanbúl í Tyrklandi í gær en Dink var skotinn til bana í borginni sl. föstudag. Mikil öryggisvarsla var í tengslum við útför Dinks, hundruð lögreglumanna voru að störfum og leitað var á fólki. Leyniskyttur höfðu einnig komið sér fyrir á húsþökum þar sem jarðarför Dinks fór fram.

Dink var af armensku bergi brotinn og tyrkneskir þjóðernissinnar höfðu ítrekað fordæmt skrif hans og skoðanir varðandi fjöldamorð á Armenum í Tyrklandi, 1915–1917. Hann hafði vísað til þeirra sem þjóðarmorðs og í fyrra var hann dæmdur til sex mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að hafa "móðgað tyrkneska þjóðarvitund". Dink naut því lítilla vinsælda hjá þjóðernissinnum.

Margir báru þó virðingu fyrir honum, en hann beitti sér mjög fyrir sáttum milli Tyrkja og Armena og hann var mikill málsvari máfrelsis.

"Við erum öll Hrant Dink," stóð á spjöldum sem haldið var á lofti við útförina í gær og "Við erum öll Armenar í dag, öllsömul."

Sjö manns eru í haldi lögreglu vegna morðsins á Dink en þar af er einn, 17 ára piltur, Ogun Samast, sagður hafa játað að hafa skotið Dink til bana.