Gaman í kirkjustarfinu Litli kórinn í Hafralækjarskóla söng við athöfnina í kirkjunni í Nesi í Aðaldal. Líflegt safnaðarstarf hefur verið í Aðaldal í vetur.
Gaman í kirkjustarfinu Litli kórinn í Hafralækjarskóla söng við athöfnina í kirkjunni í Nesi í Aðaldal. Líflegt safnaðarstarf hefur verið í Aðaldal í vetur. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Eftir Atla Vigfússon Aðaldalur | Líflegt safnaðarstarf hefur verið í Aðaldal í vetur og mikið um að vera í kirkjunum. Sunnudagaskóli hefur verið starfræktur eins og undanfarin ár auk þess sem reglulega eru messur og stundum bænastundir.

Eftir Atla Vigfússon

Aðaldalur | Líflegt safnaðarstarf hefur verið í Aðaldal í vetur og mikið um að vera í kirkjunum. Sunnudagaskóli hefur verið starfræktur eins og undanfarin ár auk þess sem reglulega eru messur og stundum bænastundir.

Unga fólkið í Hafralækjarskóla sem og væntanleg fermingarbörn taka jafnan þátt í því sem er að gerast og sjá oft um tónlist, upplestur og brúðuleikhús við athafnir í kirkjunum.

Sex verðlaun veitt

Um síðustu helgi þótti öllum sérlega gaman þar sem sett var upp myndlistarsýning í Neskirkju í Aðaldal. Þar voru sýnd verk yngri nemenda skólans og fjallaði efnið, aðallega um fæðingu Jesú og það sem gert er á aðventunni. Presturinn, séra Þorgrímur G. Daníelsson, útskýrði efni myndanna á tjaldi og auk þess sungu báðir barnakórarnir undir stjórn Roberts Faulkners.

Dómnefnd hafði verið skipuð og sátu í henni sr. Þorgrímur, Arnþrúður Dagsdóttir og Árni Pétur Hilmarsson. Þau veittu sex verðlaun og viðurkenningar fyrir falleg verk og góðar hugmyndir. Þau sögðu jafnframt að erfitt hefði verið að velja úr verkunum þar sem svo margar góðar myndir hefðu borist þeim fyrir sýninguna.

Kjartan Árni Kolbeinsson átti bestu myndina og Atli Björn Atlason bestu hugmyndina. Þeir hlutu að launum pitsuveislur fyrir fjóra. Fjórir nemendur til viðbótar fengu viðurkenningarskjöl fyrir 2.–3. sætið en það eru Rut Benediktsdóttir, Rúnar Berg Árnason, Hulda Ósk Jónsdóttir og Helga Vala Garðarsdóttir.

Litli og stóri kórinn

Í messunni í Nesi sungu báðir kórar Hafralækjarskóla og nokkrir nemendur spiluðu á hljóðfæri. Mjög vel var mætt í kirkjuna.

Í hnotskurn
» Öflugt safnaðarstarf er í Aðaldal og taka börnin virkan þátt í starfinu.
» Myndir yngri nemenda Hafralækjarskóla voru sýndar í kirkjunni í Nesi í Aðaldal og veitt verðlaun fyrir þær bestu.