Það er ekki aðeins í heimalandinu sem umhverfissáttmáli franska sjónvarpsmannsins Nicolas Hulot vekur athygli. Fjölmiðlar grannlöndunum halda enn áfram að fjalla um þessa þróun mála í Frakklandi, nú síðast hið virta þýska vikublað Der Spiegel.

Það er ekki aðeins í heimalandinu sem umhverfissáttmáli franska sjónvarpsmannsins Nicolas Hulot vekur athygli. Fjölmiðlar grannlöndunum halda enn áfram að fjalla um þessa þróun mála í Frakklandi, nú síðast hið virta þýska vikublað Der Spiegel. Það eru líka mikil tíðindi að sigurstranglegustu frambjóðendur til forsetakosninga í Frakklandi hafa skrifað undir sáttmálann og skuldbundið sig þar með til að fara eftir þeim markmiðum sem Hulot setur fram.

Sú spurning er þó enn opin hvort Hulot þyki nóg að gert eða hvort hann muni sjálfur bjóða sig fram. Það mundi hrista rækilega upp í kerfinu, því hann er samkvæmt nýrri skoðanakönnum ástsælasta persóna í frönskum stjórnmálum - fyrir áttatíu og eitt prósent aðspurðra.

Fordæmi Nicolas Hulot vekur umhugsun um mátt og megin einstaklingsins gagnvart tregum stjórnmálamönnum, sem virðast eiga það ótrúlega sammerkt að vilja helst ekki horfast í augu við Óþægilegar Staðreyndir (eins og loftslagsbreytingar af mannavöldum). Hugurinn hvarflar til Íslands þar sem fjölmennur hópur með nokkra mjög sterka einstaklinga í fararbroddi hefur reynt að koma stjórnvöldum í skilning um að meðferðin á náttúru Íslands til að afla raforku fyrir mengandi álver er frumstæð rányrkja, óskynsamlegt gerræði. (Loftslagsbreytingar virðast varla komast á blað á Íslandi, þótt varla verði minnna ólíft þar en annars staðar ef svo heldur fram sem horfir).

Og hver er svo árangurinn? Ríkisstjórnin er ekki hræddari en svo við þá sem er raunverulega annt um náttúru Íslands (það er ósamrýmanlegt að vera annt um náttúru Íslands og heimsins - og vera líka fylgjandi fleiri álverum á Íslandi, hvað sem móðgandi áróðri stjórnvalda líður um að eiga kökuna og éta hana) að NORÐLINGAALDA er enn á dagskrá. Í desember 2006 var sá draugur vakinn upp, minna en hálfu ári fyrir kosningar, sem sýnir best hvað ríkisstjórnin er örugg um sig þegar að náttúrueyðingu kemur. Áfram er hugsað til þess að vega að Þjórsárverum, dýrustu náttúruperlu sem enn getur heitið ósnortin á Íslandi. Baráttan fyrir þessari náttúruperlu hefur staðið áratugum saman. Þar hafa sameinast heimamenn, innlendir náttúruunnendur, stórfrægir erlendir náttúruverndarmenn, svo aðeins Sir Peter Scott sé nefndur. En hin gíruga hönd ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar heldur áfram að seilast inn í landið, og það eftir að hafa sett upp risavaxna eyðingarvél sem kennd er við Kárahnjúka, í hjarta öræfanna - vél sem eyðir ekki aðeins óviðjafnanlegri náttúru og gróðri í stórum og hættulegum stíl, heldur einnig lífi og heilsu manna. Fjögur mannslíf hefur þessi eyðingarvél tekið til sín - og hversu stór er fjöldi örkumlamanna af völdum vinnuslysa við þessa illræmdu framkvæmd? Halló fjölmiðlar, er einhver heima?

Það að Norðlingaalda er enn á dagskrá færir okkur heim sanninn um að þeir sem stjórna Íslandi eru óforbetranlegir þegar kemur að málum sem varða umhverfi og náttúru. Að þeir hlusta ekki á vinstri-græna stjórnarandstöðu sem reynir að koma viti fyrir þá, og að þeir urðu eitthvað lítið varir við Laugavegsgöngu síðasta haust til varnar náttúrunni, undir forystu Ómars Ragnarssonar. Það voru nú ekki nema tólf eða fimmtán þúsund manns sem þar tóku til fótanna. En þeir sem stjórna Íslandi eiga sér líka dygga stuðningsmenn í þagnarbandalaginu, sem eru lúnir og veikir fjölmiðlar. Er það virkilega satt að það hafi ekkert verið um Laugavegsgönguna í Sjónvarpsannáli ársins? Ef eitthvað var, var þetta frétt ársins á Íslandi. ( Í Frakklandi eru það tíðindi sem koma á öllum sjónvarpsstöðvum í fréttum dagsins, ef tvö þúsund manns safnast saman í Parísarborg).

Og þau stjórnvöld sem hafa ekki tekið af skarið um stærra friðland í Þjórsárverum og Norðlingaöldu út af borðinu, en marsera áfram í stóriðjutakti, hafa heldur ekki heyrt um Framtíðarlandið. Þessi hópur varð til á mjög áhrifamiklum fundi 17.júní 2006, í Austurbæjarbíói. Kjarni hans er öflugt framfarafólk sem á að minnsta kosti það sameiginlegt að sætta sig ekki við hvernig farið er að því að taka ákvarðanir á Íslandi, hversu illa ígrundaðar þær eru oft, og einkennast af skammtímahugsun - samanber þá ákvörðun sem mest breytir Íslandi, í bókstaflegri merkingu, ákvörðunin um Kárahnjúkavirkjun.

Úr því stjórnvöld eru svo fullkomlega skeytingarlaus um það sem Framtíðarland og Laugavegsgöngufólk með meiru hefur að segja, þá getur það vel orðið niðurstaðan að eina leiðin til að reyna að losa um heljargreipar hins þrautnjörvaða valdakerfis flokkanna verði sú að gefa kjósendum kost á að velja annað en kerfisverðina - gefa kjósendum kost á að teikna aðra mynd af Íslandi en þá útbíuðu álmynd sem nú blasir við á teikniborðinu.

Steinunn Sigurðardóttir (steinunn@mac.com)