Niðurlæging Fangelsi liggur við því að særa blygðunarkennd fólks með lostugu athæfi.
Niðurlæging Fangelsi liggur við því að særa blygðunarkennd fólks með lostugu athæfi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

ÉG átta mig hreinlega ekki á því hvernig dómskerfið getur brugðist í svona máli, þar sem svo augljóslega er brotið gegn friðhelgi einkalífs og kynfrelsi," segir Gísli Hrafn Atlason hjá Femínistafélagi Íslands um sýknudóm yfir ungum manni sem myndaði sofandi stúlku án fata í rúmi hans með farsíma sínum og sýndi fólki afraksturinn. Ríkissaksóknari ákærði manninn fyrir brot gegn blygðunarsemi stúlkunnar á grundvelli 209. gr. hegningarlaga sem kveður á um allt að fjögurra ára fangelsi ef einhver særir blygðunarsemi manna með lostugu athæfi.

"Í dóminum er hugtakið blygðunarsemi túlkað mjög þröngt og einnig er ég undrandi á því að ákæruvaldið skyldi ekki gera vararáðstafanir í ákæru úr því brotið var talið svo augljóst," segir Gísli Hrafn. "Ég velti því fyrir mér hvort mistök hafi átt sér stað hjá ríkissaksóknara eða dóminum. Niðurstaðan er alveg galin, því niðurlæging stúlkunnar er algjör. Hún er rænulaus þegar hún er mynduð og í ofanálag fer maðurinn og sýnir kunningjum myndefnið."

Að mati dómsins var óumdeilt að háttsemi mannsins var til þess fallin að særa blygðunarsemi stúlkunnar. Í dómnum segir hins vegar að til þess að sakfella ákærða samkvæmt þeirri grein hegningarlaga sem hann var ákærður fyrir þurfi skilyrði um lostuga háttsemi að vera fyrir hendi, þ.e. að maðurinn hafi fengið kynferðislega útrás með athæfi sínu. Það þótti ekki sannað og var maðurinn því dæmdur saklaus.

Í hnotskurn
» Ekki var talið sannað að maðurinn hefði fengið neina kynferðislega fullnægju út úr því að sýna fólki nektarmynd af stúlkunni.
» Maðurinn var talinn hafa sært blygðunarsemi stúlkunnar með því að sýna a.m.k. fimm körlum og einni stúlku mynd í símanum.
» Hægt er að taka ljósmyndir á langflesta gsm-síma og á sumum sundstöðum t.d. er bannað að nota slíkar myndavélar.