3. apríl 2007 | Minningargreinar | 4110 orð | 1 mynd

Vigdís Kristjánsdóttir Schram

Jónína Vigdís Kristjánsdóttir Schram fæddist á Vesturgötu 36 í Reykjavík 14. júní 1923. Hún lést í Reykjavík 28. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Lára Jónsdóttir Schram húsmóðir, f. 30.10. 1896, d. 8.3. 1985, og Kristján (Ellertsson) Schram skipstjóri, f. 11.10. 1895, d. 8.2 1984. Systir Vigdísar var Magðalena, f. 14.9. 1926, d. 13.1. 1973.

Vigdís giftist 17. júní 1943 Ragnari Tómasi Árnasyni, stórkaupmanni og síðar útvarpsþul, f. 13.3. 1917, d. 3.3. 1984. Foreldrar hans voru Kristrún Tómasdóttir Hallgrímsson, síðar Benediktsson píanóleikari, f. 7.6. 1878, d. 18.9. 1959, og Árni Benediktsson stórkaupmaður, f. 3.12. 1887, d. 10.4. 1964. Börn Vigdísar og Ragnars eru: 1) Kristján Tómas læknir og prófessor, f. 15.11. 1943, maki Hrafnhildur Ágústsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 3.12. 1945, börn þeirra eru: a) Hólmfríður Hildur, f. 23.5. 1967, maki William G. Schmidt, börn þeirra eru Kristján Ragnar, f. 9.6. 1999, Magnús Þór, f. 16.11. 2000, Þór Alexander Gert, f. 14.11. 2005, b) Vigdís Vaka, 24.9. 1971, fyrri maki Howard Boulton, f. 16.11. 1971, d. 11.9. 2001, sonur þeirra er Frederick Tómas, f. 25.1. 2001, síðari maki Gavin Burke, f. 2.10. 1972, dóttir Annika Mary, f. 7.12. 2006, c) Þórunn Lára Kristjánsdóttir, f. 14.2. 1973, maki Benjamin Zimmermann, f. 26.12. 1973, dætur þeirra eru Ella Soffía, f. 27.11. 2001, Nína Lára, f. 13.4. 2004, og Sundy Soffía, f. 11.8. 2006, og d) Kristín Ásta, f. 12.11. 1982. 2) Lára Margrét hagfræðingur, f. 9.10. 1947. Börn Láru og Ólafs Grétars Guðmundssonar læknis eru: a) Anna Kristín, f. 26.3 1966, maki Hjörleifur Kvaran, f. 1951. Börn Önnu Kristínar og Sigurðar Böðvarssonar eru Lísa Margrét, f. 3.7. 1987, Eysteinn, f. 14.12. 1990, og Bjarki, f. 13.1. 1997. b) Ingvi Steinar, f 24.3. 1973, maki Sigrún Guðný Markúsdóttir, f. 14.9. 1968, barn þeirra er Anika, f. 10.5. 2003. c) Atli Ragnar, f. 14.3. 1976, maki Elín Valgerður Margrétardóttir, f. 9.10. 1972. 3) Árni Tómas læknir, f. 19.1. 1950, maki Selma Guðmundsdóttir píanóleikari, f. 26.10. 1950. Börn þeirra eru: a) Guðmundur Tómas, f. 21.1. 1969, d. 27.11. 1994, sonur hans og Ólafar Sigríðar Valsdóttur er Guðmundur Tómas, f. 27.4. 1995, b) Ragnar Tómas, f. 28.8. 1970, maki Sigríður Freyja Ingimarsdóttir, f. 18.8. 1970, börn þeirra eru Ingimar Tómas, f. 13.11. 1992, og Kristrún, f. 23.3. 1995, c) Kristján Tómas, f. 6.12. 1978, og d) Selma Lára, f. 10.12. 1993. 4) Ásta Kristrún námsráðgjafi, f. 25.8. 1952, maki Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður, f. 23.1. 1952. Börn þeirra eru a) Árni Tómas, f. 9.5. 1977, b) Tómas, f. 17.12. 1987, d 17.12. 1987, c) Arnar Tómas, f. 10.5. 1989, og d) Vigdís Vala, f. 9.3. 1993. 5) Hallgrímur Tómas viðskiptafræðingur, f. 25.1. 1961, maki Anna Haraldsdóttir íþróttakennari, f. 2.9. 1959. Börn þeirra eru: a) Ragnar Tómas, f. 2.2. 1986, b) Haraldur Tómas, f. 24.8. 1990, og c) Erla Guðbjörg, f. 9.2. 1996.

Vigdís ólst upp á Vesturgötu 36b og bjó þar með fjölskyldu sinni til ársins 1958. Þá flutti fjölskyldan að Jörva við Vesturlandsveg á Ártúnshöfða. Árið 1968 flutti fjölskyldan að Rauðalæk 29 þar sem Vigdís bjó til æviloka. Vigdís lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1940 og starfaði um þriggja ára skeið á Morgunblaðinu. Hún var læknaritari á Rannsóknastofu Háskólans frá árinu 1968 til ársins 1993. Hún stundaði mikið hestamennsku og hannyrðir og var kunn fyrir mikinn áhuga sinn á ættfræði og sögu. Hún var félagi í Thorvaldsensfélaginu og Grikklandsvinafélaginu.

Útför Vigdísar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Miðvikudagurinn 28. mars var sólbjartur og fagur, vorið handan við hornið. Við sjúkrabeðinn voru börn, tengdabörn og barnabörn. Kveðjustundin nálgaðist óðfluga. Fallegir geislar gægðust inn um gluggann, fyrir utan sat þröstur á grein. Táknrænt. Einkennilega friðsæl stund. En samt svo erfið. Árin flugu hratt í gegnum hugann, viðburðarík ævi senn á enda runnin. Dugmikil og stolt kona hafði frá áramótum barist hetjulega, þráði meiri tíma, hún skyldi og hún ætlaði. En baráttan tók sinn toll. Hún sættist loks við örlögin, viss um að finna frið og ástvini hinum megin. Í fjarlægð myndi hún fylgjast stolt með afkomendum sínum.

Hvers vegna voru kveðjulokin svo ljúfsár? Árin höfðu flogið fram, ótal gleðistundir, en samt svo margt ógert. Úr þessu yrði engu breytt og engu bætt við. Kannski var það lexía fyrir framtíðina? Æðsta takmark mömmu var að koma börnum til manns. Hún kunni að ögra og hvetja til dáða: "Ef sverð þitt er stutt, gakktu þá feti framar." Ekki vert að hrósa um of, gæti slaknað á klónni og værukærðin færst yfir. En barnabörnin skyldu njóta ástar, hlýju og vinarþels í enn ríkari mæli.

Hún var hafsjór af fróðleik um liðna tíma, óþreytandi að segja sögur. Ást og virðing fyrir þeim sem á undan gengu. Reykjavík á fyrri árum, Vesturgatan og Vesturbærinn í ljóma skútuskipstjóra og sjómanna. Húsið á Eyrarbakka og tónlistin hans pabba. Stolt að vera borin og barnfæddur Reykvíkingur í marga ættliði. Og allt það góða skyldi hún kenna þeim sem á eftir kæmu.

Hallgrímur Tómas Ragnarsson, Anna Haraldsdóttir.

Þegar ég minnist Vigdísar Schram tengdamóður minnar streyma fram fjölmargar jákvæðar minningar um kynni okkar og samveru á liðnum áratugum. Fyrsta fund okkar bar að á þann hátt, sem mér er alltaf minnisstæður. Þá bjó fjölskyldan á Jörva á Ártúnshöfða en þangað höfðu þau Ragnar og Nenna ákveðið að flytja ásamt börnum og hrossum, árið 1958, eftir að hestahald var ekki lengur leyft inni í bænum. Árni Tómas, sonur þeirra, og ég vorum byrjuð að draga okkur saman og hann hafði boðið mér í reiðtúr. Þegar við snerum heim í hlað aftur var Nenna þar fyrir og reyndi ég hvað ég gat að bera mig vel þegar ég brölti af baki, lítt vön hestum, og kynnti mig svo fyrir henni. Frá fyrstu tíð vakti hún virðingu mína og hrifningu fyrir glæsileika, fallegt fas og trausta skaphöfn. Hún hafði erft fríðleika Schramfjölskyldunnar í bland við svipmikið útlit móðurfólks síns, í báðar ættir komin af rótgrónum Vesturbæingum, einstöku sómafólki sem ég átti eftir að fá að kynnast í gegnum tíðina og læra mjög vel að meta. Þetta var einkum sjómannsfólk sem búið hafði í Vesturbænum og á Seltjarnarnesi í marga ættliði, á bæjum eins og Miðseli, Ráðagerði, Gróttu og Hlíðarhúsum, en þó fyrst og fremst við Vesturgötu og Stýrimannastíg. Nenna var afar fjölskyldurækin kona, sem kom m.a. fram í einstaklega nánu og þéttu sambandi hennar við foreldra sína, þau Láru og Kristján Schram á Vesturgötu 36B, en í því fjölskylduhúsi bjuggu þau Ragnar og Nenna frá upphafi sambúðar sinnar þar til þau fluttust á Jörva, og þar fæddust þeim fjögur elstu börnin. Nenna kynntist Ragnari innan við tvítugt og má segja að hann hafi komið eins og riddari á hvítum hesti inn í líf hennar og sigrað hjarta hennar í einu vetfangi. Sagan af fyrstu kynnum þeirra og aðdraganda ævilangrar sambúðar var ævintýri líkust. Frá því og svo mörgu fleiru, sem tengdist lífi þeirra og fjölskyldu, kunnu þau Nenna og Ragnar afar vel að segja í lifandi, litríkri frásögn.

Fjölskylda Ragnars var ekki minna spennandi en hinar gamalgrónu reykvísku ættir Nennu. Ragnar átti ættir að rekja til Hússins á Eyrarbakka en einnig til presta og lækna frá Grenjaðarstað og Hólmum í Reyðarfirði, að ógleymdum sjómönnum og bændum sem voru föðurfólk hans úr Arnarfirðinum. Þessi fjölskyldutengsl voru Nennu afar dýrmæt. Samband hennar við Kristrúnu tengdamóður sína var kærleiksríkt og náið og bjó Kristrún inni á þröngt skipuðu heimili þeirra hjóna á Vesturgötu um nokkurra ára skeið og hélt þar bæði uppi hljóðfæraslætti og söng auk þess sem hún sat við útsaum á gullfallegum veggteppum. Kristrún var ein af fyrstu menntuðu píanóleikurum landsins og afar listfeng kona. Fáir hafa haldið merki hennar og minningu meira á lofti en Nenna. Hún stuðlaði einnig að því að öll börn þeirra Ragnars eignuðust sitt hvert af veggteppum Kristrúnar og prýða þau nú stofur margra heimila. Sjálf lærði Nenna margt af tengdamóður sinni og var m.a. orðin mjög slyng við útsaum auk þess sem ég hygg að margar mataruppskriftir hennar hafi komið úr Húsinu á Eyrarbakka í gegnum tengdamömmu og var hún óspör á að miðla þeim. Hún kenndi mér m.a. að elda jólarjúpurnar með aðferð sem ég held enn í heiðri.

Síðasta aðfangadagskvöld er mér eftirminnilegt fyrir þær sakir að þá var Nenna með okkur, sem búum nú á Vesturgötu 36B, glöð og kát, og átti vart orð til að lýsa því hvað rjúpurnar mínar hefðu heppnast vel. Þá var nú gaman að vera til.

Eftir fráfall Ragnars árið 1984 hélt Nenna áfram búi á Rauðalæk 29. Þá kom það sér vel hversu vinmörg hún var og vinsæl því einvera átti lítt við hana, svo félagslynd sem hún var. Síðastliðið ár var viðburðaríkt, hún naut þess að fara í brúðkaupsferð til Írlands í brúðkaup Vigdísar nöfnu sinnar og sonardóttur. Um mitt sumar fór hún með okkur fjölskyldunni upp á Snæfellsjökul á vélsleða og nokkrum vikum síðar í Spánarferð með vinkonum sínum. En oft bregður sumri skjótt. Snemma í janúar veiktist Nenna illa og náði sér ekki á strik á ný þrátt fyrir bestu umönnun þeirra sem hana önnuðust og umhyggju barna, barnabarna og vina sem streymdu til hennar. Afi Bonni hefði orðið níræður 13. mars síðastliðinn. Nenna náði því að halda upp á daginn umvafin allri fjölskyldunni í veislu á heimili Hallgríms og Önnu. Það var dýrmæt stund. Ömmu Nennu verður sárt saknað en minning hennar lifir.

Selma Guðmundsdóttir.

Nenna tengdamóðir mín hefur nú kvatt okkur og lagt í sína síðustu för. Ég kynntist henni fyrir rúmum þrjátíu árum þegar ég kom í heimsókn á Rauðalækinn, nýbakaður heitmaður "draumadísar pabba síns", Ástu Kristrúnar. Mér var tekið vel og með miklum höfðingsskap af þeim Nennu og Ragnari Tómasi og aldrei gleymist jólamáltíðin þegar tengdasonurinn verðandi bragðaði rjúpur í fyrsta sinn. "Er ekki sósan frábær?" spurði Bonni með landsþekktri bassaröddu og sínu íbyggna brosi og leyndi sér ekki stoltið. Á Rauðalæknum kynntist ég sönnum heimsborgurum sem ræktuðu samband sitt við liðna tíð, hefðir og arfleifð feðranna og mæðranna af mikilli alúð. Hér fóru saman góðar gáfur og listræn sýn á lífið.

Tónlist skipaði veigamikinn sess á heimilinu og Bonni opnaði mér dyr í þann hjartfólgna fjársjóð sinn. Þrátt fyrir að mín eigin tónlist væri ekki á nótum Isis og Osiris var henni tekið af lifandi áhuga. Að því kom að ég stjórnaði gerð hljómplötu með gömlum revíulögum. Þá var nú ekki komið að tómum kofunum á Rauðalæknum! Ég var leiddur inn í tíðarandann og sögur sagðar af leikurum og listamönnum og útvarpsfólki sem settu þennan hluta íslenskrar menningarsögu í alveg spánnýtt samhengi.

Nenna Schram var skarpgreind kona, minnug svo af bar og frásagnarsnjöll. Gamli Vesturbærinn, sem rætur hennar standa svo djúpt í, vaknaði til lífsins í frásögnum svo skýrt fram settum að jaðraði við kvikmynd. Það sama gilti þegar bar á góma hina dramatísku fjölskyldusögu Ragnars Tómasar, langt aftur á 19. öldina. Hún Nenna var fræðimaður í eðli sínu og hefði með sínum góðu gáfum getað klifið akademísk standbjörg að vild, en tíðarandinn í kringum seinna stríð var slíkur að hún lét sér nægja verslunarskólaprófið sitt. Hún var alla tíð sígrúskandi og margfróð um allar þær ættir sem að fjölskyldunni standa, ekki aðeins um nöfn og vensl, heldur líka um söguna, ævi og örlög fólksins á bak við nöfnin.

Nenna var glæsileg kona, bæði í fasi og á velli, á þann hátt sem við tengjum stundum við hefðarfólk. Og það var það sem hún var: Hefðarfrú í öllum hugsanlegum merkingum orðsins. Staðföst á sínu og sjarmerandi húmoristi í senn, hjálpsöm með afbrigðum og raungóð. Góð amma! Ég kveð tengdamóður mína með söknuði um leið og ég tileinka henni og Ragnari Tómasi á útfarardegi hennar lag sem ég hef nýverið samið við ljóðið "Sól stattu kyrr" eftir Sigurð Sigurðsson frá Arnarholti. Ljóðið hefur alltaf verið nátengt Nennu og Ragnari Tómasi og er í huga barna þeirra eins konar tákn fyrir ástarsól þeirra hjóna.

Sól stattu kyrr! Þótt kalli þig sær

til hvílu – ég elska þig heitar.

Þú blindar mín augu, en þú ert mér svo kær

og eins hvort þú skín, eða bæn minni neitar.

Ég sæki þér nær, þótt þú færir þig fjær

þótt þú fallir í djúpið mitt hjarta til geislanna leitar!

Valgeir Guðjónsson.

Elsku amma mín, ég vildi óska að ég gæti komið einu sinni enn í heimsókn til þín á Rauðalækinn. Við gætum boðið öllum frændsystkinunum í mat og heyrt þig tala um ættarsögu okkar. Það væri nú gaman að heyra aftur sögur úr fjölskyldunni, kíkja í albúmin þín og skoða gamlar myndir.

Amma Nenna mundi öll nöfn fólks langt aftur í aldir og nöfn allra fjalla og dala á Íslandi. Hún var alltaf tilbúin að segja okkur skemmtilegar sögur og kenna okkur sögu lands og þjóðar. Þessar stundir okkar með ömmu Nennu eru ein helsta ástæða þess hve sterkt við systurnar erum tengdar Íslandi þótt við höfum búið í Bandaríkjunum frá fæðingu. Við systurnar höfum farið til Íslands á hverju sumri. Amma tók alltaf á móti okkur í dyrunum þegar við vorum litlar og sagði "dúllí dúll" og lét eins og við værum bara að kíkja við úr Vesturbænum. Þegar við vorum með ömmu leið okkur alltaf vel og aldrei eins og við værum útlendingar í heimsókn á Íslandi.

Amma var fjörug og skemmtileg. Hún kynnti okkur fyrir nýjum vinum, eldaði fyrir okkur kakósúpu í kvöldmat og lánaði okkur fínu fötin sín þegar við fórum út á kvöldskemmtanir. Hún var alltaf tilbúin til að keyra okkur hvert sem var. Hún keyrði okkur í reiðskólann hjá Rosemary, til Eyrarbakka að skoða "Húsið" sem langamma átti heima í, til Skálholts, til frænku okkar í sveitinni og þegar við vorum í Reykjavík keyrði hún okkur í bíó, á böll og í partí hjá vinum okkar. Hún kom meira að segja að sækja okkur þegar böllin voru búin klukkan þrjú á nóttunni.

Amma Nenna kom líka oft í heimsókn til okkar í New York og þegar við systurnar giftum okkur kom hún í öll brúðkaupin. Hún var líka alltaf tilbúin að koma í öll boð þar sem hún talaði hreykin um fjölskyldu sína. Í júní í fyrra kom hún í brúðkaup okkar Gavins á Írlandi, dansaði og var hrókur alls fagnaðar öllum til mikillar skemmtunar.

Amma Nenna var dugleg kona, sjálfstæð og lét margt gott af sér leiða. Henni þótti vænt um okkur systurnar og lét okkur finna það. Í haust heklaði hún og saumaði út í gömlum stíl húfur fyrir tvær nýfæddar dætur okkar systra og eiga þær eftir að heyra margar skemmtilegar sögur um ömmu Nennu. Við systurnar eigum eftir að sakna elsku ömmu og finna til mikils tómleika þegar við komum til Íslands, sem verður aldrei aftur eins í okkar huga. Við vorum lánsamar að fá að kynnast svo vel þeirri frábæru konu, sem hún amma okkar var.

Systur mínar, Hildur og Þórunn, verða fulltrúar okkar systra við útför ömmu, en því miður komumst við Kristín ekki.

Vigdís Kristjánsdóttir Burke.

Hún amma Nenna var alltaf mjög hress og málglöð og hafði alltaf eitthvað skemmtilegt til að segja frá. Hún sýndi okkur barnabörnunum alltaf mikla umhyggju og var mjög gjafmild og góð. Ég elskaði hana mjög mikið, og kunni að meta allt það sem hún gerði fyrir mig. Hún hafði verið hjá okkur fjölskyldunni á aðfangadagskvöld. Hún var hress og kát og talaði mikið um skemmtilega hluti og hélt fjörinu uppi. Svo í byrjun janúar, þá hringdi hún sjálf í heimasímann hjá okkur, og enginn annar var heima en ég. Hún sagðist vera veik, og ég lét mömmu vita. Svo skömmu seinna var hún lögð inn á Landspítalann. Hún var víst mjög veik, en það bar hún alls ekki utan á sér. Hún leit mjög vel út miðað við veikindin. Í næstu heimsókn minni man ég að þegar ég kvaddi hana bað ég um að fá að vera í einrúmi með henni. Ég sagði við hana: "Vertu sterk amma mín, við treystum á þig. Ég veit alveg að þú getur þetta, ég elska þig." Hún gat ekki talað en það þurfti ekki, brosið hennar sagði allt sem þurfti. Svo var hún flutt á Grensás, í endurhæfingu. Öll fjölskyldan var mjög dugleg að mæta þar, og Lára og Kiddi fylgdust mjög vel með í gegnum síma. Þetta gekk allt í haginn og hún leit mjög vel út. Ásta var mjög dugleg að hugsa um hana, um smáatriðin og stóru atriðin, og ég lít upp til hennar fyrir það. Ég var því miður ekki alveg nógu dugleg að heimsækja hana, og er ekki stolt af mér fyrir það. En hún vissi samt alltaf að mér þætti rosalega vænt um hana, og það finnst mér gott. Svo einhverju seinna fluttist hún á Grund, en náði ekki að vera mjög lengi þar. Ég var í miðjum skólatíma þegar ég frétti þetta. Að hún væri dáin. Hjartað í mér stoppaði og ég hljóp út, og hágrét. Svo kom Kiddi bróðir og sótti mig. Hann sagði mér að hún hefði dáið kvalalaust, hún hefði bara ekki vaknað um morguninn. Að þetta hefði verið fallegasti dauðdagi sem til væri. Og ég var sammála því og hætti að gráta. Ég fór upp á Grund, og sá hana þar. Svo friðsæla og fallega. Sólin skein á hana, og ég vissi að nú væri Guð að taka á móti henni. Sólin hætti ekki að skína þann dag, og ég vissi að það væri af því að Guð ljómaði af gleði að fá að sjá svona yndislega og fullkomna manneskju koma til sín aftur, tilbúna að byrja nýtt líf uppi hjá honum. Ég kyssti hana á kinnina og fann til hlýju frá henni, og ég vissi að henni leið mjög vel þar sem hún var stödd. Ég vissi að hún væri komin á betri stað, og sæti nú á skýjunum og horfði brosandi niður á okkur, stolt í bragði.

Ég mun aldrei gleyma hvað hún var góð, hress og virðuleg. Barngóð og hlýleg. Ég gæti ekki hugsað mér hana öðruvísi en hún var, hún var nánast fullkomnasta amma sem hægt er að hugsa sér. Ég mun aldrei gleyma þér elsku amma mín, ég elska þig og Guð geymi þig.

Selma Lára Árnadóttir.

Það kvað vera fallegt í Kína.

Keisarans hallir skína

hvítar við safírsænum.

En er nokkuð yndislegra

– leit auga þitt nokkuð fegra –

en vorkvöld í vesturbænum?

Svo fagurlega kvað Tómas skáld Guðmundsson forðum og sannaði þar hið fornkveðna, að glöggt er gests augað. En það voru þó ekki kvöldin ein, sem hér var um að ræða. Stundum gerðist það, sem kalla má kraftaverk í íslenzkri veðráttu, að góðviðrið hélzt langt á sumar fram.

Það var á einum slíkum sólskinsmorgni, er hanar Vesturbæinga höfðu hafið morgunsöng sinn, að lítill sjómannssonur lá vakandi við hlið móður sinnar og varð þess brátt áskynja, að einnig hún var glaðvakandi og hlustaði sem hann. Var nú forvitni pilts vakin, og dirfðist hann að spyrja móður sína, hvort hún heyrði hið ókennilega hljóð. Svo reyndist vera, og kvað hún það koma frá lítilli dóttur systur sinnar, sem fætt hafði fyrsta barn sitt þá um morguninn. Á þessum fagra sólskinsmorgni fæddist sem sé ágæt frænka mín, sem í skírninni hlaut nafnið Jónína Vigdís, með ættarnafni föður síns, Kristjáns Schram skipstjóra.

Allt er þetta nú löngu liðið og ævi þessarar frænku minnar verður að teljast hafa verið hamingjutími, bæði í uppvexti og allt til loka. Ung gekk hún að eiga drengskaparmann, Ragnar Tómas Árnason, sem meðal annars var um skeið einn af þulum Ríkisútvarpsins. Eignuðust þau saman fimm mannvænleg börn, sem öll hafa reynzt nýtir borgarar, hvert á sínu sviði. Sendum við fjölskylda mín þeim öllum, börnum þeirra og öðrum vandamönnum innilegar samúðarkveðjur í sorg þeirra.

Jón S. Guðmundsson.

Langt, langt er síðan ég hitti hana Nennu fyrst. Í fjölskylduboði í föðurhúsum á Vesturgötunni, þar sem systkini pabba, makar þeirra og börn hittust við hátíðleg tækifæri. Þetta var um miðja síðustu öld. Þær voru tvær dætur Kristjáns heitins, Magdalena og Jónína Vigdís, alltaf kallaðar Magda og Nenna. Magda var líkari föður sínum, Nenna ljóslifandi eftirlíking af Láru mömmu sinni. Þar var heldur ekki leiðum að líkjast. Foreldrar þeirra systranna voru eins og aristókratar í útliti, eins og þeir gerast bestir. Höfðingleg, falleg og háttvís. Mæðgurnar Lára og Nenna höfðu þetta sama andlit, glaðvært og geislandi, og það ljómaði af þeim gleðin og glettnin í augunum og öllu fasi. Þær gátu verið háværar og hláturmildar en það kom enginn að tómum kofunum í rausn og reisn. Það voru forréttindi að umgangast slíkar manneskjur.

Ég labbaði mig niður í Austurstræti seint á síðustu Þorláksmessu og hver stendur þar á miðju fortóvinu nema hún Nenna frænka, prúðbúin drottning gömlu Reykjavíkur, og tók mér fagnandi eins og jafnan. Það var ekki að sjá að hún væri á förum, konan sú. Það reyndist í síðasta skipti sem ég hitti Nennu.

Hún kvaddi þetta líf með sæmd og í sátt. Og með henni er genginn fulltrúi þeirrar reykvísku kynslóðar sem reisti þessa borg og skóp hana. Með lífi sínu og athöfnum setti Nenna svip sinn á umhverfi sitt og með Bonna eignaðist hún fimm mannvænleg glæsileg börn sem hvert um sig hafa haldið merki þessarar fjölskyldu á lofti. Kiddi, Lára Magga, Ásta, Árni og Hallgrímur. Öll hafa þau tekið í arf gáfur foreldra sinna, athafnagleði og persónuleika. Enda var Nenna stolt af börnunum sínum og afkomendum, naut þeirra og elskaði þau og skilaði arfi og eiginleikum fjölskyldunnar, rétt eins og hún sjálf skilaði keflinu frá foreldrum sínum, afa og ömmu, okkur öllum frændsystkinum hennar til vegsauka og virðingar.

Þessi lífsglaða og yndislega kona er nú horfin yfir móðuna miklu. Farin með sögurnar sínar og minningarnar, nærveru sína og fróðleikinn, birtuna og kraftinn. En eitt sinn skal hver deyja og um leið og við söknum hennar gleðjumst við yfir farsælu lífi hennar og þeim tengslum sem hún batt milli stórfölskyldunnar.

Ég, Ágústa og börnin mín flytjum börnunum hennar Nennu innilegustu samúðarkveðjur með þakklæti fyrir langa og giftudrjúga samleið.

Ellert B. Schram.

Jónína Vigdís Schram lést á fallegum degi, það var vor í lofti og sólin baðaði hauður og haf geislum sínum.

Ég minnist margra góðra stunda með Nennu, þær voru alltaf skemmtilegar. Í hugann kemur dagstund sem við áttum saman í New York fyrir rúmum tveim áratugum, þar sá ég hvað Nenna var flott heimskona.

Ég minnist þess að á ættarmóti hjá Schram-fjölskyldunni hélt Nenna ræðu og fræddi niðja Ellerts og Magdalenu um frændgarðinn sem er öllum mikilvægt að þekkja.

Þá kemur í hugann ferðin sem farin var í tilefni af áttræðisafmæli hennar, austur um Þingvelli í Grímsnesið þar sem forfeður hennar bjuggu.

Mikið naut Nenna sín í þeirri ferð, hún þekkti sögu og staðhætti svo unun var á að hlýða.

Langafi Nennu, Kristján Gynther Schram og langamma hennar, Hallbjörg Guðmundsdóttir, bjuggu í Öndverðarnesi á árunum 1860–1870.

Sonur þeirra Ellert Kristófer Schram, skipstjóri í Reykjavík, gaf veglega peningaupphæð árið 1943 til minningar um foreldra sína sem skyldi notuð til þess að stuðla að skógrækt í Grímsnesinu til ánægju og prýði.

Nenna bar mikla umhyggju fyrir gamla ættarhúsinu sem við búum núna í og fagnaði með okkur íbúum á Stýrimannastígnum aldarafmæli hans.

Ég sé Nennu fyrir mér skellihlæjandi í fertugsafmæli mínu í desember síðastliðnum, hún kunni að gleðjast með góðum. Nenna var fróð, hafði mikla frásagnargáfu og var óþreytandi að fræða um liðna tíð.

Hún var skemmtileg, hrein og bein og hafði hlýja nærveru.

Elska hennar og vinátta við mig og fjölskyldu mína er dýrmæt og er ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þessari heiðurskonu og hafa átt að vini. Ég sakna hennar sárt og sendum við fjölskyldan ástvinum hennar öllum innilegar samúðarkveðjur. Kveð Nennu með virðingu og þakklæti fyrir allt og allt.

Blessuð sé minning Jónínu Vigdísar Schram.

Laufey Böðvarsdóttir.

Við fráfall Nennu Schram er stórt skarð höggvið í raðir okkar skólasystkinanna. Nenna var glæsileg dugnaðarkona, félagslynd og skemmtileg, enda hafði hún frá mörgu að segja. Einkum var hún ættfróð og svo minnug að oft var viðkvæðið hjá okkur ef vita þurfti deili á einhverjum: "Spyrjum Nennu." Á síðari árum festi hún á blöð ýmsar upplýsingar um ættmenni sín og Ragnars manns síns, til fróðleiks fyrir afkomendur sína, enda í sumum dæmum um mjög athyglisverðar sögur að ræða. Við kveðjum Nennu með söknuði og þökk fyrir langa og ánægjulega samfylgd. Börnum hennar og öðrum aðstandendum vottum við innilega samúð.

Skólasystkinin.

Kveðja frá Thorvaldsensfélaginu

Frú Vigdís Kristjánsdóttir Schram hafði verið félagskona í Thorvaldsensfélaginu í mörg ár þegar hún lést. Vigdís var glæsileg kona og sópaði að henni hvar sem hún fór. Hún var góðum gáfum gædd og mikil félagsvera. Hún sýndi félagi sínu mikinn áhuga og lét sig ekki vanta á fundi, í ferðalög og á skemmtanir á þess vegum gæti hún því við komið. Það var ávallt líf og fjör þar sem hana var að finna og uppbyggilegt og skemmtilegt að eiga við hana orðræður. Hennar verður því sárt saknað.

Við kveðjum nú trausta og góða félagskonu með virðingu og þökk fyrir samverustundirnar á liðnum árum.

Fjölskyldu hennar sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður Sigurbergsdóttir formaður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.