Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá Landssambandi lögreglumanna: "Í kjölfar umfjöllunar sem hefur átt sér stað í þessari viku um auglýsingu frá dómsmálaráðuneytinu og lýtur að stöðu aðstoðarríkislögreglustjóra vill...

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá Landssambandi lögreglumanna:

"Í kjölfar umfjöllunar sem hefur átt sér stað í þessari viku um auglýsingu frá dómsmálaráðuneytinu og lýtur að stöðu aðstoðarríkislögreglustjóra vill Landssamband lögreglumanna koma eftirfarandi á framfæri.

Eins og kunnugt er hafa miklar breytingar átt sér stað í uppbyggingu lögreglunnar á Íslandi á síðustu árum og til þess að það hafi gengið eftir hafa dómsmálaráðuneytið og Landssamband lögreglumanna þurft að eiga mikið samstarf og verður ekki annað sagt en að það samstarf hafi verið farsælt og samskipti góð.

Lögreglumönnum, sem og öðrum sem fylgst hafa með, má vera það ljóst að núverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hefur sýnt mikinn áhuga á starfsumhverfi lögreglumanna og lagt sig allan fram við að styðja lögreglumenn til dáða. Þessu til stuðnings viljum við benda á að á sl. ári var Björn sæmdur gullmerki LL, fyrstur manna utan lögreglu, og nú nýverið var hann sæmdur gullmerki Félags yfirlögregluþjóna fyrir störf sín í þágu lögreglumanna.

Við breytingar á lögreglulögum, sem nýverið tóku gildi, lagði LL mikinn metnað í að þær tækjust sem best og möguleikar lögreglumanna á stjórnunarstöðum innan lögreglunnar yrðu sem mestir. Með mikilli eftirfylgni og einurð varð niðurstaðan sú að lögreglumenn hafa samkvæmt lögreglulögum möguleika á að gegna öllum stöðum innan lögreglunnar að stöðum lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra undanskildum og er það m.a. forsenda þess að LL hefur tjáð sig um mál þetta.

Landssamband lögreglumanna harmar þá umfjöllun sem átt hefur sér stað er lýtur að fjölskyldutengslum þess aðila sem sótti um áðurnefnda stöðu inn til dómsmálaráðuneytisins og telur hana ekki sanngjarna.

Lögreglumenn þekkja vel til starfa Páls Winkels og að góðu einu og viljum við koma því á framfæri að hann nýtur fulls stuðnings LL sem og lögreglumanna og teljum við hann mjög vel hæfan í þetta embætti.

Landssamband lögreglumanna mun ekki tjá sig frekar um mál þetta og er því lokið af þess hálfu.

Reykjavík, 9. maí 2007.

Hermann Karlsson,

varaformaður Landssambands lögreglumanna.