Jón Hjörleifur Jónsson ­ Sjötugur Ég hef sannfrétt, að í dag, miðvikudaginn 27. október, verði Jón Hjörleifur Jónsson kennari 70 ára. Þótt ég geti ekki rakið ætt hans og uppruna langar mig til að skrifa fáein orð til að minnast gamals og góðs vinar og fyrrverandi kennara.

Jón Hj., eins og hann er venjulega kallaður, er ættaður af Norðurlandi. Ungur að árum fór hann "suður" og settist að á Suðvesturlandinu. Hann hlaut kennaramenntun í Kennaraskóla Íslands, en fór líka til frekara náms í Bandaríkjunum og var þá á Atlantic Union College í Massachussetts-ríki á austurströnd landsins. Þegar hann var þar kynntist hann eiginkonu sinni, Sólveigu Ásgeirsson, en faðir hennar var bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrverandi forseta Íslands. Enda þótt Sólveig væri fædd og uppalin í Bandaríkjunum var hún íslenzk í allar ættir og hinn bezti kvenkostur sanns Íslendings sem Jón Hj. er. Þau giftust og fluttust til Íslands. Varð Jón stundakennari á Hlíðardalsskóla í Ölfusi í Árnessýslu. Kenndi hann þá m.a. tungumál, málfræði og kristinfræði. Sólveig kenndi vélritun og var hún einnig hjúkrunarkona skólans, en hún er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún spilaði einnig undir fyrir kórinn sem Jón venjulega stjórnaði, en hann hefur alltaf verið í tónlist af ýmsu tagi, og er afbragðs tenórsöngvari.

Ég kynntist Jóni fyrst 1958 þegar ég kom fjórtán ára gamall í gagnfræðaskólann í Hlíðardalsskóla. Mér leizt vel á Jón frá fyrstu kynnum. Hérna var lágvaxinn, kraftalegur og snaggaralegur maður, kvikur í hreyfingum og fannst manni sem hann vissi alltaf hvert halda skyldi. Hann var dálítið ráðríkur, eins og margir Íslendingar eru, og vildi jafnan fara sínu fram. Ég man vel eftir þegar hann sat stundum yfir nemendunum í lestrarstund í kennslustofunum og var að gæta að því að nemendurnir gerðu heimaverkefnin sín. Stundum var hvíslast á en því lauk fljótlega þegar Jón, sem sat við kennaraborðið, þrumaði: "Þögn í salnum, please."

Fyrsta árið mitt á Hlíðardalsskóla var ég svo heppinn að deila herbergi með fimm öðrum strákum niðri í kjallara í kennarabústað Jóns og Sólveigar. Það er vel hægt að ímynda sér að sex 14­15 ára strákar, sem eru í sama herbergi, geti braskað í hinu og öðru, sem ekki er í frásögur færandi. Man ég nöfn þeirra vel, enda þótt það séu yfir 35 ár síðan. Kumpánarnir voru þeir Jón Holbergsson, sem býr nú í Hafnarfirði, Heiðar Reykdalsson sem býr í Seattle, Washington, í Bandaríkjunum, Henrý Stefánsson sem býr í Flórída í Bandaríkjunum, Guðni Friðbergsson sem býr í Ósló, Karl Vignir Þorsteinsson sem býr í Reykjavík, og ég. Þau voru ófá skiptin sem Jón þurfti að koma niður í kjallara og þagga niður í okkur, og þá var það bara: "Þögn í herberginu, please."

Þeir sem voru á HDS, eins og Hlíðardalsskóli er venjulega kallaður, minnast örugglega með mikilli ánægju kynna sinna við Jón Hj. og Sólveigu. Jón var alltaf framfarasinnaður og framsýnn. Einu sinni var hann að hugsa um að ef hægt væri að setja upp nokkurs konar járnbrautarteina á vegginn hringinn í kennslustofunni gæti hann legið á nokkurs konar sófa sem hann gæti ferðast á um alla kennslustofuna fremur en ganga milli nemendaborðanna.

Já, dagar mínir á HDS eru alltaf geymdir í minningu minni með tregablandinni ánægju. Þar fór maður í skóla með unglingum sem létu seinna til sín taka á Íslandi. Get ég nefnt Garðar Cortes óperusöngvara og Hákon (Konna) Waage, sem seinna varð leikari.

Ég minnist einnig annarra kennara sem kenndu með Jóni, þeirra Sigurðar Bjarnasonar, Theodórs Guðjónssonar, séra Helga Sveinssonar, Björgvins Snorrasonar og fleiri. Ég á Jóni Hj. og hinum kennurunum mikið að þakka frá fjögra ára dvöl minni á HDS.

Jóni og Sólveigu varð fjögra barna auðið, þriggja stúlkna og eins drengs. Eru þau öll uppkomin og hin mannvænlegustu í hvívetna eins og þau eiga kyn til.

Jón starfaði mestallan sinn starfsaldur í þágu aðventistasafnaðarins á Íslandi, ekki aðeins sem kennari á Hlíðardalsskóla, heldur einnig sem skólastjóri, safnaðarprestur og í ýmsum öðrum mikilsverðum og ábyrgðarmiklum safnaðarstörfum. Öll þessi störf hefur hann leyst af hendi með sóma.

Á síðari árum hafa Jón og Sólveig átt heimili á Reykjavíkursvæðinu. Ég hefi heyrt að venjulega sé mannmargt hjá þeim, enda hafa þau norðlenzka og íslenzka gestrisni í hávegum.

Ég óska ykkur báðum, Jón og Sólveig, hjartanlega til hamingju með þennan áfanga í lífi ykkar, og Guðs ríkulegu blessunar á komandi árum.

Ég tek svo undir með vestur-íslenzka skáldinu honum K.N. Júlíusi, "Káinn", sem sagði eftirfarandi:

Engum leiðist, þó ég þagni,

þörf er ekki meira að segja;

fáum varð mín fyndni að gagni,

flestir vilja sjá mig þegja.

Óðum þverrar andans kraftur,

eftir langar næturvökur;

bráðum verð ég ungur aftur,

yrki fleiri og betri stökur.

Númi, í Moberly, Missouri, Bandaríkjunum.