27. maí 2007 | Bréf til blaðsins | 353 orð

Þorskveiðar

Frá Gesti Gunnarssyni:

Frá Gesti Gunnarssyni: "NÚ um stundir fréttist af mikilli þorskveiði á vertíðarslóð undan Suðurlandi. Aflabrögð eru svipuð og þau voru fyrir nokkrum áratugum. Hvað hefir gerst? Haustið 2005 fannst engin loðna og voru loðnuveiðar því sáralitlar þá um veturinn."
NÚ um stundir fréttist af mikilli þorskveiði á vertíðarslóð undan Suðurlandi. Aflabrögð eru svipuð og þau voru fyrir nokkrum áratugum. Hvað hefir gerst? Haustið 2005 fannst engin loðna og voru loðnuveiðar því sáralitlar þá um veturinn. Það er nú skýringin á bættu ástandi þorskstofnsins. Um 1980 "tíndist" loðnan og var ekki veidd í tvö ár. Við það jukust þorskveiðar og fóru í 400 þúsund tonn. Loðnuveiðar hófust svo aftur af miklum krafti og þorskveiði dróst saman. Í Alaska ganga þorskveiðar vel, einnig veiðar á Alaskaufsa. Þar í landi eru veiðar á loðnu og síld bannaðar til að verðmeiri fiskur hafi nóg æti.

Nú er sagt að fiskurinn í sjónum sé þjóðareign og þá skrýtið að þjóðin fái ekki að njóta þessarar eignar með sem arðbærustum hætti. Nú er það staðreynd að þorskveiðar minnka um 100 þúsund tonn fyrir hver 400 þúsund tonn af veiddri loðnu. Íslenska sauðkindin þarf að éta 27 kg af fóðri fyrir hvert kg af kjöti. Þetta mikla át er vegna þess að sauðkindin er á stöðugu ferðalagi að leita sér að fóðri.

Svín sem geymt er í húsi þarf 8 kg af fóðri fyrir hvert kg af kjöti. Nýtnastur af alidýrum er kjúklingurinn sem þarf 2,5 kg af korni fyrir kjötkílóið. Með þeim miklu loðnuveiðum sem hafa verið stundaðar linnulítið síðustu fjóra áratugi hefur þorskurinn verið hrakinn á vergang og er úti um allt að reyna að snapa sér eitthvað í svanginn. Forstjóri Hafró segir slæmt ástand á þorskstofninum en þó sé það batamerki að nú hafi fundist loðna í þorskmögum. Nú var það svo á þeim árum er þorskveiði var um og yfir hálfri milljón tonna að allir þorskmagar voru fullir af loðnu alla vertíðina, oft svo úttroðnir og harðir að maður hélt stundum að fiskurinn hefði étið grjót. Til að fá einhvern botn í þetta dularfulla mál ættu yfirvöld að leigja pláss í fiskeldisstöð, hafa sjóinn svona sex stiga heitan, setja þorsk í kerin, og láta hann éta loðnu eins og hann lystir.

Vigta svo fiskinn öðru hvoru og sjá hvað hann þyngist fyrir hvert kíló sem hann étur.

GESTUR GUNNARSSON,

Flókagötu 8, Reykjavík.

Frá Gesti Gunnarssyni:

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.