27. maí 2007 | Aðsent efni | 802 orð | 1 mynd

Hver er tilgangur samtakanna Landsbyggðin lifi?

Fríða Vala Ásbjörnsdóttir skrifar um samtökin LBL

Fríða Vala Ásbjörnsdóttir
Fríða Vala Ásbjörnsdóttir
Fríða Vala Ásbjörnsdóttir skrifar um samtökin LBL: "Það, að stjórnin velji sjálf uppstillingarnefnd er sama og að ganga að völdunum vísum. Brýnasta málið núna er að skipta um formann og stjórn."
LÝÐRÆÐIÐ varð eftir í Dalvíkurbyggð og við tók einræði. Á öðrum aðalfundi LBL árið 2003, þegar samtökin voru líka komin á sitt annað ár á fjárlög ríkisins, stóð núverandi formaður ásamt núverandi varaformanni, Sveini Jónssyni á Kálfsskinni, bónda úr Dalvíkurbyggð, fyrir hallarbyltingingu í stjórn. Í kjölfarið fylgdu straumhvörf í allri starfsemi samtakanna, sem fram að þessu hafði gengið mjög vel, og samtökin LBL höfðu orð fyrir að vera ópólitísk, lýðræðisleg og spennandi félagsskapur Það þótti líka nýstárlegt að hinum nýju heildarsamtökum var stjórnað af kvenmanni úr Reykjavík, stofnandanum.

Fyrstu tvö árin var höfuðáhersla lögð á verkefni, smá og stór. Svipað því sem tíðkast í sambærilegum félögum á hinum Norðurlöndunum ætluðum við okkur að láta verkefnin tala.

Með konu í formannssætinu má segja að Ísland hafi verið á undan sinni samtíð. Í Evrópu var rétt að byrja að konur sætu í forystuhlutverkum hugsjónafélaga um framþróun byggða. En einstaka bónda þótti erfitt að kyngja því að hafa konu og það úr borginni sem formann í sínu ríki. Þarna opnaðist tækifæri fyrir útsjónarsaman pólitíkus, nýfluttan úr borginni, að ýta undir þá skoðun, að auðvitað ætti formennskan að vera í höndum landsbyggðarmanna, ekki Reykvíkinga. Til að gera enn betur bauðst Ragnar til að gerast formaður í heildarsamtökunum, LBL. Í raun hefði þetta ekki átt að koma á óvart, vegna þess að einu ári áður, árið 2001, þegar undirrituð var að undirbúa stofnun nýs aðildarfélags að LBL í Dalvíkurbyggð, sagði Ragnar strax við mig: "Ég get vel hugsað mér að verða formaður", sem var all-óvenjulegt á frumstigi málsins.

Hin óvænta breyting, sem fylgdi í kjölfar hallarbyltingarinnar 2003 kom aðildarfélögunum í LBL úr jafnvægi. Í staðinn fyrir að takast á við spennandi verkefni, gerðust þau sinnulaus, héldu ekki aðalfundi, vildu bíða og sjá, hvort ekki kæmi betri stjórn og betri tíð. Í fjögur ár hefur þessi staða haldist óbreytt og því löngu tímabært að skipta um stjórn og reyndar beinlínis lífsnauðsynlegt að skipta um formanninn.

Engir stjórnendur – hversu góðir sem þeir eru – hafa gott af því að geta gengið að völdunum vísum eins og Ragnar hefur gert í skjóli vinaklíku. Það endar með ósköpum. Það endar með enn meiri klíkuskap, yfirlæti, sérhagsmunagæslu, einkavinavæðingu og já-spillingu. Og það endar með makalausum tíðindum eins og þeim, sem gerðust á aðalfundi heildarsamtakanna, Norges Velforbund, sem haldinn var í Tromsö í apríl sl. Til að dreifa völdunum velja Normenn reynda persónu til að gegna erlendum samskiptum, sem síðan fær að velja sjálf samstarfsmann sinn úr dreifbýli.

Á aðalfundi LBL 2006 bar svo við að undirrituð var valin fulltrúi erlendra samskipta. Ráðríkur formaðurinn valdi sjálfur varaformann sinn, Svein á Kálfsskinni, mér til samstarfs. Þetta vissi hinn norski fulltrúi erlendra samskipta og sendi því aðalfundarboð f.h. norsku heildarsamtakanna til mín, Sveins og Ragnars. En í stað þess að leyfa þeim, sem hafði umboð landsfundar til að sinna erlendum samskiptum að svara boðinu, tilkynnti Ragnar, að hann einn kæmi til norska aðalfundarins á vegum LBL. Á hinum Norðurlöndunum er það ekki álitamál, að landskjörinn fulltrúi hefur ávallt fyrsta rétt til að sækja erlenda samstarfsfundi, ætli viðkomandi land sér á annað borð að taka þátt. Þess vegna tilkynnti ég þátttöku mína fundinum í Noregi og sá sjálf um að fjármagna þá ferð. Þessum áhuga mínum réð stórt og framsækið verkefni, sem Reykjavíkurdeidin er að vinna að í þágu byggða og í samvinnu við Norðurlönd.

Á Íslandi hafði ég spurt Ragnar, hvort hvort hann hefði ekki tilkynnt þátttöku mína, en ekkert fengið fyrr en til Noregs kom. "Nei, ég ætla ekki að tilkynna þig, Fríða" var svar hans.

Hófst nú mikið stapp og stag, en Ragnar lét sig ekki. Og svo fór, að Norðmenn, sem ætluðu að bjóða mér frítt fæði og húsnæði, urðu að vísa mér út fyrir framan nefið á fundargestum! Þvílík niðurlæging!

Í Noregi sat ég fund Hela Norden ska leva, HNSL. Þeim fundi lauk kl. 20 að kvöldi, og Ragnar – að eigin ósk – tók við formennsku. Tók þá við veislumáltíð fyrir alla nema mig, sem varð að láta mig hverfa!

Á fjárlögum Alþingis 2007 fékk LBL kr. 1,6 milljóir, sem trúlega hafa verið ætlaðar til efla starfsemi innan aðildarfélaga LBL. Fyrir tilstilli formannsins fer ekkert af þessum peningum til verkefna almennt, nema þau séu á vegum pólitískra meðbræðra formannsins, og/eða unnin af þeim. Mestur hluti fjárins fer í að halda stórfund, Byggðaþing á Hvanneyri í tengslum við næsta aðalfund LBL svo og útgáfu rits um þann fund.

Á hinum Norðurlöndunum er mest áhersla lögð á verkefni innan aðildarfélaganna, vegna þess að í verkefnum er þar álitin felast raunveruleg byggðaþróun nútímans.

Á umliðnum fjórum árum, sem sitjandi stjórn hefur verið við völd í LBL hefur stjórnin sjálf valið uppstillingarnefnd, sem er sama og að ganga að völdunum vísum.

Brýnasta málið núna hjá LBL er að skipta um formann og stjórn.

Höfundur er stofnandi og fyrsti formaður LBL og formaður LBVRN.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.