27. maí 2007 | Leiðarar | 574 orð

Fjölskyldur og fíkniefni

Fjölskyldan er lykilatriði í baráttunni gegn fíkniefnum, ekki áróður og predikanir. Þetta má ráða af niðurstöðum evrópskrar rannsóknar í forvörnum, sem voru kynntar á Bessastöðum í fyrradag.
Fjölskyldan er lykilatriði í baráttunni gegn fíkniefnum, ekki áróður og predikanir. Þetta má ráða af niðurstöðum evrópskrar rannsóknar í forvörnum, sem voru kynntar á Bessastöðum í fyrradag. Rannsóknin nefnist Æska í Evrópu – áætlun um forvarnir gegn vímuefnum. Reykjavík var borin saman við níu borgir í Evrópu og kom í ljós að neysla hér er minni en í hinum borgunum. Rannsóknin er hluti af verkefni, sem þessar borgir taka þátt í og snýst um að draga úr neyslu fíkniefna meðal unglinga. "Við ákváðum fyrir nokkrum árum að ýta úr vör því metnaðarfulla markmiði að tengja saman borgir í Evrópu í nýju forvarnarstarfi," sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti á kynningarfundinum.

Fylgst hefur verið með þróun vímuefnaneyslu unglinga á Íslandi á undanförnum tíu árum. Kemur fram að meðal unglinga í 10. bekk grunnskóla hefur drykkja áfengis, reykingar og hassneysla dregist saman um helming á þessum tíma.

"Okkar þróun er ánægjuleg," sagði Inga Dóra Sigfúsdóttir, fræðimaður við Háskólann í Reykjavík, þegar hún kynnti niðurstöður forvarnarverkefnisins. "Unglingar og foreldrar eru greinilega farnir að eyða meiri tíma saman. Foreldrar hafa nánari gætur á því hvar unglingarnir þeirra eru og með hverjum. Neyslan hefur dregist saman svo um munar. Í samstarfsborgum okkar í Evrópu ætlum við nú að leitast við að ná sama árangri þar og við höfum náð hér á undanförnum árum."

Skaðsemi vímuefna þarf ekki að tíunda og því yngri sem börn hefja neyslu þeirra, þeim mun meiri er skaðinn. Afleiðingar af neyslu vímuefna geta verið banvænar og það þarf engum blöðum að fletta um ömurleika þess að verða vímuefnum að bráð – bæði fyrir fíklana og aðstandendur þeirra. Hryllilegast er þegar óharðnaðir unglingar verða eitrinu að bráð.

Í forvarnarkönnuninni er vitnað til unglinga og þurfa ummæli þeirra ekki að koma á óvart. Þrjár tilvitnanir, sem birtust í Morgunblaðinu í gær, segja sína sögu: "Ekki endalausar ræður, heldur venjuleg samtöl," segir einn unglingur um samskiptin við foreldra. "Kaupa minni íbúð, þá þurfa foreldrar ekki að vinna eins mikið og allir eru í meira návígi og meira saman," segir annar. "Vinna minna og tala meira við börnin sín," segir sá þriðji. Hér er komið að kjarna málsins. Neysla unglinga á vímuefnum er ekki einangraður vandi. Hann er ein birtingarmynd íslensks samfélags þar sem þrotlaus sókn eftir gæðum verður lítils virði ef enginn tími er til að njóta þeirra. Margir mættu hægja á sér í lífsgæðakapphlaupinu og kæmust þá ef til vill að þeirri óvæntu niðurstöðu að þannig fengjust meiri lífsgæði, að minna er meira. Það er auðvelt að vera svo önnum kafinn að tengslin slitna við nánasta umhverfi, en það er betra að ranka við sér á meðan allt leikur í lyndi heldur en þegar það er um seinan.

Það getur verið hægara sagt en gert fyrir marga að draga úr vinnu. Mikil vinna er ekki uppátæki starfsmanna, hún er einnig hluti af vinnumenningu og fylgir kröfum fyrirtækja og atvinnurekenda. Atvinnulífið stendur ekki fyrir utan samfélagið, heldur er hluti af því. Ástandið í samfélaginu hefur áhrif á fyrirtæki. Heilbrigðara samfélag er allra hagur.

Á Íslandi eiga að vera forsendur til að hlúa að fjölskyldunni. Nú er komin upp aukin krafa um að íþróttaæfingar barna og tónlistarnám fari fram á hefðbundnum vinnutíma þannig að þegar vinnu foreldranna lýkur hafi fjölskyldan tíma til að vera saman í stað þess að vera á þönum með börnin í aftursætinu milli íþróttafélaga og tónlistarskóla. Þeirri kröfu þarf að fylgja eftir. Unglingar vilja náið fjölskyldulíf. Foreldrar vilja það líka. Þar er besta forvörnin gegn fíkniefnum.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.