27. maí 2007 | Minningargreinar | 904 orð | 1 mynd

Sigríður Gissurardóttir Muller

Sigríður Gissurardóttir Muller fæddist á Fjölnisvegi 6 í Reykjavík 2. júlí 1930. Hún lést á heimili sínu í St. Catharines í Ontario í Kanada 8. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Gissur Sveinn Sveinsson, f. 14. september 1895, d. 27. febrúar 1969, og Guðrún Sæmundsdóttir, f. 23. september 1899, d. 1. maí 1938. Systkini Sigríðar eru 1) Ingólfur, f. 7. ágúst 1923, d. 26. mars 2004, 2) Sæmundur Kristinn, f. 5. september 1924, d. 4. nóvember 1974, 3) María, f. 17. september 1926, d. 16. apríl 1927, 4) Ísleifur, f. 22. ágúst 1928, d. 3. apríl 1993, 4) Hróðmar, f. 3. október 1931, og 5) Gunnar, f. 23. janúar 1934, d. 14. október 1956.

Seinni kona Gissurar var Guðrún Pálsdóttir, f. 1. apríl 1891, d. 10. júlí 1981. Fóstursonur Guðrúnar var Páll Sigurðsson, f. 2. september 1919, d. 19. janúar 2004. Einnig ólu þau Gissur upp Þrúði Pálsdóttur, f. 31. mars 1941, og Gunnrúnu Gunnarsdóttur, f. 23. mars 1957.

Sigga, eins og hún alltaf var kölluð, fór út til Noregs 16 ára gömul til frænku sinnar Maríu Schjöll og manns hennar Thorleif Schjöll, í Horten við Óslófjörð, lauk þar námi í verslunarskóla og vann þar síðan í banka. Hún bjó hjá Maríu og Thorleif þar til hún gifti sig.

Hinn 25. febrúar 1956 giftist Sigríður norskum manni, Sam Harry Muller verkfræðingi, f. 3. september 1930, og fluttu þau að því búnu til Baie Comeau í Quebec í Kanada þar sem Harry var búinn að fá vinnu í pappírsverksmiðju. Þar eignuðust þau þrjú börn, sem eru: 1) Sam Gunnar, f. 26. febrúar 1958, kvæntur Lyndu, f. 27. október 1946, þau eiga Tamiu og Clinton. Þau búa í Gravenhurst í Ontario. 2) Maria Cogswell, f. 11. júlí 1959, gift Michael Cogswell, f. 2. nóvember 1957, þau eiga Jennifer og Stephanie. Þau búa í St. Catharines í Ontario. 3) Norman, f. 2. júní 1962, hann á synina Nathan Samuel og John. Hann býr í Baie Comeu í Quebec.

Útför Sigríðar var gerð ytra.

Eins og fyrr var sagt fór elsku Sigga frá Íslandi aðeins 16 ára, en í hjarta hennar var Ísland henni alltaf mjög kært. Hún var sérstaklega frændrækin og hafði ótrúlega mikið samband við stórfjölskylduna, að ekki sé talað um okkur öll sem næst henni stóðum, með bréfum, kortum og símtölum. Einnig kom hún og fjölskyldan hennar oft til Íslands og þá var nú gaman og Sigga þurfti helst að heimsækja alla ættingjana, sem eru mjög margir.

Sigga og Harry bjuggu í Baie Comeau til ársins 1981 að þau fluttu sig sunnar til St. Catharines í Ontario, sem er rétt hjá hinum tilkomumiklu og fallegu Niagara fossum og vann Harry þar hjá sama pappírsfyrirtæki þar til að hann fór á eftirlaun.

Við áttum þess þrisvar kost að heimsækja þau og voru það yndislegir tímar, en í síðustu ferð okkar 1996 sáum við að Sigga okkar var veik, ekki bara af liðagigt og sykursýki sem höfðu hrjáð hana í mörg ár og sem hún lét aldrei aftra sér, því hún var með ólíkindum dugleg.

Síðustu ferð sína til Íslands komu þau svo sumarið 1997 og stuttu eftir heimkomuna var krabbameinsæxli greint og byrjaði þá fyrir alvöru hennar hetjulega barátta, alltaf bjartsýn og vongóð en fjórum sinnum tóku veikindin sig upp, áður en yfir lauk. Fyrir einstakan dugnað Harrys og fjölskyldu þeirra og góða heimahjúkrun gat Sigga að mestu verið heima sem var henni svo mikils virði og heima lauk lífi hennar að viðstaddri fjölskyldunni.

Við Sigga töluðum oft og lengi saman í síma og dáðumst við alltaf að því hvað hún hélt íslenskunni, þó að hún gæti aldrei talað hana í Kanada og söknum við þess mikið að símtölin þau verða ekki fleiri, en við Harry okkar góða vin og fjölskylduna höldum við ótrauð sambandi áfram.

Guð blessi minningu okkar elskulegu systur og mágkonu.

Hróðmar og Sigrún.

Mig langar að skrifa fáein orð um hana frænku mína Siggu, sem kvaddi heiminn þriðjudaginn 8. maí síðastliðinn, eftir langvarandi veikindi. Sigga var ákaflega traust og vönduð kona sem gaf mikið af sér til allra sem umgengust hana. Hún var mjög fjölskyldurækin og gerði sér far um að kynna sér hagi ættingja sinna og fylgjast með hvernig hverjum og einum gekk, jafnvel þótt hún byggi fjarri fólkinu sínu nánast alla sína ævi. Það er til marks um útgeislun Siggu að koma hennar til Íslands með Harry og börnunum 1967 er mér enn í fersku barnsminni. Seinna þegar ég var orðin 12 ára gamall gafst mér tækifæri til að búa hjá Harry og Siggu í eitt ár. Það var dásamlegur tími sem gaf mér mikið og var mér ómetanleg reynsla út í lífið. Við Sigga hittumst síðast sumarið 2005 þegar við hjónin ásamt börnum okkar og móður minni heimsóttum hana. Þessir dagar voru okkur öllum mikils virði og geymast vel innan um aðra fjársóði mnninganna. Nú er það okkar, sem eftir lifum, að skerpa tengslin við Harry, Gunnar, Maríu, Norman og börnin þeirra. Þannig getum við minnst Siggu og heiðrum minningu hennar best.

Að lokum langar mig að nota orð skáldsins Davíðs Stefánssonar þegar ég kveð ástkæra frænku:

Ég flyt þér móðir þakkir þúsundfaldar,

og þjóðin öll má heyra kvæðið mitt,

er Íslands mestu mæður verða taldar,

þá mun það hljóma fagurt nafnið þitt.

Blessuð sé öll þín barátta og vinna.

Blessað sé hús þitt, garður feðra minna,

sem geymir lengi gömul spor.

Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna, –

og bráðum kemur eilíft vor.

Með ást og virðingu

Karl Ísleifsson.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.