27. maí 2007 | Tónlist | 409 orð | 1 mynd

Klár í slaginn

Hin átján ára gamla söngkona Sigrún Vala Baldursdóttir hefur vakið mikla athygli að undanförnu fyrir lagið "Ekki gera neitt".

Á uppleið Sigrún Vala hefur hægt en bítandi verið að færa sig í sviðsljósið á tónlistarsviðinu.
Á uppleið Sigrún Vala hefur hægt en bítandi verið að færa sig í sviðsljósið á tónlistarsviðinu. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

LAGIÐ "Ekki gera neitt" hefur verið í mikilli spilun á Bylgjunni að undanförnu en söngkonan, Sigrún Vala, vakti fyrst athygli fyrir þremur árum síðan fyrir lagið "Því ástin" og var þá aðeins fimmtán ára gömul. Það lag, eins og þetta nýja, er eftir sænska popplagasmiði sem eins og alheimur veit eru með giska gott nef fyrir því hvað virkar og hvað ekki í þessum efnum. Stefnt er að útgáfu þriðju "smáskífunnar" í sumar og svo á breiðskífu í haust.

Sungið frá blautu barnsbeini

Sigrún Vala segir að faðir hennar hafi komið henni í samband við Grétar Örvarsson fyrir þremur árum síðan, en þá var hún nýbúin að sigra í söngkeppni. Lagið "Því ástin" var í kjölfarið tekið upp og birtist á plötunni Jólastjörnur. Fyrirtækið sænska sem Sigrún og hennar fólk skiptir við heitir Lionheart International Records og er staðsett í Stokkhólmi. Lögin voru send þaðan fullbúin til landsins en Grétar sá svo um lokafrágang, tók upp söng og slíkt en Regína Ósk sér um bakraddir í "Ekki gera neitt".

Sigrún segir að takmarkið hafi verið að reyna að fá eins mikla spilun og kostur væri, og þessi sænsku lög hafi reynst afskaplega vel. Fyrsta lagið fékk og mikla spilun og Sigrún því búin að búa ágætlega í haginn fyrir væntanlega breiðskífu.

"Við stefnum ótrauð á plötu í haust og ég býst við því að eitthvað af efninu verði eftir Svíana. En svo verður ábyggilega leitað til innlendra höfunda líka og ég sjálf er þá byrjuð að semja texta." Sigrún, sem er Selfyssingur, hefur verið syngjandi frá því að hún man eftir sér. Hún byrjaði í Kirkjukór 8 ára gömul og við tíu ára aldur var hún farin að æfa sviðsframkomu fyrir framan spegil með hljóðnema í hönd. Hún kom fram opinberlega í fyrsta skipti tólf ára gömul og hefur síðan þá troðið upp með Á móti Sól og Írafári m.a.. Hún sigraði svo í Söngkeppni Fjölbrautaskóla Suðurlands og tók því þátt í Söngkeppni Framhaldsskólanna sem fram fór í síðasta mánuði.

Aldrei neitt annað

Sigrún, sem vonast til að geta hafið söngnám í Tónlistarskóla FÍH næsta haust segir það rosalega gaman að vera fást við þessa hlið tónlistarinnar, þ.e. að gefa út lög og reyna að hasla sér völl í poppheimum.

"Ég ákvað fyrir margt, margt löngu að ég ætlaði að vinna við tónlist í framtíðinni," segir hún. "Það hefur aldrei neitt annað staðið til og ég er svona rétt að byrja þá vinnu."

www.sigrunvala.com

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.