27. maí 2007 | Daglegt líf | 573 orð | 2 myndir

El Salvador-Mexíkó-BNA

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir (steinunnolina@mbl.is, steinunnolina.blog.is)

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mamma! Þegar ég kem til þín þá verð ég Ameríkani! Þetta sagði Franklin litli Lopez við mömmu sína hana Blöncu þegar hún hringdi í hann um daginn. Blanca er búin að vera barnfóstra hjá mér eiginlega allar götur síðan ég fluttist hingað til Bandaríkjanna.
Mamma! Þegar ég kem til þín þá verð ég Ameríkani!

Þetta sagði Franklin litli Lopez við mömmu sína hana Blöncu þegar hún hringdi í hann um daginn.

Blanca er búin að vera barnfóstra hjá mér eiginlega allar götur síðan ég fluttist hingað til Bandaríkjanna.

Alveg einstök manneskja og frábær barnfóstra. Ég get talað af reynslu því dætur mínar hafa notið uppeldis hjá alveg hreint frábærum konum í gegnum tíðina.

Utan einni sem fékk kringlukast og gleymdi dóttur minni í barnageymslunni í samnefndu molli um árið.

Barnfóstran sú er nú látin blessunin og fær vonandi útrás fyrir kaupæði sitt á himnum.

Blanca kom ólöglega til Bandaríkjanna frá El Salvador aftan í bílskotti hjá einhverjum drullusokki og greiddi fyrir ósköpin andvirði flugmiða á fyrsta farrými. Hún var misnotuð og hálfsvelt á leiðinni en hún var sannfærð um að í Bandaríkjunum biði hennar betra líf.

Betra líf fyrir hana og einkasoninn Franklin sem var skilinn eftir hjá ömmu sinni og honum lofað að seinna myndu þau sameinast í fyrirheitna landinu.

Hann var þá þriggja ára gamall.

Blanca hefur reglulega fengið sendar myndir af drengnum og hefur þannig fylgst með uppvexti hans úr fjarska.

Ekki skil ég hvernig hún hefur þolað við. Að vera svona lengi í burtu frá barninu sínu. Stundum er hún ansi langt niðri og einu sinni brotnaði hún niður og sagði við mig: "Ólína, þú veist að ég elska börnin þín eins og þau væru mín eigin, en stundum finnst mér bara svo erfitt að hafa Franklin ekki hjá mér."

Núna tæpum þremur árum síðar er Franklin lagður upp í sömu ferð og móðir hans um árið. Hann er ekki einn á ferð, hann er með móðursystur sinni og einhverjum mexíkönskum gripaflutningastjóra sem hefur lífsviðurværi sitt af því koma fólki ólöglega yfir landamærin.

Núna hefur ferðalagið tekið tvær vikur og þar af vikubið við landamærin þar sem þau bíða færis að keyra yfir.

Blanca er að vonum dauðhrædd um drenginn og við fjölskyldan fylgjumst grannt með gangi mála. Þetta er langt ferðalag og aldrei að vita hvaða hættur geta leynst á leiðinni. Það er staðreynd að á degi hverjum deyja tvær manneskjur við landamæri Mexíkó á leiðinni til Bandaríkjanna. Blanca má hringja í bílstjórann annan hvern dag og til allrar hamingju er drengurinn vel haldinn og finnst bara gaman að ferðast. Hann er kátur og fullur eftirvæntingar að hitta mömmu sína. Það er stundum gott að vera lítill og átta sig ekki alveg á staðreyndum.

Í síðasta símtali sagðist hann ætla að koma til mömmu sinnar eftir "tres manos" eða þrjár hendur þ.e. fimmtán daga.

Vonandi verður biðin ekki svo löng.

Áður en Blanca kom hingað vann hún við saumaskap í El Salvador og saumaði fjöldaframleiddan tískufatnað fyrir Gap-fyrirtækið. Hún var með tæpa tvö hundruð dollara í mánaðarlaun. Tvö hundruð dollara í mánaðarlaun fyrir fulla vinnu!

Enda blöskraði henni verðlagið hjá Gap þegar hún kom hingað þótt þessar vörur þyki nú í ódýrari kantinum. "Fjörutíu dollarar fyrir einar buxur! Vikulaun!"

Það skyldi engan undra að fólk flykkist ólöglega inn til Bandaríkjanna. Allt er betra en þau laun sem bjóðast heima fyrir. Hér getur hún líka séð syni sínum fyrir betri menntun því þótt skólakerfið hér sé ekki fullkomið þá er það nú langtum betra en í El Salvador þar sem algengt er að börn gangi ekki í skóla nema til tólf ára aldurs.

Nú er bara að biðja allar góðar vættir að fylgja honum í fang mömmu sinnar.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir (steinunnolina@mbl.is, steinunnolina.blog.is)

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.