Sigursæll Bertie Ahern sló á létta strengi þegar hann mætti til viðtals í sjónvarpsstúdíó RTÉ seint í fyrrakvöld.
Sigursæll Bertie Ahern sló á létta strengi þegar hann mætti til viðtals í sjónvarpsstúdíó RTÉ seint í fyrrakvöld. — Reuters
Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is HANN er klárastur, undirförulastur og sá útsmognasti af þeim öllum," sagði Charlie heitinn Haughey, fyrrverandi forsætisráðherra Írlands, einhverju sinni um Bertie Ahern.
Eftir Davíð Loga Sigurðsson

david@mbl.is

HANN er klárastur, undirförulastur og sá útsmognasti af þeim öllum," sagði Charlie heitinn Haughey, fyrrverandi forsætisráðherra Írlands, einhverju sinni um Bertie Ahern.

Ummælin voru meint sem einstakt hrós um Ahern, sem var ráðherra í ríkisstjórn Haugheys, eftir að honum hafði tekist að bjarga samsteypustjórn Fianna Fáil og Framsækinna demókrata frá falli 1991 í viðræðum um framhald stjórnarsamstarfsins. En þau hafa verið rifjuð upp í seinni tíð vegna ásakana á hendur Ahern um spillingu – og hljóta að teljast þeim mun kaldhæðnislegri því að á daginn kom að Haughey, sem mælti þessi fleygu orð, hafði á löngum stjórnmálaferli ítrekað blekkt landsmenn og þegið ótrúlegar fjárupphæðir frá írskum auðmönnum.

Ahern neyddist sjálfur sl. haust til að viðurkenna að hann hefði á árunum 1993 og 1994, en þá var hann fjármálaráðherra, þegið til eigin nota "gjafir" upp á sem samsvarar fjórum milljónum íslenskra króna frá vinum og vandamönnum. Peningana sagðist Ahern hafa notað til að greiða kostnað sem féll til er hann skildi við konu sína, Miriam. Ýmislegt fleira kom upp úr dúrnum en Ahern stóð fastur á því að um persónulega vini hans hefði að ræða, ekki ókunnuga viðskiptamenn sem mögulega hefðu viljað njóta pólitískrar velvildar í kjölfarið. En hann greiddi aldrei skatt af þessum gjöfum, ekki fyrr en í fyrra þegar greiðslurnar komust í hámæli og Ahern í verulegan bobba.

Ætlar að hætta sextugur

En það er ekki að ástæðulausu sem Ahern hefur verið kallaður "teflon-maðurinn". Það virðist ekkert loða við hann. Kjósendur á Írlandi hafa nú kosið hann og flokk hans, Fianna Fáil, til stjórnarsetu til fimm ára í viðbót. Þrátt fyrir að Ahern hafi nú þegar gegnt embætti forsætisráðherra í tíu ár virðist ekkert lát á vinsældum hans. Fátt virðist í vegi fyrir því að hann þjóni í heil fjögur ár í viðbót, eða þangað til hann verður sextugur, en þá hyggst Ahern hætta afskiptum af írskum stjórnmálum.

Flokkur Aherns, Fianna Fáil, tryggði sér í þingkosningum á fimmtudag um það bil sama hlutfall atkvæða og fyrir fimm árum, í kosningunum 2002. Flokkurinn fékk rúmlega 41% atkvæða sem í gærmorgun virtist ætla að tryggja honum 78 fulltrúa á 166 manna þingi, eða um það bil sömu þingmannatölu og síðast. Þá vantar Fianna Fáil átta þingmenn til að hafa meirihluta. Sl. tíu ár hefur Fianna Fáil verið í samstarfi við Framsækna demókrata, frjálslyndan hægriflokk, en sá galt afhroð í kosningunum nú, hafði átta þingmenn en fær líklega aðeins tvo að þessu sinni. Því er ljóst að Ahern þarf að leita sér að nýjum samstarfsflokki.

Fyrirfram höfðu Verkamannaflokkurinn og Fine Gael, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, bundist fastheitum um það að fella ríkisstjórnina. Þó að það takmark hafi í sjálfu sér náðst, í ljósi þess að Framsæknir demókratar þurrkuðust nánast út, þýðir það ekki að þeir geti í staðinn myndað ríkisstjórn. Á írska þinginu verður að finna fimm óháða þingmenn, sem standa mun nær Fianna Fáil heldur en Fine Gael eða Verkamannaflokknum, og ýmsa minni flokka, s.s. Sinn Féin, sem forráðamenn Fine Gael hafa beinlínis útilokað samstarf við. Óhjákvæmilegt virðist því annað en að Ahern sitji áfram á stóli forsætisráðherra og voru uppi vangaveltur um það í gær að hann myndi leita eftir samstarfi við Verkamannaflokkinn, sem fékk líklega 20 menn kjörna, eða Græningja sem fengu sex.

Bertie Ahern er fæddur í Drumcondra í Dublin 12. september 1951. Hann hefur setið á þingi í þrjátíu ár og verið ráðherra í tuttugu, var fyrst atvinnumálaráðherra 1987-1991 og svo fjármálaráðherra 1991-1994. Fianna Fáil átti ekki aðild að ríkisstjórn næstu þrjú árin þar á eftir en í kosningunum 1997, þeim fyrstu sem Ahern háði sem leiðtogi flokksins, bar hann sigur úr býtum og Ahern tók við sem forsætisráðherra 26. júní 1997.

Eitt af einkennismerkjum Aherns er harður Dyflinnarhreimur hans. Hann þykir hafa umtalsverða persónutöfra, en þeir felast einkum í vinalegri framkomu hans og eðlislægri tilhneigingu hans til að tala almúgamál. Ahern kann best við sig meðal "venjulegs" fólks, hann fær sér Guinness eins og góðum Íra sæmir og í stað þess að dýrka hámenningu er hann staðfastur íþróttaáhugamaður, sækir reglulega leiki í gelískum fótbolta og rugby á Croke Park og Lansdowne Road í Dublin og styður Manchester United í enska boltanum, eins og svo margir landa hans.

Ahern kvæntist Miriam Kelly árið 1975. Þau eignuðust tvær dætur, Georginu og Ceciliu, en sú fyrrnefnda er gift liðsmanni "drengjabandsins" Westlife á meðan Cecilia er metsöluhöfundur, bækur hennar hafa m.a. verið þýddar á íslensku.

"Berta-faktorinn"

Miklar þjóðfélagsbreytingar hafa átt sér stað á Írlandi undanfarin ár en kaþólska kirkjan er þar engu að síður enn öflug og íhaldssemin allsráðandi. Það var Ahern því ekki beinlínis til framdráttar að hann og Miriam skyldu skilja að borði og sæng 1992 og síðar að lögum, um leið og það var hægt. Því síður litu kirkjunnar menn það jákvæðum augum þegar Ahern gerði opinbert samband sitt við Ceciliu Larkin. Upp úr því sambandi slitnaði raunar fyrir nokkrum árum og Ahern hefur ekki staðið í frekara tilhugalífi á opinberum vettvangi.

Með þjóðfélagsbreytingum liðinna ára hefur það hins vegar gerst, að fólk hefur mun meiri skilning og umburðarlyndi gagnvart slíku.

Þó að "Berta-faktornum" sé að hluta til þakkaður góður árangur Fianna Fáil í þrennum síðustu þingkosningum kemur ýmislegt fleira til. Ótrúlegur uppgangur hefur átt sér stað á Írlandi á síðustu fimmtán árum eða svo og ríkisstjórn Aherns hefur að miklu leyti getað þakkað sér árangurinn, þó að írska efnahagsundrið, eða "keltneski tígurinn" sem svo hefur verið nefndur, hafi raunar verið kominn til sögunnar nokkru áður en Ahern komst til valda. Ríkisstjórn hans hefur lækkað skatta á fyrirtæki sem aftur hefur haft í för með sér aukin umsvif alþjóðlegra stórfyrirtækja, m.a. í tölvugeiranum, og í kjölfarið fjölgun vel launaðra starfa. Umbylting hefur orðið á Írlandi á undanförnum tveimur áratugum; allt fram á síðasta áratug síðustu aldar var fólksfækkun raunin á Írlandi, enda flýðu margir land um leið og þeir gátu, flúðu fátæktina og afturhaldið, fluttu vestur til Bandaríkjanna, til Bretlands eða til Nýja-Sjálands og Ástralíu. Í seinni tíð hefur gríðarleg fólksfjölgun hins vegar átt sér stað, fólk hefur flutt aftur heim og jafnframt hafa innflytjendur – frá Póllandi og Spáni og víðar – streymt til landsins.

Annað sem Ahern getur hrósað sér af er framlag hans til þróunarinnar á N-Írlandi, þar sem varanlegur friður er nú kominn á eftir áratuga átök.

Síðastliðið haust virtist þó sem staða hans væri farin að verða tæp. Spillingarumræðan var þá farin að tengjast honum persónulega, þannig að óþægilegt mátti teljast, en þess verður að geta í því sambandi að eftir að upp komst um ótrúleg umsvif læriföður Aherns, Charlies Haughey, í þeim efnum fyrir um tíu árum síðan var farið í það að rannsaka skipulega ósæmileg samskipti stjórnmálamanna og auðjöfra.

Ýmislegt ónotalegt kom þar í ljós um fjölmarga framámenn í Fianna Fáil í gegnum tíðina – en flokkinn má með réttu nefna Stjórnarflokkinn á Írlandi með stóru essi – en það var ekki fyrr en í fyrrahaust sem sú umræða tengdist Ahern sjálfum þannig að hætta var á að hann byði skaða af.

Ahern bað þjóð sína hins vegar náðarsamlegast afsökunar og hefur staðið af sér þennan storm. Það blés að vísu ekki byrlega í upphafi kosningabaráttunnar nú, því að svo virtist sem hans persónulegu fjármál myndu vera í brennidepli fram að kosningum. Jafnvel samstarfsfólk hans í ríkisstjórn, Framsæknir demókratar, hafði reynst tregt til að gefa honum syndaaflausn.

Eftir sjónvarpseinvígi Aherns og Enda Kenny, leiðtoga Fine Gael og stjórnarandstöðunnar, fyrir rúmri viku var hins vegar sem írsku þjóðinni yrði ljóst – enn einu sinni – að henni líkaði undurvel við forsætisráðherrann sinn og að ekki væri ástæða til að kasta honum á dyr alveg strax. Að minnsta sýndu skoðanakannanir umtalsverða fylgisaukningu hjá Fianna Fáil í kjölfarið, flokkurinn fór úr 36% í þau 41% sem hann síðan fékk á kjördag. Því er það svo að Bertie Ahern stendur með pálmann í höndunum, enn einu sinni. Það loðir ekkert slæmt við hann og allir andstæðingar verða frá að hverfa. Hann er sannarlega "klárastur af þeim öllum".

Í hnotskurn
» Flokkakerfið á Írlandi líkist engu öðru í Vestur-Evrópu og erfitt er að skilgreina það á vinstri-hægri kvarða.
» Fianna Fáil og Fine Gael, tveir stærstu flokkarnir á Írlandi, urðu til á þriðja áratug síðustu aldar í borgarastríðinu 1922-1923, en þar var tekist á um afstöðu til friðarsamninga við Breta. Cumann na nGaedheal, forveri Fine Gael, studdi samninginn sem tryggði fullveldi en ekki lýðveldi, Fianna Fáil-liðar höfnuðu honum.
» Bæði Fianna Fáil og Fine Gael teljast mið-hægriflokkar. Í kosningunum sl. fimmtudag fengu flokkarnir samanlagt tæplega 70% atkvæða. Hefðbundin vinstrihreyfing hefur verið veik, en auk Verkamannaflokksins bjóða græningjar fram og svo Sinn Féin, stjórnmálaarmur IRA.
» Fianna Fáil hefur meira og minna verið við völd á Írlandi frá árinu 1932, ef undan eru skilin stutt tímabil, síðast 1994-1997 en þá stýrðu Fine Gael og Verkamannaflokkurinn landinu.