27. maí 2007 | Bréf til blaðsins | 409 orð

Nútíma vistarbönd

Frá Heimi L. Fjeldsted

Frá Heimi L. Fjeldsted: ""VERKALÝÐSFÉLÖGIN eru alþjóðleg og þá skiptir auðvitað höfuðmáli að innflytjendur búi við sömu kjör og aðrir landsmenn..." Vitnað er hér til orða Katrínar Jakobsdóttur í Morgunblaðinu nýverið."
"VERKALÝÐSFÉLÖGIN eru alþjóðleg og þá skiptir auðvitað höfuðmáli að innflytjendur búi við sömu kjör og aðrir landsmenn..."

Vitnað er hér til orða Katrínar Jakobsdóttur í Morgunblaðinu nýverið. Þetta þykir okkur sjálfsagt og Katrín Jakobsdóttir hefur undirstrikað með orðum sínum það sem svo margir hafa haldið fram áður í ræðu og riti. Vonandi hefur þetta gengið eftir og innflytjendur sitji við sama borð og við hin.

En sitjum við öll við sama borð? Því miður er ekki svo. Hjá byggðasamlagi um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru fjögur fyrirtæki sem annast þjónustuna og tel ég þau upp eftir hlutfallslegri stærð hvað varðar fjölda vagnstjóra:

Strætó bs., Hagvagnar, Allrahanda og Teitur Jónasson.

Strætó bs. semur við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um kaup og kjör sinna vagnstjóra, Hagvagnar semja við Hlíf í Hafnarfirði og Allrahanda og Teitur Jónasson semja við Eflingu.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hjá Eflingu og Hlíf eru vagnstjórar sem þau semja fyrir með 14% lægri laun en vagnstjórar sem Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar semur fyrir.

Vagnstjórar hjá Allrahanda, Hagvögnum og Teiti Jónassyni vinna nákvæmlega sömu störf og við hjá Strætó bs. en bera 172.000 krónur úr býtum þegar við fáum 200.000 krónur.

Við hittumst í hléum á milli ferða og höfum þetta í flimtingum, en vagnstjórar einkafyrirtækjanna eru tregir til að veita okkur upplýsingar um launakjör sín, en segja þau bara lakari. Því fór ég þá leið að fá upplýsingar hjá viðkomandi verkalýðsfélögum. Ég hef líka spurst fyrir hjá yfirstjórn Strætós bs. og fengið þær upplýsingar að kostnaður fyrirtækisins er nákvæmlega sá sami á ekinn km, hvort heldur það er hjá akstursdeild Strætós eða einkafyrirtækjunum.

Nú langar mig að spyrja hvort ekki sé tímabært að íslenskir vagnstjórar geti kinnroðalaust sest við sama borð og borið höfuðið hátt þegar talið berst að kaupi og kjörum, þess fullvissir að unnið sé fyrir þá ekki síður en innflytjendur.

Það sem er verst í þessu máli er að fyrirtækin hafa gert með sér samkomulag um að þeir sem vinna hjá einkafyrirtækjunum geta ekki fengið vinnu hjá Strætó bs. nema eftir svo og svo langan tíma frá því að þeir unnu fyrir einkafyrirtækin.

Þessi launamunur gerir einkafyrirtækjum kleift að bjóða lægra verð, allavega um stundarsakir, í fólksflutningana með þeim afleiðingum að Strætó bs. gæti boðið allt út og við sem hærri launin höfum myndum að sjálfsögðu lækka í launum.

Vonandi fer ekki svo illa.

Vill einhver svara eða taka mál starfssystkina okkar upp?

HEIMIR L. FJELDSTED,

vagnstjóri og trúnaðarmaður

hjá Strætó bs .

Frá Heimi L. Fjeldsted

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.