Björk Þorleifsdóttir fæddist í Reykjavík 1974. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1994, B.A. gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2003 og er að ljúka meistaranámi í umhverfissagnfræði frá University of St. Andrews í Skotlandi.

Björk Þorleifsdóttir fæddist í Reykjavík 1974. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1994, B.A. gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2003 og er að ljúka meistaranámi í umhverfissagnfræði frá University of St. Andrews í Skotlandi. Björk er sjálfstætt starfandi fræðimaður í Reykjavíkur-Akademíunni á sérsviði umhverfissagnfræði með áherslu á áhrif náttúruhamfara á samfélög.

Níunda landsbyggðarráðstefna Félags þjóðfræðinga á Íslandi og Sagnfræðingafélags Íslands verður haldin dagana 1. til 3. júní á Leirubakka í Landsveit. Yfirskrift ráðstefnunnar er Hálendi hugans og er Björk Þorleifsdóttir sagnfræðingur einn af skipuleggjendum dagskrárinnar:

"Á ráðstefnunni koma saman fræðimenn úr mörgum áttum, s.s. þjóðfræðingar, íslenskufræðingar, miðaldafræðingar og sagnfræðingar," segir Björk. "Kafað verður ofan í sögu og þjóðfræði hálendisins á þessari ráðstefnu. Áður hafa Félag þjóðfræðinga og Sagnfræðingafélagið haldið ráðstefnur í öllum landshlutum og fjallað um hvern stað fyrir sig, og er hringnum nú lokað á miðju landsins, hálendinu."

Flutt verða 18 erindi og ræður á meðan á ráðstefnunni stendur: "Haldnar eru málstofur yfir daginn en kvöldin eru helguð erindum á léttari nótum. Þar mun Bjarni Harðarson nýkjörinn þingmaður verða með lauflétta hátíðarræðu, og ég sjálf mun fjalla um skemmtanalíf á hálendinu á laugardagskvöld," segir Björk. Auk þess verður afhjúpaður minnisvarði um Guðna Jónsson prófessor sem tengdist Leirubakka sterkum böndum í æsku."Landsbyggðarráðstefnurnar hafa verið vel sóttar af fræðimönnum, en við viljum ekki síður höfða til heimamanna og áhugamanna og ættu öll erindin að vera aðgengileg og auðskiljanleg þó vitaskuld séu gerðar ríkar fræðilegar kröfur til fyrirlesara.

Á ráðstefnunni verður umfjöllunarefnið allt frá furðusögum um tröll, drauga og útilegumenn til þjóðlendumála og nýtingar hálendisins í fortíð og nútíð, hvort heldur er ferðamennska, virkjun fallvatna eða æfingar geimfara. Það er því ljóst að það hafa ekki bara verið útilegumenn á sveimi á hálendi Íslands í gegnum tíðina."

Þökk sé rausnarlegum styrktaraðilum er aðgangur að ráðstefnunni ókeypis en kaupa má gistingu á staðnum. Skráning á ráðstefnuna er á slóðinni www.sagnfraedingafelag.net og má þar einnig finna nánari upplýsingar um dagskrána. "Ráðstefnan er haldin í nýopnuðu Heklusetri og er um að ræða stórkostlegan stað og fallegt umhverfi sem gaman er að heimsækja. Gefst ráðstefnugestum tækifæri á að upplifa allt þetta, hlýða á fræðandi og skemmtilega fyrirlestra og gera sér glaðan dag."