Björgólfur Thor Björgólfsson Segir Actavis hafa gefið tóninn í útrás Íslendinga með kaupum á erlendu fyrirtæki sem var stærra en hið íslenska.
Björgólfur Thor Björgólfsson Segir Actavis hafa gefið tóninn í útrás Íslendinga með kaupum á erlendu fyrirtæki sem var stærra en hið íslenska. — Morgunblaðið/Ásdís
NOVATOR, eignarhaldsfélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur nú tryggt sér vilyrði fyrir rúmum 90% hlutafjár í Actavis.

NOVATOR, eignarhaldsfélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur nú tryggt sér vilyrði fyrir rúmum 90% hlutafjár í Actavis. Frestur hluthafa sem ekki hafa samþykkt yfirtökutilboðið rennur út á morgun, að öðrum kosti öðlast þeir ekki rétt til viðbótargreiðslu selji Novator hlut sinn innan árs.

"Við erum komin yfir þröskuldinn," sagði Björgólfur Thor í samtali við Morgunblaðið í gær. "Tilboðið hefur náð fram að ganga, málið er svo að segja í höfn."

Að sögn Björgólfs Thors er nú fyrst á dagskrá að komast í sumarfrí, en með lækkandi sól verði farið að bretta upp ermarnar.

"Við stefnum að því að Actavis haldi áfram að vaxa og dafna með því að keyra áfram framtíðarplön fyrirtækisins," sagði Björgólfur Thor.

Þrátt fyrir fyrirliggjandi skráningu af hlutabréfamarkaði er því engin lognmolla í vændum, enda munu lánardrottnar enn fylgjast með starfseminni.

Eftir nokkra daga verður haldinn stjórnarfundur þar sem afskráningar verður óskað, sem mun væntanlega taka nokkrar vikur. Þá mun taka við ný og fámennari stjórn heldur en nú situr.

"Eftir viku munu tæplega fjögur þúsund manns fá sendan tékka, 190 milljarðar króna koma inn í hagkerfið sem er ákaflega gaman. Þetta hefur verið mjög vænleg fjárfesting," sagði Björgólfur Thor sáttur.