Fjarvinnsla Elín R. Líndal og Karl Sigurgeirsson hjá Forsvari á Hvammstanga.
Fjarvinnsla Elín R. Líndal og Karl Sigurgeirsson hjá Forsvari á Hvammstanga. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is FJARVINNSLA hefur skapað mörg störf á landsbyggðinni undanfarin misseri og virðist víða ganga vel, en ekki er langt síðan áform Íslenskrar miðlunar um stórfellda fjarvinnslu rann út í sandinn.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

FJARVINNSLA hefur skapað mörg störf á landsbyggðinni undanfarin misseri og virðist víða ganga vel, en ekki er langt síðan áform Íslenskrar miðlunar um stórfellda fjarvinnslu rann út í sandinn. Hún hófst 1999 en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 2001. Kröfur í þrotabúið námu 420 milljónum króna og fengust greiddar um 7,5 milljónir, en skiptum á búinu lauk 2004.

Í fjarvinnslu hjá Fæðingarorlofssjóði á Hvammstanga starfa 11 manns, jafnmargir hjá innheimtustöð sekta og sakarkostnaðar hjá sýslumannsembættinu á Blönduósi og sex hjá greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd.

Sparisjóður Siglufjarðar sinnir bakvinnslu allra lífeyrissjóða, sem eru í vörslu Kaupþings og lífeyrissjóða Sparisjóðanna. Þessi þjónusta hófst með þremur starfsmönnum árið 2000 og nú starfa við hana 30 manns.

Landvist ehf. á Húsavík hefur séð um skráningu upplýsinga fyrir Þjóðminjasafnið frá árinu 2000 og við hana eru rúmlega tvö stöðugildi.

Síðan 2000 hefur Forsvar ehf. á Hvammstanga skráð efni fyrir Þjóðminjasafnið og Alþingi á tölvutækt form. Þar má nefna myndaskrár, kirkjusögur og fleira fyrir Þjóðminjasafnið og Alþingistíðindi fyrir Alþingi, en skráning fyrir Alþingi hófst á Hvammstanga 1993. Forsvar hefur einnig unnið að smíði gagnagrunns sem heldur utan um félagsþjónustu í kringum málefni fatlaðra um allt land. Um þrjú stöðugildi eru vegna fjarvinnslunnar.

Símsvörun á landsbyggðinni

Símsvörun Seðlabanka Íslands hefur verið á Raufarhöfn síðan 2001 og skapað þar tvö störf. Fimm manns á Ísafirði og einn í Reykjavík sjá um skiptiborð Vegagerðarinnar og upplýsingar um færð og ástand vega, en þessi þjónusta hefur verið á Ísafirði síðan 2001.

Símaverið ehf. var stofnað á Ísafirði fyrir rúmu ári þar starfa 10 manns við símsvörun fyrir 25 til 30 fyrirtæki. Þeirra á meðal eru Lýsing, Bræðurnir Ormsson, Kvik, Parket og gólf og Varnir ehf. á Akureyri.

Þjónustuver Verzlunarmannafélags Reykjavíkur er á Akranesi og að hluta til í Vestmanneyjum með samtals sjö starfsmönnum.