Hala-leikhópurinn Frumsýnir Rómeó og Ingibjörgu HALA-leikhópurinn, sem stofnaður var fyrir rúmu ári, er nú að hefja sitt annað starfsár. Á síðasta leikári setti hópurinn upp leikritið "Aurasálina" eftir Moliere og var það frumraun hópsins.

Hala-leikhópurinn Frumsýnir Rómeó og Ingibjörgu

HALA-leikhópurinn, sem stofnaður var fyrir rúmu ári, er nú að hefja sitt annað starfsár. Á síðasta leikári setti hópurinn upp leikritið "Aurasálina" eftir Moliere og var það frumraun hópsins. Á morgun, föstudaginn 19. nóvember, mun hópurinn frumsýna nýtt leikrit "Rómeó og Ingibjörgu" eftir Þorstein Guðmundsson.

Leikritið var samið nú í sumar, sérstaklega fyrir Hala-leikhópinn, en inn í þaðð fléttast nokkur atriði úr "Rómeó og Júlíu" eftir Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdánarsonar. Leikritið fjallar um leikhóp sem er að setja upp sýningu og segir frá samskiptum og uppákomum innan hópsins í tengslum við verkefnið. Leikstjóri þessarar sýningar Hala-leikhópsins er Edda V. Guðmundsdóttir og leikendur eru tólf. Tónlist er eftir Stefán Stephensen.

Sýningar verða í húsnæði sem Hala-leikhópurinn hefur fengið til afnota í kjallara Sjálfsbjargarhússins, Hátúni 12. Þar hefur hópurinn verið að innrétta lítið leikhús. Húsnæðið verður vígt með frumsýningunni þann 19. nóvember kl. 20.30. Önnur sýning verður sunnudaginn 21. nóvember og þriðja sýning miðvikudaginn 24. nóvember.

Höfundur leikritsins, Þorsteinn Guðmundsson, lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1991 og hefur síðan unnið að ýmsum verkefnum. Hann hefur m.a. leikið í "Emil í Kattholti" og um þessar mundir leikur hann í uppfærslu Borgarleikhússins á "Spanskflugunni".