— Útlitsmynd/Guðmundur Jónsson arkitektastofa
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Reykjanesbær | Aðstaða Tónlistarskóla Reykjanesbæjar gjörbreytist með tilkomu Hljómahallarinnar við félagsheimilið Stapa sem áætlað er að komist í gagnið eftir tvö ár.
Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Reykjanesbær | Aðstaða Tónlistarskóla Reykjanesbæjar gjörbreytist með tilkomu Hljómahallarinnar við félagsheimilið Stapa sem áætlað er að komist í gagnið eftir tvö ár. Aðsókn hefur aukist mjög í tónlistarnám og ekki verið hægt að anna eftirspurninni. Þá mun hljómleikasalur í Stapanum efla menningarlíf á Suðurnesjum almennt, að mati skólastjóra Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

"Ef vel tekst til við framkvæmdina verður þetta eitt glæsilegasta tónlistarskólahús landsins. Það verður líka notadrjúgt og gott fyrir nemendur og kennara," segir Haraldur Á. Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Bæjaryfirvöld hafa ákveðið að byggja höfuðstöðvar og kennsluaðstöðu fyrir skólann í viðbyggingu við félagsheimilið Stapa og endurbæta um leið húsnæði Stapans til að það geti nýst sem stór hljómleikasalur fyrir skólann, stóra tónleika og til ráðstefnuhalds.

200 á biðlista

Liðlega 700 nemendur eru við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, þar af 340 nemendur fyrsta og annars bekkjar grunnskólanna í forskóla og 365 í hefðbundnu hljóðfæra- og söngnámi. Skólinn hefur fengið til afnota ágæta aðstöðu í öllum grunnskólunum fimm í sveitarfélaginu. Þar stunda nemendur hljóðfæranám upp í sjöunda bekk sem hluta af samfelldum skóladegi. Elstu nemendur grunnskólans og fullorðnir nemendur tónlistarskólans, alls um 200 manns, fá alla sína kennslu í óhentugu húsnæði sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar erfði frá forverum sínum, tónlistarskólunum í Keflavík og Njarðvík. Þangað sækja líka hljóðfæranemendur úr grunnskólunum hljómsveitastarf og tónfræðagreinar þannig að 365 nemendur Tónlistarskólans sækja þangað nám að öllu leyti eða að hluta. Starfið hefur fyrir löngu sprengt húsnæðið utan af sér.

Ásókn í tónlistarnám hefur aukist, meðal annars vegna fjölgunar íbúa. Nú eru um 200 manns á biðlista eftir að komast í nám, að sögn Haraldar. Hann segir að með nýju húsnæði verði hægt að taka við liðlega 600 nemendum í hefðbundið hljóðfæra- og söngnám en tekur fram að það sé ekki eingöngu húsnæðisskortur sem hafi skapað biðlistana. Vantað hafi heimildir til að ráða fleiri kennara auk þess sem sífellt sé erfiðara að fá tónlistarkennara til starfa.

Umræða um byggingu nýrra höfuðstöðva tónlistarskólans hefur staðið lengi, að sögn Haraldar, og hann er ánægður með að nú skuli vera komið að framkvæmdum. Guðmundur Jónsson arkitekt í Ósló var fenginn til að hanna húsið en hann hefur mikla reynslu af hönnun menningarhúsa, ekki síst á Norðurlöndunum. Sjálfur hefur Haraldur unnið að undirbúningnum sem verkefnisstjóri af hálfu Reykjanesbæjar og segir hann að það hafi verið skemmtilegt verkefni að takast á við.

Hljómahöllin verður á tveimur hæðum. Hljómleikasalur sem tekur um 120 til 130 manns í sæti verður í miðju hússins og í honum verður góður flygill. Við hlið hans verður rúmgóður æfingasalur fyrir hljómsveitaæfingar. Þessir salir mynda saman skemmtilegan kjarna í húsinu. Á neðri hæðinni verða sérstakar samspilsstofur og stórar stofur fyrir hópkennslu. Einkakennslan fer meira fram á efri hæðinni þar sem verða margar og rúmgóðar kennslustofur. Þar verður nettengt hljóðsafn og fullkomið hljóðupptöku- og kennsluver sem tengt verður við salina og nokkrar kennslustofur.

Hljómleikasalur í Stapa

Poppminjasafn Íslands fær aðstöðu í Hljómahöllinni. Sýningaraðstaða verður á torgi í miðju hússins og í sérstökum sal auk þess sem hægt verður að sýna muni þess víðar um húsið. Jónatan Garðarsson hefur verið ráðinn til að vinna að undirbúningi fyrstu sýningar safnsins í nýju húsnæði. Í Hljómahöllinni verður kaffihús og veitingastaður.

Lagfæringar á Stapasalnum miða að því að gera hljómburð sem bestan, auk þess sem sviðið verður stækkað. Salurinn mun eftir breytingar taka um það bil 400 gesti í sæti á gólfi og svölum. Haraldur segir að þar verði hægt að halda sinfóníutónleika, stórir kórar geti haldið þar tónleika og hægt verði að setja upp söngleiki, auk annarra stórra tónlistarviðburða. "Með nýjum menningarsölum í Duus-húsum og góðum flyglum þar hefur aukist mjög að tónlistarfólk hafi viljað koma hingað til að halda tónleika. Þegar Hljómahöllin kemst í gagnið munum við geta boðið upp á enn meiri og fjölbreyttari aðstöðu til tónleikahalds," segir Haraldur. "Við trúum því að þetta muni hafa góð áhrif á menningarlíf í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum öllum," bætir hann við.