[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinn 16. nóvember minnumst við þess, að tvær aldir eru liðnar frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Réttar væri raunar að segja, að við hefðum minnst þess allt þetta ár. Náttúrufræðingar hafa skýrt, hvað eftir Jónas liggur á þeirra fræðasviði.

Hinn 16. nóvember minnumst við þess, að tvær aldir eru liðnar frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Réttar væri raunar að segja, að við hefðum minnst þess allt þetta ár. Náttúrufræðingar hafa skýrt, hvað eftir Jónas liggur á þeirra fræðasviði. Bókmenntafræðingar hafa spreytt sig á að varpa nýju ljósi á skáldskap hans. Tónskáld hafa samið lög við kvæði hans, sem okkar fremstu hljómlistarmenn hafa flutt. Og myndlistarmenn hafa túlkað Jónas eins og hann horfir við þeim. Svo sterk viðbrögð eru lýsandi fyrir, hversu vænt okkur Íslendingum þykir um manninn og verk hans. "Það er eitthvað hlýlegt og tilgerðarlaust við persónu hans, sagði góður vinur við mig. – " Hann var magískur töframaður og það er eins og allt, sem hann snerti, verði lifandi og aðlaðandi á einhvern hátt. Hann er inni í okkur öllum, sagði annar.

Í minningarorðum Konráðs Gíslasonar í Fjölni segir svo um Jónas: "Það sem eftir hann liggur mun lengi halda uppi nafni hans á Íslandi og bera honum vitni, betur en vér erum færir um; en svo ágætt sem margt af því er má þó fullyrða að flest af því komist í engan samjöfnuð við það sem í honum bjó og að það geti ekki sýnt til hlítar hvílíkur hann var sjálfur í raun og veru. Það sannaðist á honum eins og mörgum öðrum Íslendingi að annað er gæfa en annað gjörvugleiki. Samt ber þess hins vegar að geta að slíkir menn lifa margar sælustundir sem mikill þorri manna þekkir ekki og getur ekki heldur þekkt, sökum eðlis eða uppeldis eða hvors tveggja.

Jónas er alltaf með okkur, hér á landi sem erlendis. Við hittum hann í Öxnadal og við hittum hann við hvert fótmál í Kaupmannahöfn. Ameríkufararnir tóku hann með sér vestur um haf. Í þrengingum þeirra varðaði hann veginn á rómantískan hátt með því að minna á glæsilega arfleifð fornaldar, því að goðsögnin er að síðustu hjálp mannsins til að lifa af. Alltaf var mikið til hans vitnað vestra. Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður þýddi Jónas upp úr 1900 og Haraldur Bessason hefur sagt frá því, að hann hafi heyrt 109 ára gamla konu á Betel í Gimli syngja Hvað er svo glatt til að fagna góðum gesti. Og nýverið þýddi Davíð Gíslason bóndi í Nýja Íslandi Ferðalok á ensku.

Ég hef skemmt mér við það síðustu daga að lesa ritgerðir og þankabrot frá mismunandi tímum um Jónas og verk hans. Kynslóðabil er á milli yngstu og elstu höfunda í umfjöllun þeirra um einstök ljóð. Ég nefni sérstaklega til sögunnar Alsnjóa og Ferðalok. En sjálfsagt sýna þessi skrif, hversu margræður Jónas er og hversu misjafnlega mönnum gengur að ráða í það sem þeim er ofvaxið.

Fyrir réttri öld minntist Guðmundur á Sandi þess í snjallri grein í Eimreiðinni að öld væri liðin frá fæðingu Jónasar og sagði: "Jónas er æskumaður og æskuskáld. Hann var á undan tíma sínum, og enn þá stendur samtíð vor á herðum hans. Hann eldist ekki né fyrnist og er 100 ára ungur nú. Mál hans er með nýjabrumi enn þá, hreint eins og lindarvatn, ungt eins og lindarvatn, ungt eins og döggin á grasinu.

Hann er konungur í Hulduríki."

Hljóðvarp mbl.is
Hljóðpistlar Morgunblaðsins
Halldór Blöndal les pistilinn