Allt frá því að Jónas Hallgrímsson hreif landa sína fyrst með skáldskap sínum hafa tengsl margra kynslóða Íslendinga við land sitt verið mótuð af þeirri sýn sem ljóð hans lýsa.

Allt frá því að Jónas Hallgrímsson hreif landa sína fyrst með skáldskap sínum hafa tengsl margra kynslóða Íslendinga við land sitt verið mótuð af þeirri sýn sem ljóð hans lýsa. Sú náttúra sem hann fann farveg í orðum eignaðist svo sérstakan sess í hugum fólks að hans sýn varð sýn flestra. Með skáldskap skerpti Jónas skilning manna á fósturjörðinni – hann breytti viðhorfum þjóðarinnar til landsins sem hún ól aldur sinn á, nytjaði og naut.

Jónasi tókst öðrum betur að sýna löndum sínum hvernig:

Tign býr á tindum,

en traust í björgum,

fegurð í fjalldölum,

en í fossum afl.

Því er þó ekki að leyna að ofangreind orð Jónasar hafa með tíð og tíma öðlast nýja merkingu. Í þessum ljóðlínum sem ortar eru árið 1837 vísar hann til víðernanna, tærleika þeirra, krafts og afls. Hann beinir sjónum að þeirri ímynd sem hið ósnortna og hreina hafði á tíma iðnvæðingar er þá þegar var farin að umbylta vestrænum samfélögum. Jónas afhjúpar þau verðmæti sem Ísland bjó yfir með sinni óbeisluðu náttúru og setur hana fram eins og háleitt og nánast bjargfast náttúrulögmál. Hann dregur upp mynd af því sem ekki varð í askana látið – í það minnsta ekki í hans tíð – og skapar svigrúm fyrir viðhorf til náttúrunnar sem ekki byggðist fyrst og fremst á nytjahyggju heldur á tengslum við hið upphafna – tengslum við óræðan streng þjóðerniskenndar, stolts og hugljómunar.

Það sem samtíminn hefur þó í auknum mæli gert fólki ljóst er að náttúrusýn Jónasar var þegar fram liðu stundir ekki byggð á jafn bjargföstum veruleika og Íslendingar bjuggu við á nítjándu öld og jafnvel langt fram eftir þeirri tuttugustu. Fossanna afl hefur í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar til að mynda verið virkjað að þolmörkum sívaxandi hluta þjóðarinnar. Björgin eru engin fyrirstaða lengur og fáum leynist að vegið er að öræfunum með framkvæmdum og mannvirkjum er spilla tign þeirra og fegurð.

Í ljóðinu „Ísland“ sem ort er um tilurð samfélags og þjóðar og hefst á þeim fleygu orðum „Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!“ spyr Jónas hreint út hvort við höfum „gengið til góðs götuna fram eftir veg?“ Þeirri spurningu er vitaskuld jafnauðvelt að svara nú og þegar hann var uppi, því í deiglu hvers tíma skírast þau málefni sem brenna hvað brýnast á samfélaginu. Í því ljósi má með auðveldum hætti heimfæra þá vísun í glatað sjálfstæði sem Jónas kallaði fram með spurningunni á sínum tíma, yfir á annarskonar ógn er nú steðjar að Íslandi; missi þeirrar auðlegðar sem felst í ósnortnum öræfunum.

Í náttúruljóði núlifandi þjóðskálds, Matthíasar Johannessen, brýst þessi samtímaógn fram er hann, líkt og Jónas, yrkir um tign þá er býr í tindum. Hann er að vísu ekki að yrkja um „Fjallið Skjaldbreiður“ eins og Jónas gerði, heldur nemur staðar „Við Snæfell“:

Gnæfir

bergnuminn

við auðn og lágan

gróður

risinn

hvítur fyrir hærum

og horfir

yfir gæsabyggðina

óttast ekkert

allra sízt

fuglahræður.

Náttúrusýn Jónasar er ekki einungis til marks um landslag tiltekins tíma, heldur landslag sameiginlegs minnis þjóðar fram á okkar daga. Landslags sem bandaríski heimspekingurinn Rebecca Solnit segir sett saman úr „minningum og löngunum, frekar en steinum og jarðvegi“. Sá fjársjóður er Jónas bar kennsl á hefur með öðrum orðum verið mjög mótandi afl í þjóðarvitundinni og er um leið órjúfanlegur þáttur í sjálfsímynd Íslendinga.

Þótt náttúrusýn Jónasar Hallgrímssonar hafi auðgað íslenska menningu hugsa þó líklega flestir til tungunnar þegar hann ber á góma – enda skáldið auðvitað orðsins maður. Hugur þjóðarinnar til Jónasar og um leið íslenskrar tungu er sýndur í verki á afmælisdegi hans ár hvert, en í ár eru hátíðarhöld með allra veglegasta móti enda 200 ár liðin frá fæðingu skáldsins.

Jónas var orðsnillingur og án efa með bestu orðasmiðum sem þjóðin hefur átt. Það var þó ekki einungis skáldskapargáfan er skerpti tungutak hans – hugsjónir hans gerðu það ekki síður. Jónas gerði sér glögga grein fyrir því að tungan átti fjör sitt og fjölbreytni undir því að hún tækist á við samtíma sinn; þjónaði þeim sem leggja sér hana í munn með þeim hætti að hún gæti komið öllu því sem hugsað er í orð. Sú hugsjón Jónasar er arfleifð okkar í dag og okkur ber skilyrðislaust skylda til að hafa hana að leiðarljósi til framtíðar. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvernig hægt er að ganga til góðs „götuna fram eftir veg“. Samfélagið er í örri þróun, tækni fleygir fram, nýjungar koma fram á sjónarsviðið jafnhratt og fornar hefðir, verklag og veruleiki deyr út. Til að henda reiður á amstri daglegs lífs ríður á að tungumálið haldi í við þessa öru þróun. Það er þeirra sem nota íslenska tungu að sjá til þess að hún haldi fjöri sínu; því um leið og vegið er að tungunni er vegið að hugsuninni. Á meðan Jónas lifir með þjóð sinni með jafn ótvíræðum hætti og dagurinn í dag virðist bera vott um er tungunni þó vonandi borgið.