Indjánar Brasilískir indjánar halda við hefðum forfeðra sinna er ofsóttir voru af Spánverjum fyrir 500 árum.
Indjánar Brasilískir indjánar halda við hefðum forfeðra sinna er ofsóttir voru af Spánverjum fyrir 500 árum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókin sú myndi ekki einasta skelfa samtíma vorn, heldur og kynslóðir næstu alda.

Bókin sú myndi ekki einasta skelfa samtíma vorn, heldur og kynslóðir næstu alda.“ Svo ritaði Bartolomé de Las Casas um útrýmingu Spánverja á indjánum Ameríku og við sem erum uppi hálfri fimmtu öld og ófáum kynslóðum á eftir honum skelfumst líklega alveg nóg af bókinni sem hann skrifaði þetta í, Örstutt frásögn af eyðingu Indíalanda , sem hann tekur þó fram að reki aðeins brot af þessari helför Spánverja gegn indjánum í Mið- og Suður-Ameríku (auk syðsta hluta Norður-Ameríku).

Talið er að þegar Spánverjar komu til Ameríku hafi jarðarbúar verið um 400-500 milljónir, þar af hafi einar 80 milljónir búið í Ameríku. Af þessum 80 milljónum frumbyggja voru aðeins um tíu milljónir eftir sextíu árum síðar. Þjóðarmorð okkar tíma, jafnvel sjálf helför nasista, blikna í samanburði.

Ástæðurnar voru margvíslegar, Spánverjar brytjuðu milljónir indjána niður, aðra drápu þeir öllu hægar á þrælkunarvinnu eða létu þá drepast úr hungri á meðan þeir rændu af þeim öllum mat. Evrópskir smitsjúkdómar voru þó einn algengasti banabiti frumbyggjanna, en það hefur örugglega hjálpað landnámi hinna evrópsku sjúkdóma að heimamenn skyldu flestir vera aðframkomnir eftir að hafa mátt þola ofríki Evrópubúa í fjölda ára.

Las Casas skrifaði raunar mun lengri frásögn síðar, en það er þessi stutta frásögn, sem áður er getið, sem kom nýverið út á íslensku í þýðingu Sigurðar Hjartarsonar sagnfræðings, sem einnig ritar ítarlegan formála og gefur bókina sjálfur út. Áður hefur Sigurður þýtt Leiðarbækur Kólumbusar, en þær eru einmitt eingöngu til í handritum Las Casas.

Las Casas var þó fyrst um sinn rétt eins og hver annar nýlenduherra, þótt hann væri hófsamari en flestir landar hans. Hann var prestlærður og var fyrst hvort tveggja í senn, hermaður og herprestur, en gerðist svo landeigandi á suðurströnd Kúbu og fékk nokkra indjána í kaupbæti. En þegar Kúba breytist úr ósnortinni paradís í sannkallað helvíti á jörð tekur Las Casas snöggum og varanlegum sinnaskiptum, hann rís upp gegn ofríki Spánverja og ofbeldi gagnvart frumbyggjunum og eyðir því sem eftir er ævinnar í þá baráttu. Í lok formála síns kallar Sigurður Las Casas öflugasta málsvara mannréttinda í sögunni, enda barðist hann lengi og hatrammlega gegn ofurefli og flestum viðteknum hugmyndum síns tíma, sem iðulega snerust um yfirburði hinnar kristnu Evrópu yfir barbörunum í suðri, sem enn áttu nokkuð í land að öðlast sess manneskja í augum Evrópubúa miðaldanna. Eins og sagan birtist í meðförum Las Casas virðast yfirvöld heima á Spáni einfaldlega hafa misst öll tök á villimennsku þegna sinna suður í Ameríku, enda erfitt að hafa eftirlit með þegnum konungsríkisins þegar þeir eru í annarri heimsálfu og samskiptatæknin takmarkast við sendibréf og skipaferðir. Þó er erfitt að ímynda sér annað en konungur hefði getað stöðvað slátrunina ef hann hefði virkilega beitt sér.

Þó er merkilegt hvernig jafnvel þeir Evrópubúar sem komu til Nýja heimsins með göfugar áætlanir, innblásnar af boðskap Las Casas, urðu margir fljótlega að álíka villidýrum og landar þeirra sem fyrir voru. Það er auðvelt að vera með sigurvegurunum í liði og ansi erfitt að synda á móti straumnum – sérstaklega þegar um er að ræða jafn hrikalegan blóðstraum og flæddi yfir nýja heiminn með komu þess gamla. Vissulega spyr maður sig stundum hvort Las Casas hafi aldrei spurt sig um ástæður grimmdar Spánverja, hvaðan var hún upprunnin – var jafnvel einhver rót þessarar grimmdar í kristninni sem hann boðaði svo ötullega eða í valdastrúktúr konungdæmisins sem hann var svo trúr? En þá er rétt að muna að ólíkt flestum samtímamönnum sínum sá hann grimmdina – sem vafalaust hefur verið fullkomlega óskiljanleg þegar ekki var hægt að skoða hana í stækkunargleri aldanna, og er hún nógu illskiljanleg ennþá.

Það merkilega er þó að aðrir nýlenduherrar áttu seinna eftir að nota bókina til þess að berja á Spánverjum. Það tók bókina aldir að öðlast hylli á Spáni en áður en þriðja útgáfan kom út á Spáni voru útgáfur í Hollandi, Englandi og Frakklandi þegar farnar að skipta tugum, enda kom ávallt ný útgáfa á markað þegar ástæða þótti til að kynda undir óvild gegn þeim Spánverjum – og eins nýttu þessar þjóðir ritið til þess að réttlæta eigin nýlendustefnu, sem vissulega var ekki jafn blóðug, enda mun færri eftir til að drepa.

En um leið og þessi bók er eitthvert mesta fordæmingarrit allra tíma er hún rétt eins og aðrar skyldar frásagnir fyrst og fremst frásögn af blindu, óskiljanlegri blindu sem slær heilar þjóðir og heilar heimsálfur, jafnvel svo öldum skiptir. Hálfu árþúsundi síðar sjáum við geðveikina sem þó hefði átt að vera öllum augljós þegar Nýi heimurinn taldist ennþá „nýr“. Kannski er heimurinn eitthvað að batna eða kannski erum við jafn blind á óréttlæti eigin samtíma og Spánverjar sextándu aldarinnar voru? Svarið fæst á 25. öldinni – ef við verðum ekki öllum gleymd þá.

Ásgeir H. Ingólfsson (asgeirhi@mbl.is)