Verkmenntaskólinn á Akureyri Fjarkennsla í tveimur enskuáföngum hefst í janúar FJARKENNSLA í tveimur áföngum í ensku hefst við Verkmenntaskólann á Akureyri eftir áramótin.

Verkmenntaskólinn á Akureyri Fjarkennsla í tveimur enskuáföngum hefst í janúar

FJARKENNSLA í tveimur áföngum í ensku hefst við Verkmenntaskólann á Akureyri eftir áramótin. Nemendur geta verið hvar sem er á landinu, en þeir verða að hafa aðgang að tölvu, síma og mótaldi. Sömu kröfur verða gerðar í fjarkennslunni um verkefnaskil og annað eins og þegar um nám í dagskóla er að ræða. Kennt verður í gegnum Íslenska-menntanetið; ismennt-netið.

Umsjón með kennslunni hafa þeir Adam Óskarsson og Haukur Ágústsson kennarar við Verkmenntaskólann á Akureyri og sögðu þeir að í fyrstu yrði um tilraun að ræða og yrði byrjað á tveimur áföngum í ensku, ensku 102, og ensku 212. Vonir stæðu þó til þess að þeir áfanga mörkuðu aðeins upphafið að mun meira framboði námsefnis á fjölda sviða. Þegar fram liðu stundir yrði einstaklingum, hvar sem þeir eru staddir á landinu gert kleift að stunda nám af heimilum sínum og ná hvort heldur sem væri ákveðnu réttindum eða að auka hæfni sína á hverju því sviði sem þeir kjósa.

Samskipti

Samskipti milli nemenda og kennara verða annars vegar á opinni rás og hins vegar á persónulegum grunni með tölvupósti milli nemenda og kennara. Verkefni verða lögð inn á sérstakt svæði á ismennt sem allir hafa aðgang að, en hljóðbönd og annað efni sent nemendum eftir þörfum. Ákveðnar kröfur verða gerðar um framgang námsins m.a. varðandi verkefnaskil og annað, en standist nemandi ekki þær kröfur telst hann hafa sagt sig frá námi. Náminu lýkur með prófi sem er metið jafngilt þeim sem tekin eru í samsvarandi áföngum eða námi í almennum skólum.

Þeir Haukur og Adam sögðu að draumurinn væri að geta í nánustu framtíð boðið upp á heildstætt nám gegnum tölvunetið, ýmist til stúdentsprófs, réttindanáms eða verslunarskólaprófs. Þá nefndu þeir að hugsanlegt væri að koma á einstökum námskeiðum, m.a. væri hægt að bjóða bændum upp á námskeið í reikningsskilum og bókfærslu. Við þykjumst að sumu leyti vera að brjóta upp nýja leið, einstaklingum gefst nú kostur á að velja þann tíma sem hentugast er til námsins og nemendur geta verið hvar sem er á landinu," sögðu kennararnir.

Þessi nýjung í starfsemi Verkmenntaskólans á Akureyri hefur lítið verið kynnt enn sem komið er en Adam sagði að miðað við það væru viðbrögðin ágæt, margir hefðu spurst fyrir um þetta nám og sýnt því áhuga. Innritun á námskeiðin fer fram í skólanum fram til 10. janúar næstkomandi.

Morgunblaðið/Rúnar Þór

Enska kennd á tölvuneti

FJARKENNSLA í tveimur áföngum í ensku hefst eftir áramótin hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri og gefst einstaklingum hvar sem er á landinu sem aðgang hafa að tölvu og mótaldi kostur á að nýta sér þessa kennslu. Þeir Adam Óskarsson og Haukur Ágústsson sem hafa haft veg og vanda að undirbúningi fjarkennslunnar sýna hér Bernharð Haraldssyni skólameistara hvernig kerfið virkar.