Sveiflur Árni Einarsson hjá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn segir að mýsveiflurnar milli lágmarks og hámarks séu fimm til níu ár.
Sveiflur Árni Einarsson hjá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn segir að mýsveiflurnar milli lágmarks og hámarks séu fimm til níu ár. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is LÍTILS háttar röskun í umhverfinu getur leitt af sér margfalda sveiflu í vistkerfinu og haft þannig afdrifarík áhrif á lífsafkomu manna.

Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

LÍTILS háttar röskun í umhverfinu getur leitt af sér margfalda sveiflu í vistkerfinu og haft þannig afdrifarík áhrif á lífsafkomu manna. Þetta kemur fram í niðurstöðum forsíðugreinar tímaritsins Nature sem birt er í dag. Hafa þær þegar vakið athygli og er birt stór grein um rannsóknina á vefsíðu breska dagblaðsins Telegraph í gærkvöldi.

Fjallar greinin í Nature um rannsóknir á stofnbreytingum í Mývatni en þar eru mýflugur afar mikilvægar. Birtar eru niðurstöður rannsókna sem beinast að því að útskýra þær miklu sveiflur sem orðið hafa í lífríki Mývatns undanfarna fjóra áratugi. Sveiflurnar hafa m.a. orðið til þess að bleikjuveiði í þessu fræga veiðivatni heyrir nú sögunni til. Forsvarsmaður rannsóknarinnar er Anthony Ragnar Ives, prófessor í stofnvistfræði við Wisconsin-háskóla í Bandaríkjunum, en meðhöfundar eru Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvar við Mývatn, Vincent Jansen, prófessor við Royal Holloway College, og Arnþór Garðarsson, prófessor við HÍ.

Í greininni er kynnt nýtt reiknilíkan fyrir mýflugustofna, en fræðileg reiknilíkön sem fyrir voru hafa engan veginn dugað til þess að skýra sveiflurnar í Mývatni. „Þetta er ný vitneskja og hún breytir nokkuð sýn okkar á vistkerfið yfirleitt. Það má segja að þarna sé um að ræða vogarstangaráhrif,“ segir Árni. „Lítil breyting í umhverfinu getur valdið stórum breytingum á hegðun lífríkisins.“

Nýja reiknilíkanið sýnir að mýstofnar geta sveiflast eftir lögmálum sem áður voru óþekkt í vistfræðinni.

Þeir geta haldist í jafnvægi um hríð en síðan tekið að sveiflast af litlu tilefni. Lítils háttar röskun í umhverfinu getur valdið því að stofnarnir missa jafnvægið og taka að sveiflast. Þeir geta náð jafnvægi á ný af álíka litlu tilefni. Tímabil jafnvægis og sveiflu skiptast hratt á og útkoman verður sveifla með óreglulegri tíðni sem líkist þeirri sem mælst hefur í Mývatni.

Fram kemur í greininni að reiknilíkanið spáir einnig um hæð og lægð mýsveiflunnar en þar ræður úrslitum hve mikið af fæðu berst mýlirfunum af grynnri hlutum vatnsins.

Rannsóknin sýnir að lítils háttar röskun á tilflutningi fæðu af grunnsvæðum vatnsins til dýpri hluta þess getur valdið allsherjar fæðuskorti og hruni í átustofnum.

Svipuð lögmál í lífríki hafsins?

Árni segir auðvelt að ímynda sér að niðurstöður rannsóknanna í Mývatni geti átt við um fleiri vistkerfi en Mývatn. „Í stærra samhengi hafa niðurstöður rannsóknarinnar talsverða þýðingu. Þær sýna hvernig smáröskun á umhverfinu getur valdið margfaldri sveiflu í vistkerfinu og þannig haft afdrifarík áhrif á lífsafkomu okkar. Það er vel hugsanlegt að svipuð lögmál komi við sögu í lífríki hafsins og nú hafa komið í ljós í Mývatni.“

Áhrif námuvinnslu ljós

AÐ SÖGN Árna Einarssonar varpa niðurstöðurnar sem birtar eru í tímaritinu Nature einnig ljósi á áhrif kísilgúrvinnslu á lífríki Mývatns. Í fréttatilkynningu frá Náttúrurannsóknastöðinni er bent á að stofnsveiflur í vatninu mögnuðust fljótlega eftir að námugröftur á vatnsbotninum hófst 1967, en starfseminni var hætt 2004. Orsakasamhengið milli röskunar á botni Mývatns og átubrests í vatninu liggi nú ljóst fyrir fræðilega séð. „Við teljum okkur núna skilja gangverkið í þeim sveiflum sem eiga sér stað í Mývatni.

Það má orða þetta svo að ef menn vildu magna upp náttúrulegu sveiflurnar væri gott ráð að grafa holu í botninn sem tekur fæðuna frá mýlirfunum. Menn hafa grafið stóra og mikla holu í vatnsbotninn og upplifað miklu dýpri sveiflur en áður þekktust í þessum mæli og það hefur riðið bleikjustofninum að fullu. Þessi tengsl eru í okkar huga orðin eins örugg og hægt er að reikna með.“