Sigríður Dúna Kristmundsdóttir
Sigríður Dúna Kristmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TÖLUVERÐAR breytingar eru fyrirséðar á skipan sendiherra Íslands á næstu misserum. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að þrír nýir sendiherrar hefðu verið skipaðir og einn mundi láta af störfum á þessu ári en fimm til sjö hætta á árinu 2009.

TÖLUVERÐAR breytingar eru fyrirséðar á skipan sendiherra Íslands á næstu misserum.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að þrír nýir sendiherrar hefðu verið skipaðir og einn mundi láta af störfum á þessu ári en fimm til sjö hætta á árinu 2009.

Ekki fást upplýsingar í utanríkisráðuneytinu um hvaða sendiherrar hætta á næsta ári en það er hins vegar ekkert leyndarmál að Markús Örn Antonsson, sendiherra í Kanada, hættir á þessu ári enda hefur hann verið skipaður forstöðumaður Þjóðmenningarhússins frá og með 1. september nk.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrum umhverfisráðherra, taka við sendiherrastöðunni í Kanada. Þá mun Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sendiherra Íslands í Pretoríu í Suður-Afríku, taka við stöðu sendiherra í Ósló af Stefáni Skjaldarsyni. Guðmundur Eiríksson sendiherra, sem hefur starfað á skrifstofu alþjóðamála í utanríkisráðuneytinu undanfarið, mun taka við sem sendiherra í Suður-Afríku.

Þá mun Elín Flygenring, prótókollstjóri utanríkisráðuneytisins, fara til Strassborgar og taka við sem sendiherra hjá fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu sem starfar þar í borg og leysa sendiherrann Stefán Lárus Stefánsson af hólmi.