25. mars 2008 | Leiklist | 607 orð | 1 mynd

„Manneskjan á alltaf erindi við okkur“

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir eiginmanni, dóttur og bróður í Engisprettum

Feðgin Þau Arnar Jónsson og Sólveig Arnarsdóttir í hlutverkum sínum í Engisprettum sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á fimmtudagskvöld.
Feðgin Þau Arnar Jónsson og Sólveig Arnarsdóttir í hlutverkum sínum í Engisprettum sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á fimmtudagskvöld.
„ÞETTA verk vekur hjá fólki fullt af spurningum um það sjálft og hvernig það hagar sér.
„ÞETTA verk vekur hjá fólki fullt af spurningum um það sjálft og hvernig það hagar sér. Góð leikrit dýpka og víkka sýn okkar á heiminn,“ segir Sólveig Arnarsdóttir leikkona um serbneska leikritið Engisprettur eftir Biljana Srbljanovic sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu á fimmtudagskvöldið. „Manneskjan á alltaf erindi við okkur og það kemur okkur líka við hvernig ástandið er annars staðar í heiminum.“

Í leikritinu er fylgst með fólki sem berst við eftirköst stríðsins, en lokar augunum fyrir þeim um leið. „Það lýsir í rauninni bara fólki sem að hefur lifað allan þann óskapnað sem átt hefur sér stað á Balkan-skaga undanfarna áratugi, en lætur eins og ekkert hafi gerst, hefur ekki gert upp fortíðina, horfir ekki til framtíðar og er bara statt í núinu, ansi firrt. Þar af leiðandi er þetta dálítið góður spéspegill á mannfólkið.“

Persóna hennar í verkinu heitir Nadezda. „Það þýðir von og hún er kannski eina manneskjan sem er svona nokkurn veginn með „fulde fem“ í þessu verki.“ Sólveig segir engar aðal- eða aukapersónur í leikritinu, heldur sé þar fjallað um 11 persónur sem allar hafa jafnmikið vægi. „Í rauninni er þetta eins og fólkið sé á hringekju og svo er staldrað við og litið nánar á samskiptin þeirra á milli. Það kemur svo í ljós að þær tengjast meira og minna innbyrðis. Þetta er eins og oft með verulega góð leikverk, að þegar maður fer að kafa dýpra í það finnur maður mörg lög sem ljúkast upp fyrir manni. Auk þess er það ótrúlega fyndið og skemmtilegt og merkilegt hvað höfundurinn fjallar um þetta fólk af mikilli elsku og skilningi.“

Mamma ekki ströng

Fjölskylda Sólveigar kemur víða við sögu í þessari uppfærslu, Þórhildur móðir hennar leikstýrir og Sólveig deilir sviðinu með bæði föður sínum og móðurbróður, þeim Arnari Jónssyni og Eggert Þorleifssyni. Samstarfið í fjölskyldunni hefur gengið vel, að hennar sögn.

„Foreldrar mínir hafa mikið unnið saman og mamma og Eggert líka. Það er nú einfaldlega þannig að þegar fólk mætir í vinnunna þá er það í vinnunni,“ segir Sólveig og vill ekki meina að mamma hennar sé ströng.

„Ekkert meira en við aðra. Hún er mjög krefjandi leikstjóri og þess vegna nær hún kannski einhverju út úr fólki sem aðrir gera ekki. Hún leyfir leikurum ekki að fara einföldustu leiðina og sér í gegnum mann ef maður „feikar“. Sem er gott.“

Mikill styr hefur staðið um serbneska leikskáldið Biljana Srbljanovic. Hún hefur fengið verðlaun fyrir leikritun í mörgum Evrópulöndum en er mjög umdeild í heimalandi sínu. „Hún hefur alltaf verið með mikið andóf gegn ríkjandi stjórnvöldum og gegn Milosevic þegar hann var við völd og hún hefur verið mjög hávær og opinská í sinni baráttu gegn þeim. Hún til dæmis sakaði leikstjórann Emir Kusturica um að hafa verið á mála hjá Milosevic og fyrir það hafa þau verið fyrir dómstólum. Það er greinilega mikið stuð í kringum hana,“ segir Sólveig.

Blóðug fortíð

Sólveig var búsett í Þýskalandi í um áratug og segir að þar sé barist um að fá að setja verk Srbljanovic upp. Vinsældirnar séu engin tilviljun, því umfjöllunarefnið, að horfast í augu við blóðuga fortíð, er eitthvað sem stendur Þjóðverjum nærri. „Á Balkanskaganum hafa geisað borgarastyrjaldir og stríð öldum saman. Ef maður yrði að gera upp á milli þess hvaða stríð eru skelfilegri en önnur þá hefur maður á tilfinningunni að borgarastríðin séu verst. Þegar bræður rísa gegn bræðrum og nágrannar gegn nágrönnum. Í Júgóslavíu voru allir Júgóslavar þangað til þeim var allt í einu skipt upp og nú var einn Króati og annar Serbi og svo áttu þeir bara að drepa hvor annan. Þetta er eins og við hérna ættum allt í einu að fara að drepa Norðlendinga.“

Engisprettur

Leikritið Engisprettur er eftir Serbneska leikskáldið Biljana Srbljanovic. Leikstjóri í uppsetningu Þjóðleikhússins er Þórhildur Þorleifs- dóttir, tónskáld sýningarinnar er Giedrus Puskunigis og Davíð Þór Jónsson þýddi.

Leikarar eru Anna Kristín Arngrímsdóttir, Arnar Jónsson, Eggert Þorleifsson, Friðrik Friðriksson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Gunnar Eyjólfsson, Hjalti Rögnvaldsson, Pálmi Gestsson, Sólveig Arnarsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir og Þórunn Lárusdóttir.

Vytautas Narbutas hannaði leikmynd og Filippía I. Elísdóttir búninga. Lýsing er í höndum Lárusar Björnssonar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.